Fjórfalt fleiri konur starfa við kennslu í grunnskólum landsins en karlar. Þetta er verulegur kynjahalli og umhugsunarefni. Karlmönnum hefur fækkað í kennarastétt frá haustinu 1998 en þá voru karlmenn 26,0% en telja nú aðeins 18,7% starfsfólks í kennslu.
Haustið 2014 voru 3.911 konur og 901 karl starfandi við kennslu í grunnskólum landsins.
Láta karlmenn ekki bjóða sér kjör kennara? Er eitthvert jafnrétti í því að börn alist upp í skökku kynjahlutfalli kennara?
Fleiri konur skólastjórar
Fleiri konur eru skólastjórar á landinu en karlar. Haustið 2014 gegndu 108 konur stöðu skólastjóra á meðan aðeins 63 karlmenn eru skólastjórar á landsvísu.
Einnig er umhugsunarefni hár aldur kennara en meðaldur fólks sem fæst við kennslu er 46,4 ár. Til samanburðar má geta að árið 2000 var meðalaldur kennara 42,2 ár og er því ljóst að meðalaldur kennara fer hækkandi.
Á tímabilinu 2000-2014 hefur meðalaldur kvenkennara hækkað meira eða úr 41,8 árum í 46,5 ár. Meðalaldur karlkennara hefur hækkað úr 43,6 árum í 46,0 ár.
Heimildir: Hagstofa Íslands.