Það getur svo sem verið að þú vitir hitt og annað. Kannski hefurðu meira að segja komið til Singapúr, annaðhvort drepið þar niður fæti í millilendingu eða dvalið þar nokkra daga. En líklegast er að þú, ágæti lesandi, vitir bara eins og flestir Vesturlandabúar að Singapúr er auðugasta ríki Austurlanda fjær, hefur metnaðarfyllsta skólakerfi heims og harðbannar fólki að tyggja tyggigúmmí.
Allt er þetta rétt en mig langar samt að hefja þetta greinarkorn með því að trúa ykkur fyrir að Singapúr er uppáhalds frumskógareyjan mín. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki kynnst þeim mörgum af eigin reynd en ég treysti því að væri annar slíkur staður til myndi ég vita af honum fyrir tilverknað upplýsingatækni vorra daga. Það er margt sem heillar mig á þessari frumskógareyju, því frumskógareyja er hún sannarlega, þótt skýjakljúfar hafi leyst af hólmi tröllvaxin skógartrén, eftir að ein tegund fánunnar, spendýrið maður, náði þar undirtökunum á kostnað lífríkis allra hinna. Frumskógurinn fær þó víða að tóra enn, að húsabaki, milli bygginga, við árbakka og í almenningsgörðum og opnum rýmum borgarinnar.
Á Íslandi rembist fólk við að rækta tré svo þau verði helst hærri en húsin. Í Singapúr vilja menn hafa húsin hærri en trén sem fyrir eru á lóðinni – og það kostar oft margar hæðir til viðbótar. Raunar eru græn svæði helmingur yfirborðs borgarinnar og þar eru fimmtíu stórir almenningsgarðar.
Dugnaður mannsins og stórhugur hefur vissulega þrengt að öðrum lífverum á þessari litlu eyju röska hundrað kílómetra norðan við miðbaug og gert dýralífið fábrotnara en sumpart er það af mjög skiljanlegum ástæðum, því ekki voru öll skógardýrin þægileg í sambýli, til dæmis er ekki nema rúm öld síðan að meðaltali einn maður á dag fór í kjaftinn á tígrisdýri.
En segja má að fækkun dýrategunda sé vegin upp af fjölbreytni manntegunda. Það sem heillar mig líklega mest við Singapúr er hvað mannlífið þar er litríkt. Mér verður hugsað til þess, þegar ég fór fyrst að ferðast til útlanda sem strákur, hvað ég var hugfanginn einmitt af þessu, að sjá fólk af mismunandi litarháttum, margbreytilegt í útliti og klæðaburði, saman komið á götum erlendra stórborga, ekki síst í London. En þetta fólk bjó ekki þar, það var bara af tilviljun á sama stað á sama tíma, átti ekki beinlínis samleið að öðru leyti.
Það sem heillar mig hins vegar við Singapúr er að samsetning þjóðfélagsins af ólíkum kynþáttum með ólíka menningu og hefðir er álitin vera því mikill styrkur. Menn hafa fyrir löngu áttað sig á að þetta er helsta auðlind Singapúr. Þarna spyr enginn um trúarbrögð og mismunandi litarháttur truflar ekki samstarf fólks. Öll þjóðin hefur sama markmið, að bæta lífskjörin, græða peninga, efla hagvöxtinn. Og þetta virðist gert af skynsemi og framsýni, með því að leggja megináherslu á menntun unga fólksins.
Faðir Singapúr, Thomas Stamford Raffles, virðist einmitt hafa séð fyrir sér, þegar hann kom til Singapúr fyrir tvö hundruð árum, að á þessari frumskógareyju gæti risið borg sem yrði í framtíðinni miðstöð viðskipta milli Austur- og Vesturlanda. Í bréfi til systur sinnar árið 1821 segir Raffles: „Singapúr-búar eiga í framtíðinni að verða vel menntaðir menn, því menntun er undirstaða allrar velgengni.“
Veist þú helstu staðreyndir um Singapúr, svo sem flatarmál, mannfjölda og helstu hagtölur?
Nei, þú þarft ekki að gúggla neitt. Ég skal segja þér þetta. Eyjan er ekki nema 720 ferkílómetrar, þar búa fimm og hálf milljón manna og meðalárstekjur eru hvorki meira né minna en sem nemur um tíu milljónum íslenskra króna á mann.
Veist þú að það er stórkostleg veisla fyrir augað að skoða húsin í Singapúr, bæði gömul og ný?
