Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Á Lesbos ríkir ringulreið og hjálparstofnanir sinna ekki flóttafólki

$
0
0

Hjónin Eric Kempson og kona hans Philippa búa í Eftalou á eyjunni Lesbos skammt frá bænum Molyvos sem er í u.þ.b. 70 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Mytilene. Þau eru bresk en hafa búið á eyjunni í hundrað metra fjarlægð frá ströndinni í 16 ár. Eric er skúlptúristi og þau hjónin reka litla listaverkabúð. Ég rak augun í myndbönd á Youtube sem Eric hefur tekið en hann hefur verið að mynda komu flóttamanna að ströndum eyjunnar um allnokkurt skeið og er hægt að skoða þau hér. Mér lék forvitni á að vita hverju þetta sætti, því ekki virtist hann tengjast neinum samtökum um flóttamannahjálp, og því hafði ég uppi á þeim hjónum og fékk samtal við Philippu sem svaraði spurningum mínum fúslega.

Hjónin Philippa og Marc. Philippa er þarna að færa barn úr vesti og Marc er þarna með myndavél í vínrauðri treyju.

Hjónin Philippa og Marc. Philippa er að klæða barn úr vesti og Marc er þarna með myndavél í vínrauðri treyju.

Hvernig stóð á því að Eric byrjaði að gera þessar heimildastiklur um komu flóttafólks?

Flóttamenn hafa alltaf komið þessa leið frá Tyrklandi en það varð mikil aukning í byrjun ársins og okkur fannst bara í ljósi þess fjölda sem hingað kemur að við þyrftum að segja frá því og benda á að það er enginn hérna til að taka á móti fólkinu. Þetta hefur aukist svo mikið að það er komið algjörlega úr böndunum, fjöldinn er gríðarlegur og ástandið vægast sagt skelfilegt.

Í bænunum Molyvos er hægri stjórn við völd og Eric segir frá því í þessu myndbandi hvernig bæjaryfirvöld hafa snúið baki við flóttafólki og sýnt þeim harðræði með tálmunum. Sjálboðaliðum sem unnið hafa með hjónunum sem og þeim sjálfum hefur verið hótað fangelsisvist fyrir að aðstoða flóttafólk. Myndbandið er tekið að kvöldlagi þann 6. september síðastliðinn þar sem fólk neyðist til að sofa á ströndinni þar sem engin önnur aðstaða er fyrir hendi. Dagur í lífi hjónanna Eric og Phillipu.

Ég sá í einni stiklunni að þið töluðuð um að þið hefðuð talið 37 báta einn daginn?

Já, ég held að þegar mest var höfum við talið 40 báta og það bara hér á norðurhluta eyjunnar. Mér skilst að mesti fjöldi sem Lesbos hefur tekið á móti á einum degi sé 4000 manns fyrir tveimur vikum en núna síðustu vikur hafa verið að koma tvö til fjögur þúsund manns á dag.

Þetta myndband var tekið þann 8. september.

Á eyjunni Lesbos búa að jafnaði 80–90.000 manns og Philippa segir mér að ríflega hundrað þúsund flóttamenn hafi komið til eyjunnar á undanförnum mánuðum. Ég spurði hana hvort hún gæti lýst ástandinu á eyjunni.

Nú, hér er allt á hvolfi, höfuðborgin Mytilene er yfirfull af fólki sem reynir að fá landvistarleyfi og hreinlega að draga fram lífið. Flóttamannabúðum var komið upp á Mytilene en nú átta mánuðum síðar hefur raunverulega engin hjálp borist og ástandið er fullkomlega óásættanlegt. Reyndar held ég að einhver breyting sé að verða á núna en það er bara undanfarna daga sem ég skynja það.

Um hvað ertu þá að tala?

Ja, það er hræðilegt en það þarf myndir af líkum á strönd til að fólk taki við sér og það er auðvitað mjög raunalegt.

Ég spurði hana hvaða áhrif þessi gríðarlegi fjöldi flóttamanna hefði á heimamenn.

Þetta hefur haft veruleg áhrif á viðskipti og líf allra. Í okkar tilfelli þá vinnum við öllum stundum við að aðstoða flóttamenn því hér er enga hjálp fyrir þá að fá nema frá heimamönnum, ferðamönnum og minni hjálparsamtökum. Nú eiga skólar að byrja hér á morgun og það skapar vandamál því margir foreldrar telja sig ekki geta sent börnin í skóla enda eru göturnar og borgin öll uppfull af flóttafólki, þannig að já, líf allra hér er úr skorðum gengið. Ástandið er gjörsamlega farið úr böndunum.

Hvernig er ástand flóttafólksins þegar það nær landi?

Sýrlendingarnir sem komu hingað í byrjun árs voru vel á sig komnir líkamlega, eðlilega skelfdir eftir ferðalagið og miður sín en heilbrigðir. En þetta hefur breyst á undanförnum mánuðum því fólk þarf nú að bíða við skelfilegar aðstæður Tyrklandsmegin áður en það fær pláss á báti þannig að heilsa fólksins sem nú kemur að landi er verri en áður, fólkið þjáist af vatnsskorti og börnin eru gjarnan með hita og umgangspestir af því að sofa undir berum himni svo vikum skiptir.

