Ræða Katrínar Jakobsdóttur við upphaf 145. löggjafarþings þann 8. september 2015
Kæru landsmenn.
Stjórnmálamenn eru stundum sakaðir um skammtímahugsun: að hagsmunir augnabliksins ráði meiru um gjörðir þeirra en hagsmunir almennings til lengri tíma. Þetta er kunnuglegt stef í opinberri umræðu sem og sú krafa almennings að langtímasjónarmið séu höfð að leiðarljósi.
Mörgum finnst að hrunið hafi ekki kennt okkur neitt en ég held að það hafi kennt okkur margt. Meðal annars það að stjórnmálamenn geta ekki lengur hunsað eðlilega kröfu íslensks almennings um að við höfum langtímasjónarmið að leiðarljósi í öllum okkar störfum.
Sú hefur því miður ekki orðið raunin á þessu kjörtímabili. Núverandi ríkisstjórn hefur lagt ofurkapp á að snúa öllu við sem sú síðasta gjörði án neinnar hugsunar um langtímasjónarmið. Ef síðasta ríkisstjórn gerði eitthvað þá hlýtur það að vera vont. Svo rammt kveður að þessu að ekki mátti greina annað á hæstvirtum forsætisráðherra í ræðu hans hér áðan en að íslenskt tímatal hefði í raun hafist þegar ríkisstjórn hans tók við. Hér var aðeins ginnungagap vorið 2013, en síðan þá hefur allt gengið mjög vel, ef marka má hæstvirtan ráðherra.
Ég held að það séu margir orðnir leiðir á því þegar stjórnmálamenn tala eins og þeir séu upphaf og endir alls og kannski er það skýringin á bágu gengi sitjandi ríkisstjórnar sem og flestra flokka í stjórnarandstöðunni. Við hljótum flest að geta viðurkennt að frá hruni hafa flestir lagst á árarnar við að byggja hér upp efnahag og samfélag og líklega hefði það aldrei tekist nema vegna þessa samstillta átaks. Það er slík samstaða sem skilar árangri en ekki þau kollsteypustjórnmál sem hæstvirtur forsætisráðherra virðist aðhyllast.
Kæru landsmenn.
Ég heimsótti fámennasta sveitarfélag landsins, Árneshrepp, á dögunum. Meðal annars heimsótti ég Finnbogastaðaskóla þar sem nemendur sögðu frá hugðarefnum sínum. Einn nemandi á unglingsaldri dró fram gamla útgáfu af Íslendingasögunum inni á þröngu bókasafni og sagði mér að hann langaði ekkert annað en að rannsaka Íslandssögu og bókmenntir síðar meir.
Öll eigum við okkur drauma og væntingar. Sonur minn sagði mér um daginn að hann vildi helst af öllu verða ráðuneytisstarfsmaður þegar hann yrði stór. Sjálf ætlaði ég mér að verða poppstjarna en til vara skurðlæknir. Þó að hvorugur draumurinn hafi ræst þá var það ekki vegna þess að ég fengi ekki tækifæri.
Nú á dögum horfum við daglega á börn og fullorðna sem aldrei munu fá tækifæri til að láta drauma sína rætast. Það er enginn munur á börnunum í Reykjavík, Árneshreppi eða Sýrlandi að því leyti að þau langar að lifa og gleðjast og þroskast. En tækifærin eru ekki þau sömu. Nægur er aðstöðumunurinn milli Reykjavikur og Árneshrepps þar sem íbúar eru oft innilokaðir heilu mánuðina vegna lokaðra vega og illrar veðráttu. Og mikill er munurinn á tækifærum í Reykjavík þar sem sum börn hafa efni á að stunda tónlistarnám eða íþróttir og aðrar tómstundir og vita hvar þau munu búa næstu mánuði en önnur búa við þær aðstæður að fjölskyldan nær ekki endum saman um mánaðamót þó að engu sé eytt nema í brýnustu nauðsynjar.
Og hvað getum við þá sagt um aðstæður barnanna sem nú hafa flúið heimaland sitt Sýrland. Sem leggja af stað yfir Miðjarðarhafið á litlum kænum, oft í höndum óprúttinna smyglara, og komist þau á leiðarenda bíða þeirra oftroðnar flóttamannabúðir og fullkomin óvissa. Sum komast aldrei þangað.
Sumra bíður að drukkna á leiðinni og reka upp í fjöru eins og Alyan Kurdi. Hann var þriggja ára. Kannski dreymdi hann einungis um að geta haldið áfram að vakna á morgnana í faðmi fjölskyldu sinnar og fá að lifa lífi sem mörg okkar ganga að vísu.
