Liðin vika var stór fyrir Íslendinga eins og Kjarninn benti á í morgun í greininni, Íslenska hæfileikaútrásin vekur heimsathygli, en þess má líka minnast að gjörvöll heimspressan veitti einnig athygli því átaki sem fór af stað að frumkvæði Bryndísar Björgvinsdóttur á Facebook undir heitinu; Kæra Eygló Harðar – Sýrland kallar.
The Independent fjallaði um málið hér, Newsweek hér, The Guardian hér, Time Magazine hér, The Huffington Post hér, The New York Times hér, www.pbs.org hér, The Sydney Morning Herald hér, The Belfast Telegraph hér, fréttastofa Vice hér, Mashable.com hér, CNN hér, www.npr.org hér og svo mætti lengi telja.
Erfitt er að meta til fjár þá landkynningu sem í fréttum sem þessum felst en augljóst er að hróður Íslands barst víða vegna þess samhljóms sem Íslendingar sýndu með þátttöku sinni í átakinu. Ætla má að ærnar gjaldeyristekjur megi uppskera vegna aukins áhuga fólks á þessari góðhjörtuðu þjóð.
En hvað verður nú um efndir – eða öllu heldur, hvenær mun ríkisstjórn Íslands þóknast að taka ábyrga afstöðu í málefnum flóttafólks í Evrópu og leyfa íslensku þjóðinni að sýna velvild sína í verki.
Hvar er viðbragð ríkistjórnarinnar? það viðbragð sem við fundum öll hjá okkur þegar við sáum mynd af barni sem hafði drukknað og skolað upp á strönd.
Viðbragð forsætisráðherra við sigri íslenska landsliðsins dylst hinsvegar engum enda leynir geðshræringin sér ekki. Þarna slær hjarta Sigmundar!
Til hamingju með að upplifa einhvern stærsta dag íslenskrar-, ég meina evrópskrar-, íþróttasögu …til þessa! Nú sé ég…
Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Sunday, 6 September 2015
Þessi einhugur sem myndast hefur á Íslandi og vakið hefur heimsathygli er ekki fyrir tilstuðlan stjórnvalda. Það er enn fátt mennskt við viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þeim flóttamannavanda sem heimurinn stendur frammi fyrir.
Ríkisstjórn Íslands er vandi á höndum ef hún ætlar að koma í veg fyrir það að Íslendingar fái að veita þá aðstoð sem þeir vilja rétta fram. Eitt er að fara ránshendi um auðlindir okkar, verða okkur til skammar á alþjóðavettvangi, en að taka frá okkur sjálfsvirðinguna og æruna með því að láta okkur horfa aðgerðarlaus á meðan flóttafólk týnir lífinu. Það verður líklega seint fyrirgefið.