Ásta Hafberg er búin að skrifa Eyglóu Harðardóttur á síðunni Kæra Eygló – Sýrland kallar þar sem hún býður fram Núp í Dýrafirði fyrir flóttamannabúðir. Ásta er búin að koma málinu áfram í hendur bæjarfulltrúa á Ísafirði sem ætlar að taka málið áfram innan sveitarfélagsins. Kvennablaðið heyrði í Ástu:
Hvað sérðu fyrir þér að það mætti koma mörgum flóttamönnum fyrir á Núpi?
Þegar við fórum að hugsa þetta mál hér á Núpi og fara yfir hvað húsnæðið ber þá er það þannig að á Núpi er hægt að taka á móti um 90-100 manns. Þá sjáum við fyrir okkur foreldra og börn. Þar sem Núpur er gamall skóli er hér allt til alls svo sem skólastofur, þar sem hægt er að kenna íslensku yfir veturinn og ýmist annað sem getur gagnast þessu fólki í nýju samfélagi, leikfimisalur og stofur sem hægt er að nýta undir sálfræði og áfallahjálpsviðtöl og meðferðir.
Er til fjármagn til að fæða stóran hóp fólks?
Þar sem ég er ofurbjartsýn að eðlisfari þá er ég viss um að fjárhagshliðin er eitthvað sem hægt er að láta ganga upp. Ef þetta verkefni verður viðurkennt af ríki og bæ kæmi einhver stuðningur þaðan og svo hef ég fulla trú á að Íslendingar myndu leggja þessu lið hvort sem er í sjálfboðavinnu, fjárhagslega eða með því að senda föt og leikföng á staðinn. Við myndum reyna að standa fyrir söfnunum sjálf til að styrkja við þetta.
Hvaða starfsemi er á Núpi fyrir og hvaða stöðu gegnir þú þar?
Núpur er gistiheimili í rekstri og ég hef gegnt stöðu aðstoðarhótelstýru þar síðustu tvö sumur.
Hvernig hugsarðu þetta?
Ég sé þetta fyrir mér sem tímabunda aðstoð. Staður þar sem þetta fólk sem hefur liðið hörmungar og ógeð getur náð áttum og fengið áfallahjálp og byrjað að fá kennslu í gagnlegum hlutum um íslenskt samfélag og í íslensku. Ég tel það gott að það geti verið saman á einum stað til að byrja með því áföllin sem það hefur orðið fyrir eru svo gífurleg og það er örugglega gott að geta talað um hlutina með sér líkum og unnið úr þeim í rólegheitum.
Nú má gera ráð fyrir því að einhverjir flóttamannanna þurfi læknishjálp og hugsanlega þurfa margir áfallahjálp. Hefurðu aðstöðu til að finna mannskap til að sinna slíkum einstaklingum?
Eins og staðan er núna hefur bæjarfulltrúi á Ísafirði tekið þetta mál undir sinn væng og er að fara með þetta áfram innan sveitarfélags og til Rauða Krossins. Ísafjörður hefur áður tekið á móti flóttamönnum, þá frá Króatíu, þannig að það liggur know how innan sveitarfélagsins hvað þarf til og hvernig. Því hef ég fulla trú á að með samhentu átaki megi veita þessu fólki það áfallahjálp og þá læknisaðstoð sem það þarf.
Er fólk á staðnum sem er til í að vinna að þessu með þér?
Ég og börnin mín munum vera hér og sjá um daglega umsjón og praktíska hluti ef af þessu verður og einngi hefur fólk haft samband við mig sem er tilbúið að gefa vinnu sína sem kennarar, túlkar og þar fram eftir götunum. Við Íslendingar erum svo skringilega úr garði gerð að þegar á bjátar þá snúum við bökum saman og gerum hlutina og það virðist ætla að vera raunin með þetta þó þetta sé enn á byrjunarreit.
Nú er eitt að taka á móti fólki og veita því aðhlynningu um stundarsakir og annað að hjálpa því að koma sér fyrir í íslensku samfélagi?
Ef við getum gert þetta eins og ég hef verið að lýsa, gefið þessu fólki grunn, þá sé ég þetta þannig fyrir mér að þetta verkefni sé tilvalið samstarfsverkefni fyrir sveitarfélögin fyrir vestann. Bæði á meðan fólkið er á Núpi en svo sérstaklega þegar það fer að fara út í samfélagið. Fyrir vestan eru 11 þorp sem auðvitað eru misstór en ef fólkinu væri gefin möguleiki á að hafa búsetu í þeim öllum og væri deilt niður á einhvern skynsaman máta þá værum við að tala um að það færu kannski tvær fjölskyldur á minnstu staðina og fleiri á þá stærri. Þannig yrði álagið á hvern stað mjög lítið og það ætti að vera hægt að koma tveimur til fimm fjölskyldum í húsnæði og vinnu þannig að fólkið hafi möguleika á að byggja upp líf að nýju.
Hvernig sérðu fyrir þér að fylgja þessu eftir? Kemur þá til kasta stjórnvalda – eða hverra?
Ég hef sett mig í samaband við Eyglóu Harðar og Ísafjarðarbæ eins og fram hefur komið. Núna mun ég sjálf fylgja þessu eftir með því að halda áfram að finna út úr því hvernig er hægt að gera þetta og hve fljótt. Ég tel mikilvægt að við tökum af skarið mjög fljótt og eyðum ekki tíma í droll. Það eru mannslíf í húfi.
Auðvitað verða svona hlutir að vera samstarfsverkefni á milli ríkis, sveitarfélaga og almennings því við megum ekki gleyma almenningi í þessu. Það eru margir tilbúnir að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða og það skiptir allt máli. Allt sem við gerum núna er mikilvægt, alveg sama hvort það er að gefa pening í safnanir, opna dyr okkar fyrir fólki, safna fötum eða hvað annað sem okkur dettur í hug að gera til að hjálpa.
Við megum ekki gleyma því að allir þessir dropar, sem okkur sjálfum finnst kannski lítilsverðir af því að við viljum gera meira og stærra, þeir skipta máli.
Hver einasti dropi í hafið telur.