Einhverjir afgreiða þetta mál þannig að ekki megi einungis hugsa um þá sem birtast á fréttamyndum. En fólkið á myndunum er fólk af holdi og blóði. Veruleiki þess er lýsandi fyrir veruleika margra. Við eigum ekki að brynja okkur fyrir slíkum myndum heldur að sýna samkennd í verki. Við megum ekki líta undan.
Ef við viljum að meðbræður okkar fái að láta drauma sína rætast verðum við að hugsa stöðu okkar í samfélagi þjóðanna, beita okkur fyrir friðsamlegum lausnum hvar sem því verður við komið og reyna að tryggja þannig að sem fæstir þurfi að leggja á flótta. Munum að enginn leggur á flótta að gamni sínu. Gleymum því ekki að Vesturlönd bera sína ábyrgð á stöðunni nú í Mið-Austurlöndum og sú ábyrgð leggur okkur ríkar skyldur á herðar. Við getum gert betur og eigum að taka á móti miklu fleira fólki í neyð.
Virðulegi forseti.
Staðreyndin er sú að ekki hafa allir sömu tækifæri til að láta drauma sína rætast. Við búum við ójöfnuð hér á þessari jörð. Ójöfnuð innan okkar litla samfélags milli stétta og landshluta. Enn meiri ójöfnuð milli heimshluta. Því að á sama tíma og þetta gerist sjáum við að það eru peningar og tækifæri til.
Tímamótaverki franska hagfræðingsins Thomas Piketty sem hefur verið mjög til umræðu seinustu misserin lýkur á orðunum að allir borgarar ættu að kynna sér peninga, hvaða mælikvarðar séu nýttir á peninga og hvaða staðreyndir tengist peningum og sögu þeirra. Sagan sýni að þeir sem eigi mikla peninga bregðist aldrei í því að verja hagsmuni sína. Að neita að eiga við tölurnar þjóni hins vegar sjaldnast hagsmunum hinna tekjuminni. Og tölurnar þarf að setja í samhengi en samkvæmt Piketty á ríkasta 0,1% prósentið um það bil 20% af öllu auðmagni í heiminum og auðugasta eina prósentið á um 50% af öllum auði heimsins.
Ef það á að hafa einhverja merkingu að allir eigi rétt á jöfnum tækifærum þá ber okkur að grípa til aðgerða til að tryggja þau tækifæri. Það þarf að endurskoða það hvernig við skiptum kökunni. Til þess þarf róttækar aðgerðir og breytta hugsun. Við þurfum að átta okkur á því að fjármálakerfið er mannanna verk og lýtur ekki náttúrulögmálum. Þetta kerfi á að þjóna fólkinu en ekki sjálfu sér. Þess vegna þarf breytta hugsun, til dæmis hjá ráðandi öflum innan Evrópusambandsins. Þau hafa lagt ofuráherslu á að Grikkir borgi skuldir sínar á meðan meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur viðurkennt að sumar skuldir er ekki hægt að greiða án þess að fórnarkostnaðurinn verði of mikill fyrir fólkið, fyrir almenning.
Virðulegi forseti.
Tilfinning margra vinstrimanna er sú að hægriöflunum hafi leyfst að stjórna umræðunni um efnahagsmál, einkum seinustu þrjá, fjóra áratugina. Til þess er engin ástæða. Leiðarljós okkar á að vera að kerfið þjóni fólkinu en ekki öfugt. Ég tel að Íslendingar vilji breytingar á þessu sviði og sú krafa endurspeglast ekki síst í kröfunni um lýðræðisumbætur. Eins og kunnugt er var unnin mikil vinna á síðasta kjörtímabili til að Íslendingar gætu fengið nýja stjórnarskrá. En því miður lauk þeirri vinnu ekki eins og mörg okkar vonuðumst eftir. Ég vona að á þessu þingi náist samstaða um ákvæði um að auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar, samþykkt verði nýtt umhverfis- og náttúruverndarákvæði, og einnig að tiltekinn hluti þjóðar og þings geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál og betur verði búið um framsal valdheimilda ríkisins.
