Þegar kona er einhleyp þá fer hún gjarnan á alls kyns síður á vefnum til að sjá hvað er í boði. Ég er venjulega bara að skoða í gluggana ef svo má að orði komast, alveg eins og þegar maður fer niður Laugaveginn, ekki til þess að kaupa neitt heldur bara til að ganga um og skoða í búðarglugga. Einstaka sinnum álpast maður inn í búð og fer að skoða betur það sem maður sá í glugganum.
Í einni af ferðum mínum um netið að skoða hvað væri í boði ákvað ég að hitta einn mann sem ég hafði verið að tala stuttlega við. Hann lofaði góðu, var vel menntaður, í eigin húsnæði, myndarlegur og virtist vera áhugaverður.
Við mæltum okkur mót á kaffihúsi niðri í bæ, ég var komin tímanlega en hann lét mig bíða eftir sér í nokkra stund. Þegar hann kom og settist niður þá fannst mér í fljótu bragði hann ekki vera mín týpa en þar sem móðir mín kenndi mér að dæma fólk ekki eftir útlitinu þá ákvað ég að gefa honum tækifæri.
Við ræddum um heima og geima, landsbyggðarpólitík og sjávarútveginn. Hann sagði mér að hann hefði eitt sinn setið fyrir sem módel í myndlistarskóla, mér persónulega fannst það bara frekar flott og hrósaði honum fyrir hugrekkið, var eiginlega frekar hissa því hann virkaði ekki þessi „týpa“ sem væri svona hispurslaus. Þetta sýndi mér að lengi má manninn reyna. Maðurinn uppveðraðist allur við hrósið og vildi endilega fá að sýna mér nokkrar myndir.
Hann dró upp símann sinn og sagðist vera með nokkra myndir í símanum. Hann fletti í gegnum myndirnar, í fyrstu gætti hann þess að ég myndi ekki sjá hans allra heilagasta á myndunum en svo stóð honum alveg á sama, því við vorum hvort sem er öll sköpuð eins, og sýnir mér bara allar myndirnar sem voru þónokkuð margar.
Mér leið vægast sagt kjánalega að sitja á kaffihúsi með ókunnugum manni með síma fullan af nektarmyndum af sér sem hann var ólmur í að sýna mér. Ég veit ekki hverju maðurinn var að sækjast eftir, hvort ég átti að hrósa stærð og lögun veit ég ekki. Þegar myndasýningunni var lokið hallaði hann sér að mér og sagðist ekki vera skotinn í mér en mikið hefði ég girnilegan barm.
Ég kvaddi hann fljótlega og hef ekki séð né heyrt til hans síðan.