Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Bjó til gagnagrunn fyrir þá sem vilja hjálpa flóttafólki

$
0
0

Sverrir Bollason tók sig til og bjó til gagnagrunn eða aðfangaskráningu sem nýta má við komu flóttafólks til Íslands. Hann póstaði skráningunni inn á Facebookhópinn Kæra Eygló Harðar – Sýrland kallar, þar sem Íslendingar í þúsundatali hafa lýst yfir stuðningi sínum við flóttafólk. Facebooksíðan hefur nú vakið heimsathygli.

Á aðfangaskráningu Sverris getur fólk skráð sig inn og gefið upplýsingar um með hvaða hætti það vill skuldbinda sig til að leggja hönd á plóginn. Þar segir:

Hér er hægt að skrásetja frjáls framlög til að geta tekið á móti flóttmönnum. Allt sem þið hafið lofað að leggja fram í hópnum „Kæra Eygló Harðar – Sýrland kallar“ er þá skrásett í gagnagrunn sem auðveldar að nýta þau aðföng sem búið er að lofa. Þessi skrásetning er sjálfsprottinn og er EKKI sett fram af Rauða Krossinum en gögnin verða afhent RKÍ 7. september 2015.

Þetta er ákaflega gagnlegt því þá er auðveldara að henda reiður á því hvaða hjálp er að finna hér á landi. Við heyrðum örstutt í Sverri:

Hvernig datt þér í hug að búa til þennan gagnagrunn?

Bryndís ( Rithöfundurinn og háskólakennarinn Bryndís Björgvinsdóttir) setti auðvitað þessa pælingu í loftið og ég sá viðtökurnar sem viðburðurinn á Facebook fékk. Sem gagnanjörður og mjög skipulagsþenkjandi gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hvernig væri hægt að vinna með þessar upplýsingar sem fólk var að leggja til.

Bryndís Björgvinsdóttir

Bryndís Björgvinsdóttir

Ég á reyndar erfitt með að skilja hvað facebook er mikið notað fyrir allskonar samskipti sem það hentar í raun ekkert svo vel fyrir. En þarna er auðvitað massinn af fólki og þar verður til þessi hópstemmning.

Það myndast rosalegur skriðþungi í svona viðburðum strax í upphafi og svo dofnar áhuginn með tímanum. Þannig að það er mikilvægt að svona sé gert mjög hratt. Ég greip því bara það verkfæri sem hendi var næst og aðgengilegast. Ég vissi líka að konan mín myndi byrja að ræða við matarborðið að þessar færslur á Facebook væru til lítils ef það væri ekki hægt að nýta þær.

Hvernig hugsarðu þér að upplýsingarnar muni nýtast?

Þetta er bara hugsað sem þjónusta við það stóra markmið sem Bryndís sá með því að setja þennan viðburð af stað og planta þessari hugmynd. Gögnin verða afhent Rauða krossinum á Íslandi um helgina og þau ákveða hvort og hvernig þau vilja nýta þetta. Mér finnst bara skipta máli að ef einhver ábyrgur aðili með þekkingu og aðstæður geti nýtt þennan góðvilja til góðra verka. Annars geta líka allir sem vilja lesið yfir síðuna og það sem fólk hefur verið að lofa og reynt að nýta það þannig.

Þetta er mjög táknrænt að því leyti að almenningur er að segja: „Ég get gefið eitthvað til að leysa þennan vanda og ég vil að ráðamenn geri eitthvað með það í huga.“ Þegar upp er staðið eru þeir hlutir sem almenningur getur lagt fram einn liður í langri keðju þjónustu við flóttafólk. Og þótt þetta sé mikilvægur hlekkur þarf öll keðjan að vera til staðar ef við ætlum að taka á móti fólki. Ef þetta verður til þess að sveigja almenningsálit hér á Íslandi, í Evrópu og ekki síst í nágrannalöndum Sýrlands þá hefur þetta átak á Íslandi verið til mikils góðs. Og ef við getum breytt því almenningsáliti í aðgerðir ríkisstjórna þá erum við farin að eygja lausn fyrir fullt af fólki.

11850602_10153558558212889_8446985979773776151_o

Hversu hafa margir nú þegar skráð sig?

Gögnin sýna að um 1.400 fjölskyldur eru reiðubúnar að leyfa fólki að gista heima hjá sér eða í íbúð á sínum vegum. Fólk er tilbúið að leggja fram föt og húsbúnað og ekki síst er fólk til í að leggja fram tíma sinn og þekkingu svo að öðrum megi líða betur og njóta skjóls frá óöryggi og ofbeldi. Það hefur orðið vakning og ég á von á að stór hluti þessa fólks muni skila sér þegar kallið kemur til að aðstoða þá sem við tökum á móti. Þá er gott að hafa upplýsingarnar á hentugu formi!

Hér skráningarformið þar sem þú getur tilgreint hvernig þú og þín fjölskylda getur aðstoðað. Þar kemur einnig fram hvernig styrkja má Rauða Krossinn og Unicef og þeirra starf.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283