Ef þú ert ein(n) af þeim fáu sem segja það hræsni að vilja hjálpa flóttamönnum utan úr heimi þegar fólk hefur það bágt á Íslandi ertu hreinræktaður hálfviti. Fyrir utan að oft er það sama fólkið sem finnst það ömurlegt hvernig komið er fram við ýmsa þjóðfélagshópa hér á landi og vill taka á móti fleiri flóttamönnum.
Þegar einhver segir að fyrst þurfi að hlúa að Íslendingum sem sannarlega hafa það skítt áður en við förum að hugsa út fyrir landsteinana má ekki þreytast á því að minna á að eitt útilokar ekki annað.
Mér finnst vissulega glatað hversu margir Íslendingar búa við fátækt en það vekur ekki sömu viðbrögð hjá mér að sjá þá í strætisvagni eða í biðröð eftir mataraðstoð og að sjá myndir af drukknuðum börnum í sjávarmálinu.
Ég horfði á viðtalið við skopmyndateiknara Morgunblaðsins sem tekið var í Íslandi í dag en ég vonaði að hann myndi vekja mig til umhugsunar um húmor, tjáningarfrelsið og af hverju listamenn eiga að ögra. En síðan er maðurinn bara vitleysingur. Hann talaði bara um litaval, skuggana og eitthvað sem skipti engu máli. Skildi ekkert í því af hverju fólki fannst þetta ekki spaugilegt. Að spauga með dauða ungbarna er ekki alveg á hvers manns færi en það er alveg hægt. En ef þú ert hirðskopmyndateiknari Morgunblaðsins ertu sennilega ekki nógu hæfileikaríkur.
Ef ég gæti ýtt á takka sem myndi dæma okkur öll til ævilangrar fátæktar en bjarga fólkinu sem dáið hefur við tilraunir sínar til að öðlast líf annars staðar þá væruð þið öll komin á bætur á augabragði.
Að sama skapi myndi ég gera alla sumarbústaði landsins upptæka og gefa heimilislausum Íslendingum ef ég hefði til þess eitthvert vald. Og allir þessir lúxusjeppar yrðu ófá strætókort handa þeim sem hafa ekki efni á að reka bíl.
Við sem hér búum erum sjálf flest afkomendur flóttafólks frá Noregi og ófáir Íslendingar flúðu sjálfir dauða og sjúkdóma og fluttust til Kanada og Bandaríkjanna. Ég held að taldir hafa verið 14.268 Íslendingar sem flúðu þangað á árunum 1870–1914. Því eigum við að skilja þetta manna best.
Orðræða sumra og tal um einhvern vagn sem góðhjartað fólk á að vera að stökkva á til að sýnast góðhjartaðri en aðrir er svo mikil steypa og ljótt að næsta málefni sem þjóðin sameinast um þarf að vera um nauðsyn þess að niðurgreiða sálfræðiþjónustu við þetta fólk.