Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Að bjarga útvöldum úr brennandi húsi – íslenska leiðin

$
0
0

Yfirstandandi neyð landflótta fólks einkum Sýrlendinga, sem sökum stríðsátaka hafa í milljónatali orðið að yfirgefa heimili sín, er skelfileg. Hroðalegar fréttir berast af þeim og öðru stríðshrjáðu fólki sem hættir lífi sínu til að komast til Evrópu. Þúsundir hafa drukknað í hriplekum yfirfullum bátum, tugir hafa kafnað í flutningabílum eða skipalestum, enn aðrir láta lífið á leiðinni gangandi. Bróðurpartur þessa fólks er í flóttamannabúðum í nærliggjandi löndum, Líbanon, Jórdaníu og Tyrklandi. Aðeins lítið brot af þeim Sýrlendingum sem flúið hafa heimili sín sækir til Evrópu eða sem svarar um 2% af 12 milljónum.

Margt fólk sem lætur sig mannúð varða hafa undrast það – að íslensk stjórnvöld ætli sér ekki að bregðast við neyð þessara milljóna sýrlensku flóttamanna með öðrum ráðum en þeim að taka á móti 50 handvöldum einstaklingum. Velferðarráðherra sagði í viðtali í ríkissjónvarpinu eitthvað á þá leið að einstæðum mæðrum og samkynhneigðu fólki yrði sérstaklega boðið, þar sem þetta fólk væri í afar bágri stöðu og íslenskt samfélag væri opið og frjálslynt gagnvart þessu hópum og því við hæfi að taka á móti því. Það er í sjálfu sér virðingarvert framtak.

Ég verð þó að segja að mér finnast aðgerðir íslenskra stjórnvalda einna helst líkjast því að ætla sér að velja hverjum er bjargað úr brennandi húsi. Bjarga bara útvöldum, eða þeim sem manni líst vel á. Setjið ykkur í þessi spor bæði hinna valdalausu og þeirra sem með valdið fara. Neyðarhjálp til fólks getur ekki byggst á eiginhagsmunum það er hreint út sagt siðlaust.

Það gerðu íslensk yfirvöld í seinni heimstyrjöldinni þegar landflótta gyðingum var vísað frá Íslandi og beint í dauðann. Það hentaði ekki stjórnvöldum þess tíma að koma því fólki til bjargar. Landlausir flóttamenn eftirstríðsáranna áttu heldur ekki athvarf á Íslandi af sömu ástæðum. Látum ekki þá ljótu sögu endurtaka sig.

Þegar gaus í Eyjum 1973 fengu allir landflótta Vestmannaeyingar athvarf upp á landi sumir settust þar að, aðrir fluttu aftur til Eyja þegar það varð fært. Eins er með stríðsflóttamenn.

ss-migrants-serbia-hungary-07-jpo.nbcnews-ux-1024-900

Ljósmynd Laszlo Balogh / Reuters

Íslenska þjóðríkinu ber sem fullvalda ríki á alþjóðavettvangi, skylda til að axla ábyrgð á þeirri neyð sem steðjar að flóttafólki, einkum því sem flýr heimalönd sín vegna stríðsátaka og skelfilegra hryðjuverka. Lausn á stríðsátökum er hins vegar langtímamarkmið sem bíður annara afla en íslenskra stjórnvalda.

Yfirvöld evrópuríkjanna bregðast misjafnlega við, sum víggirða landamærin og setja herinn í viðbragðsstöðu eins og Ungverjaland gerir. Aðrir, líkt og Svíar og Þjóðverjar hafa opnað lönd sín fyrir alla sýrlenska flóttamenn sem þangað koma og lofa þeim landvist.

Ef Ísland tæki á móti jafnmörgum flóttamönnum og áætlað er að Þjóðverjar muni gera nú í ár – miðað við að taka móti 800 hundruð þúsund flóttamönnum eða 10.000 flóttamönnum á hverja milljón íbúa – þá ættu íslensk yfirvöld að bjóða 3300 flóttamenn velkomna til landsins.

Landsmenn og yfirvöld geta sýnt mannúð sína í verki með því að skjóta skjólshúsi yfir mun fleiri flóttamenn en áætlað er. Neyð þessa fólks kemur mér við og okkur öllum.

Munum að fólk sem flýr stríðsátök hefur ekki beðið um stríð.

 

 Ljósmynd efst í grein Armend Nimani / AFP – Getty Images/ Stúlka með brúðuna sína. Brúðan er fótalaus.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283