Ég hef lesið bækur um fólk sem braut lög og reglur í gamla daga.
Venjulegt fólk sem lagði sig í hættu við að smygla flóttafólki yfir landamæri, smygla vítamíntöflum og fölskum vegabréfum inn í fangelsi og fangabúðir í Evrópu í von um að geta bjargað einhverjum. Venjulegt fólk á öllum aldri eins og skólastúlkan Hiltgunt Zassenhaus, sem er ein af mínum uppáhalds.
það er litið á þetta fólk sem fórnfúsar hetjur í dag og öll viljum við trúa því að við hefðum tilheyrt þessum hópi fólks ef við hefðum verið stödd í Þýskalandi í seinni heimstyrjöldinni. Við hefðum tekið afstöðu, gert allt sem í okkar valdi hefði staðið til að hjálpa, stoppa, breyta. Við getum ekki skilið af hverju þetta gekk svona langt!
Það hefur minna verið skrifað um fólkið sem ákvað að halda að sér höndum, taka afstöðu með ónýtu regluverki vegna þess að það skilgreindi mannkynið sem „við“ og „þau“. Jafnvel gott og heiðarlegt fólk sem af ótta og barnslegri hlýðni gagnvart yfirvaldinu trúði því að það gæti ekkert gert.
Seinni hópurinn flokkast sem „silent bystanders“. Sá hópur ber gríðarlega mikla ábyrgð á því hvar heimurinn stendur hverju sinni.
Núna er ástandið í Evrópu í algjöru rugli, það er eitthvað að gerast sem við getum ekki skilið og náum ekki utan um. Alveg eins og þá…
Getum við reynt að bregðast fyrr við? Getum við reynt að láta söguna ekki endurtaka sig? Getum við, í ljósi sögunnar, ákveðið að tilheyra fyrri hópnum?
Ég vil ekki vera silent bystander!