Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hringleikahús háhyrninganna – Blackfish

$
0
0

Blackfish er heimildamynd sem var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni 2013 og fjallar um háhyrninginn Tilikum sem var fangaður við Íslandsstrendur árið 1983. Hann var fyrst um sinn til sýnis í Sædýrasafninu í Hafnarfirði, var þaðan seldur til Kanada og að lokum fluttur til Sea World í Flórída þar sem hann tekur enn þátt í sýningum og er notaður til undaneldis. Tilikum hefur valdið dauða þriggja einstaklinga, tveir þeirra voru þjálfarar sem unnu náið með honum til lengri tíma. Fleiri dýr í haldi Sea World hafa einnig sýnt svipaða tilburði.

Leikstjóri myndarinnar, Garbriela Cowperthwaite, notar áhrifaríkar myndir og viðtöl til að sýna fram á ranglæti þess að halda þessum dýrum í búrum, okkur mannfólkinu til skemmtunar. Hún ræðir við fyrrum þjálfara Tilikum og annarra háhyrninga auk fjölda sérfræðinga sem rannsakað hafa dýrin í sínu náttúrulega umhverfi og leitar þannig útskýringa á tildrögum þessarra skelfilegu atburða. Í myndinni er rannsakað hvernig misskilningur á eðli dýranna og skaðlegar aðstæður geta valdið því að háhyrningarnir ráðist á fólk – aldrei hefur verið sýnt fram á að háhyrningar í sínu náttúrulega umhverfi geri slíkt. Þannig er deilt á tilvist sædýragarða og sjónum sérstaklega beint að Sea World í Flórida. Myndin fjallar einnig um dómsmál á milli Sea World og OSHA (Occupational Safety and Health Admissions) í kjölfar dauða þjálfarans Dawn Brancheau. OSHA stefndi Sea World fyrir að setja hagnað fyrirtækisins ofar en öryggi þjálfara og var málið tekið fyrir í ágúst 2010 en er enn ólokið. Aðstandendur Sea World neituðu allri þátttöku í myndinni.

 

Úlfar hafsins

Háhyrningar eru hjarðdýr sem halda hópinn og tengjast oft fjölskylduböndum. Þeir eru oft nefndir úlfar hafsins vegna veiðihæfni sinnar og dráps á öðrum spendýrum. Fullvaxnir tarfar verða að meðaltali 10 metrar á lengd og allt að 10 tonn að þyngd en kýr eru minni og verða sjaldan stærri en 6 metrar og allt að 7 tonn. Háhyrningar eru skynverur og hafa rannsóknir taugasérfræðinga sýnt fram á að mögulega séu þeir með hærri tilfinningagreind en mannfólkið. Samfélag háhyrninga er álíka margþætt og hjá mönnum og fílum og dvelja afkvæmi háhyrninga til dæmis hjá móður sinni alla ævi. Dýrin skiljast aðeins að í nokkra klukkutíma í senn annaðhvort til að makast eða leita að æti. Háhyrningar hafa einnig mjög þróað samskiptaform sem er ólíkt á milli hjarða. Vegna þessarar flóknu samfélagsgerðar hafa sérfræðingar lýst yfir áhyggjum af því að þessi dýr séu aðskilin og haldið föngnum.

Háhyrningar eru skynverur og hafa rannsóknir taugasérfræðinga sýnt fram á að mögulega séu þeir með hærri tilfinningagreind en mannfólkið.

 

Drápshvalurinn Tilikum

Háhyrningurinn Tilikum á forsíðu Morgunblaðsins árið 1984

Háhyrningurinn Tilikum á forsíðu Morgunblaðsins árið 1984

Tilikum var fangaður í Berufirði þann 9. nóvember 1983 þegar hann var aðeins tveggja ára. Hann var fluttur í Sealand of the Pacific í Kanada þar sem hann var settur í búr með tveimur öðrum kvenkyns háhyrningum og lenti hann neðst í goggunarröðinni og varð fyrir stöðugum árásum hinna dýranna. Aðeins net aðskildi þá frá hafinu og hafði eigandinn áhyggjur af því að þeir gætu annaðhvort nagað sig í gegnum netið eða yrði sleppt af aðgerðarsinnum og af þeim sökum voru þeir lokaðir inni á nóttunni í búri sem var um 6 metrar á dýpt og 8,5 metrar á þvermál. Þjálfunaraðferðir Sealand hafa einnig verið umdeildar en í þeim fólst að mat var haldið frá dýrunum ef þau hlýddu ekki skipunum þjálfara. Tilikum þekkist á horninu á bakinu sem hangir niður, sem þekkist ekki hjá villtum dýrum en er algengt meðal háhyrninga sem haldið er föngnum og talið er að reist hornið sé ákveðið kyntákn.

Fyrsta fórnarlamb Tilikum var Keltie Byrne sem vann sem hlutastarfsmaður hjá Sealand í Kanada og átti atvikið átti sér stað í febrúar 1991. Hún rann út í laugina þar sem háhyrningarnir þrír drógu hana á kaf og komu í veg fyrir að hún kæmist að yfirborðinu og drukknaði hún að lokum. Tæpu ári síðar var Tilikum fluttur í Sea World í Flórída og Sealand var lokað skömmu síðar.