Ég tel að ef slík ákvæði yrðu samþykkt hefði unnist mikilvægur áfangasigur. Þar með er breytingum ekki lokið á stjórnarskrá því að okkur ber að vinna samkvæmt vilja þjóðarinnar eins og hann hefur þegar birst í þjóðaratkvæðagreiðslu. En við getum unnið að honum í áföngum ef það er það sem þarf fremur en að leggja allt málið að veði fyrir árangur sem reynist ekki varanlegur. Ef ekki næst hins vegar samstaða um neinar breytingar þá ættu línurnar að liggja skýrar fyrir næstu kosningar milli þeirra sem vilja fylgja þjóðarinnar í þessum málum og hinna sem leggja allt kapp á að hagga ekki valdajafnvæginu í landinu. Stjórnarskrármálið hefur frá upphafi snúist um völdin og hver haldi um þau völd.
Það vakti athygli mína að forsætisráðherra hæstvirtur minntist ekki á eitt stærsta viðfangsefni samtímans sem eru loftslagsmál þó að hann léti að því liggja að alræmdar hugmyndir um fleiri virkjanir sem sigldu í strand hér í vor snerust eingöngu um orkuskipti í samgöngum en ekki ný kísilver. Hæstvirtur ráðherra veit betur og ætti fremur að efna til samstöðu um að við Íslendingar nýtum orku okkar til að Ísland geti orðið í fararbroddi í loftslagsmálum og orðið kolefnishlutlaust land fyrir árið 2050. Það ættu að vera skilaboð Íslendinga á loftslagsfundinum í París í desember sem kann að ráða úrslitum um framtíð okkar allra og barnanna okkar.
Kæru landsmenn.
Draumar barna um allan heim kalla á að við hugsum til lengri tíma en næstu missera þegar við tökum ákvarðanir. Draumar barna um allan heim kalla á að Íslendingar flani ekki áfram í blindni þegar teknar eru ákvarðanir sem geta tekið toll af náttúru landsins með óafturkræfum hætti til allrar framtíðar. Draumar barna um allan heim kalla á að fólkið í landinu fái meira vald yfir eigin örlögum, að við styrkjum beint lýðræði en líka fulltrúalýðræðið þannig að samfélagi okkar sé stjórnað með gagnsæjum og lýðræðislegum hætti og raddir allra heyrist. Draumar barna um allan heim kalla á að við þorum að grípa til róttækra aðgerða til að endurskoða skiptingu kökunnar. Það er ekki sjálfgefið að þeir sem eiga mest fyrir hafi mest tækifæri til að safna sér enn meiri auði. Það eru engin náttúrulögmál á bak við það fyrirkomulag þó að talsmenn óbreytts ástands tali stundum þannig. Þetta erumannanna verk sem mennirnir geta breytt.
Það er undirstaða lýðræðis og góðs samfélags að við fjárfestum í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Leyfum skólum að þróast þannig að fjölbreytnin verði sem mest og sem flestir geti nýtt hæfileika sína til að þroskast og vaxa og verða öflugir borgarar í öflugu samfélagi.
Fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun mun skila aukinni hagsæld fyrir almenning allan. Það er undirstaða góðs samfélags að við fjárfestum í innviðum, samgöngum og fjarskiptum, þannig að óháð búsetu geti sem flestir nýtt hugmyndir og þor til að láta drauma sína verða að veruleika, hvort sem það er að byggja upp framúrskarandi sushi-stað á Seyðisfirði eða ferðaþjónustu í Djúpavík.
Fjárfestum í heilbrigðisþjónustu þannig að fólk um land allt geti notið öryggis og velferðar – geti lifað góðu lífi. Umfram allt er okkar auður í fólki og þess vegna á að tryggja öllum grunnframfærslu, þar með talið öryrkjum og eldri borgurum sem hafa setið eftir þó að þeir eigi allan rétt á sömu tækifærum og aðrir. Þar skiptir líka miklu að tryggja gjaldfrjálsa grunnþjónustu á sem flestum sviðum.
Góðir Íslendingar.
Með auknum jöfnuði, nýrri hugsun í atvinnu- og umhverfismálum, auknu lýðræði og þeirri skýru sýn að arðurinn okkar, arðurinn af auðlindunum okkar, arðurinn af eigum okkar, eigi heima hjá fólkinu, getur framtíðin orðið frábær. Þá skiptir máli að stjórnmálamenn horfi til lengri tíma en miði ekki allt við sjálfa sig og sinn skamma líftíma. Það er langtímahugsun sem skilar árangri, hvort sem er í knattspyrnu, listum eða stjórnmálum. Tími kollsteypustjórnmála þar sem skammtímahagsmunir hinna fáu ráða á kostnað langtímahagsmuna hinna mörgu er liðinn. Því fyrr sem við hér í þessum sal áttum okkur á því, því betra.