Og eitt mannvirkið slær öllum öðrum við, hótelið Marina Bay Sands sem stendur við lónið þar sem Singapúr-fljót rennur til sjávar. Þrír 200 metra háir turnar með „skipi“ ofan á. Þar er sundlaug hótelsins, næturklúbbur og veitingahús. Skipið er 12.400 fermetrar að flatarmáli, stærsta útsýnissvæði sinnar tegundar í víðri veröld. Þetta glæsilega mannvirki, hannað af arkitektinum Moshe Safdie, kostaði tæpa 6 miljarða Bandaríkjadala eða um 780 miljarða íslenskra króna, sem pungað var út af frægasta fjárhættuspilaveldi samtímans, Las Vegas Sands, því undir hótelinu neðanjarðar er spilavíti, það stærsta í Asíu. Safdie ku hafa haft í huga þrjá stafla af spilastokkum þegar hann teiknaði turnana. En í þeim rúmast 2.561 lúxusherbergi, fjölmörg veitingahús, ráðstefnusalir og ýmislegt annað.
Fyrir framan þessa þrítyrndu byggingu er önnur undurfögur. Hún hýsir Listavísindasafnið sem er 19 þúsund fermetrar að stærð. Þakið er í laginu eins og lótusblóm sem gýs vatni á kvöldin og er partur af hönnun Moshes Safdie.
Singapúr er miklu líflegri og skemmtilegri borg en ég hafði gert mér í hugarlund áður en ég kom þangað fyrst fyrir rösku hálfi öðru ári. Ég hafði einhvern veginn komið mér upp þeirri ranghugmynd að þetta væri frekar andlaus og dauflegur staður. Líklega vegna þess að flestir töluðu mest um hversu hreinleg borgin væri. Það skyldi þó ekki vera að ég setji óafvitandi eitthvert samasemmerki milli hreinlætis og leiðinda! En hvað sem því líður, finnst mér Singapúr langt frá því eins gerilsneidd eða dauðhreinsuð og ég bjóst við.
Ég hef komið til margra glæsilegra borga á Vesturlöndum þar sem ég á erfiðara með að finna eitthvað sem kætir mig en þar. Og svo finnst mér Singapúr ekkert of hrein þótt hún sé ljómandi og snyrtileg. Ég hef komið til miklu hreinni borga, til dæmis Tokyo.
Eitt af því sem allir éta, ég ætti kannski heldur að segja „tyggja“ hver upp eftir öðrum, er að bannað sé að tyggja tyggigúmmí í Singapúr. En ekki skyggir það á hrifningu minni af borginni, kannski vegna þess að ég er heldur lítið fyrir að jórtra gúmmí og enn minna fyrir að fá það á skóna mína af gangstéttum eða gólfum, eins og oft gerist í „siðmenntuðum“ löndum.
Hins vegar hef ég aldrei séð neina „tyggjólöggu“ í Singapúr. En kannski er ekki allt sem sýnist. Mér er sagt að einkennisklæddir laganna verðir leynist víða. Og það er staðreynd að gríðarlega hart er tekið á öllum meiri háttar afbrotum og menn eru jafnvel teknir af lífi í Singapúr fyrir alvarlegustu glæpina.
Dauðarefsing liggur til dæmis við smygli, framleiðslu eða dreifingu á eiturlyfjum rétt eins og í Indónesíu.
Húmoristar hafa gert sér mat úr orðspori Singapúr. Rithöfundurinn William Gibson kallaði Singapúr „Disneyland með dauðarefsingu“.
Veist þú að Singapúr er fræg fyrir ljúffengan mat?
Sumir segja að í Singapúr sé mesta paradís matgæðinga í víðri veröld. Ég hef heyrt margt vitlausara. Eiginlega mætti segja að maturinn sé táknrænn fyrir það besta í Singapúr, framúrskarandi vandaðan samruna ólíkra þátta.
Tveir þriðju íbúanna eru af kínversku bergi brotnir en stórir minnihlutahópar Indverja, malaja og hvítra eru áhrifamiklir og vel metnir í samfélaginu. Samspunnin menning þeirra og singapúrskra Kínverja nefnist „Peranaka-menning“. Hún er nokkurs konar þjóðerniskjarni íbúa þessa hálfrar aldar gamla borgríkis.
Peranaka-matseldin eða „nyonya-eldhúsið“ á sér margra alda þróunarsögu þar sem konur hafa kennt dætrum sínum nostursama og sérstæða matargerð úr ýmsum hráefnum af landi og sjó og mulið saman í mortélum kryddjurtir frá Indlandi, malajalöndum og Kína. Árangurinn er jafn magnaður kokkteill og efnahagsundrið Singapúr.
Ég tek því undir það sem margir segja, bæði í gamni og alvöru, að þótt margt fallegt geti að líta í Singapúr sé allra ljúfustu kynnin að hafa gegnum bragðkirtlana.