Árið 1999 fannst Daniel P. Dukes látinn á baki Tilikum. Hann hafði verið gestur í Sea World sama dag og hafði honum tekist að vera áfram í garðinum eftir lokun og fékk sér sundsprett í lauginni ásamt háhyrningunum. Krufningin sýndi fjölda meiðsla af völdum háhyrninganna en opinber niðurstaðan var að hann hefði látist af ofkælingu eða drukknað.

Í febrúar 2010 var Tilikum valdur af þriðja dauðsfallinu er hann drap þjálfarann Dawn Brancheau. Framkvæmdastjóri Sea World gaf í skyn að Brancheau hefði verið óvarkár þar sem hún var með hárið í tagli sem Tilikum hefði haldið að væri fiskur. Þá sagði hann að taglið hefði mögulega fest í tönnum hans þegar hann beit í það, en vitni sögðu aftur á móti að Tilikum hefði í raun dregið hana niður í laugina á handleggnum.

[...] hver sá sem heyrir hljóð móðurinnar við aðskilnaðinn fær nístandi sting í hjartað.

Tilikum tekur enn í dag þátt í sýningum Sea World í Orlando, en var haldið frá sýningum í eitt ár eftir dauða Brancheau árið 2010 og hafa þjálfarar nú ekki leyfi til að fara út í laugina með háhyrningunum á sýningum en hafa þó leyfi til að sinna dýrunum, hlúa að þeim og mynda við þau sambönd utan sýninga. Jafnframt er Tilikum enn notaður til undaneldis og er Sea World þekkt fyrir að sæða kvenkynsdýr mun fyrr en þau myndu gera í náttúrunni sem veldur því oft að dýrin sýna afkvæmum sínum illgirni og virðast ekki hafa þroska til að annast afkvæmi sín líkt og fullvaxta dýr. Fyrir vikið aðskilur Sea World oft kálfa frá ungum mæðrum sínum og hver sá sem heyrir hljóð móðurinnar við aðskilnaðinn fær nístandi sting í hjartað.

 

Heimildamynd sem vert er að sjá

Tilikum og Dawn Brancheau

Tilikum ásamt Dawn Brancheau 

Myndin er að mestu einhliða frásögn sem byggir á viðtölum við fyrrum þjálfara háhyrninga í Sea World og viðtölum við sérfræðinga og hvalveiðimenn sem tóku þátt í að fanga háhyrningana. Aðstandendur Sea World neituðu alfarið að koma að gerð myndarinnar enda tekur myndin mjög sterka afstöðu gegn starfsemi þeirra og starfsháttum. Aðeins einn fyrrum þjálfari talar gegn fullyrðingunni um það að halda háhyrningum föngnum geti gert þá geðveika og segir hana einfaldlega ranga. Hann heldur því einnig fram að Sea World geti skapað umhverfi þar sem hægt er að koma í veg fyrir að skelfilegur atburður á borð við dauða Dawn Brancheau endurtaki sig. Samt segja sumir að það sé ekki spurning um hvort Tilikum drepi á ný, heldur hvenær.

Samt segja sumir að það sé ekki spurning um hvort Tilikum drepi á ný, heldur hvenær.

Áhrifaríkasta atriði myndarinnar er að mínu mati þegar þjálfari Sea World, Ken Peters, undirbjó lokaatriði kvöldsins með háhyrningnum Kasatka. Stuttu eftir að Ken stökk út í laugina greip Kasatka í fótinn á Peters og dró hann niður á botninn. Hann sleppti takinu á fætinum, beit í hinn fótinn og dró hann svo aftur niður. Þegar Peters komst upp á yfirborðið hélt hann ró sinni, kallaði ekki á hjálp en reyndi heldur að róa dýrið enda þrautreyndur þjálfari með áralanga reynslu. Aðrir þjálfarar lögðu net yfir laugina sem Peters gat á endanum synt yfir og komist upp á bakkann. Kasatka elti hann yfir netið en Ken var orðin máttlaus og gat ekki staðið upp fyrr en aðrir þjálfarar komu honum til bjargar. Ken sagði að hann myndi aldrei synda aftur með Kasatka en hann vinnur samt sem áður enn sem þjálfari hjá Sea World. Tónlistin í myndinni hjálpar til við að byggja upp spennu og hef ég sjaldan orðið fyrir jafn áhrifaríkri upplifun af heimildamynd.

 

Tilikum aftur heim?

Myndin vekur svo sannarlega spurningar um þann rétt sem maðurinn telur sig hafa til að hafa áhrif á samfélag dýra sem virðast hafa einstaklega mikla greind og samfélagsmynstur sem er mannlegra en hjá nokkurri annarri dýrategund. Nýlega var greint frá því á Vísi að fyrir lægi ósk hjá sjávarútvegsráðuneytinu ósk um að Tilikum verði fluttur hingað og sleppt við Íslandsstrendur þar sem hann var veiddur fyrir um 30 árum. En gæti verið að það sé orðið of seint? Við munum öll eftir Keiko…


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283