Philippa hafði heyrt af átakinu Kæra Eygló Harðar – Sýrland kallar! sem hún dásamaði en varð heldur hnuggin þegar ég sagði henni að það væri nú enn sem komið er lítil von til þess að Ísland yrði til að hjálpa flóttafólki með eftirminnilegum hætti. Ég sagði henni frá þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar sem gerir ráð fyrir að taka á móti 500 kvótaflóttamönnum á þremur árum. 

En hvernig kom það til að þau hjónin hófu að sinna hjálparstarfi. Mig langaði að vita hvort þau væru að vinna með einhverjum góðgerðar- eða hjálparstofnunum.

Nei, sagði Philippa og tjáði mér að þau hjónin væru bara venjulegt fólk að reyna að gera það sem þau gætu til að hjálpa og reyndar hefði þeim nýlega borist liðsauki frá bátaflóttamannahjálpinni – The Boat Refugees Foundation of the Netherlands – sem sendu þeim mannskap og einnig væru þessa vikuna norsk hjálparsamtök sjálfboðaliða með þeim að vinnu og það hefði verið ákaflega gott.

Philippa vandar hjálparstofnunum ekki kveðjurnar

Það sem þarf að gerast núna strax sagði Philippa er að skipulagi verði komið á hlutina, að hjálparstofnanir geri það sem þær eiga að gera. Í fullri hreinskilni, þá er engin þeirra að veita aðstoð hér um þessar mundir.

En hvaða hjálparstofnanir eru á staðnum?

Bæði Sameinuðu þjóðirnar UNHRC og Rauði Krossinn ICRC hafa verið hér frá upphafi að fylgjast með, þeir eru mjög góðir í því að fylgjast með og skrifa skýrslur en beint starf þeirra er ekkert. Við höfum fengið fjölda fyrirspurna frá læknum sem vilja koma og aðstoða en hjálparstofnanirnar vilja ekki einu sinni koma að því að skipuleggja starf þeirra lækna sem bjóða vinnuframlag. Í raun og sann hef ég ekki hugmynd um hvað þeir þykjast vera að gera. Þetta er alveg skelfilegt.

Þeir stæra sig af því að hafa gefið 7.500 flöskur af vatni til flóttamannabúðanna og útvegað þrjár rútur sem þeir settu í hendur hafnarlögreglunnar en hún starfar því miður fyrst og fremst eftir hentugleikum og oft ekki, því þeir vilja ekki færa fólkið til höfuðborgarinnar sem er hvort eð er yfirfull. Þannig að hér ríkir algjört stjórnleysi og enginn virðist vilja taka að sér stjórnina.

Danski Rauði krossinn hélt því fram á vefsíðu sinni fyrir skemmstu að nú væru 60 sjálfboðaliðar að störfum í búðunum en það er bara ekki satt. Þar var enginn frá Danska Rauða krossinum.

Forsíða danska Rauða Krossins

Forsíða danska Rauða Krossins

Læknar án landamæra eru hér að störfum í einum af búðunum en þeir virðast heldur máttlausir því á því svæði sem þeir starfa er ekki einu sinni almennileg salernisaðstaða, allt er grútskítugt og hefur verið svo vikum skiptir.

En það eru minni stofnanir eins og International Rescue Committee  sem hafa gert mikið gagn sé litið til stærðar þeirra. Þær tóku yfir svæði í einum af búðunum þar sem þær hreinsuðu til og settu upp sturtur og þar var hægt að setja upp almennileg tjöld, en hinum megin þar sem Læknar án landamæra starfa eru ekki einu sinni nothæf klósett.

Þið hafið látið í ljós gagnrýni á bæjaryfirvöld og hjálparstofnanir m.a. í myndböndum ykkar. Hafið þið fengið einhver viðbrögð? 

Læknar án landamæra vilja efna til samtals við okkur núna því við höfum leyft okkur að gagnrýna þá fyrir að slá um sig og safna fé en gera svo ekki neitt.

Hvað vanhagar ykkur helst um núna?

Við fáum send hjálpargögn hvaðanæva úr heiminum, það er alveg ótrúlegt. Við höfum fengið sent heilmikið af barnafatnaði því allir vilja hjálpa börnunum. Reyndar skortir okkur meira af fötum á fullorðið fólk núna. Teppi og svefnpokar er það sem við þurfum helst og bara venjulegan fatnað á fullorðna.

En það sem er mest áríðandi er að hjálparstofnanirnar taki stjórnina og komi skipulagi á hlutina, þær hafa bara skilið okkur eftir í þessari ringulreið.

Hér er enginn læknir, þ.e. hér í norðri, og hér hefur enginn læknir verið í átta mánuði. Fyrst núna í norska sjálfboðaliðahópnum eru nokkrar hjúkrunarkonur og sjúkraliðar þannig að það kemur sér vel, en það er í raun og sann eina heilbrigðisþjónustan sem við höfum haft hér síðastliðna átta mánuði.

Þurfið þið fleiri sjálfboðaliða?

Nei, alls ekki, við þurfum ekki fleiri sjálfboðaliða. Á þessu stigi málsins þurfum við fólk sem hefur þekkingu og reynslu af störfum á átakasvæðum, við þurfum lækna og þjálfað starfslið. Það er allt of mikið af velviljuðu fólki hér sem snýst bara í hringi og það hefur reyndar skapað ný vandamál. Fólk þyrpist hingað áhugasamt um að hjálpa án þess að hafa til þess nokkra þá kunnáttu sem okkur skortir tilfinnanlega.

Í þessu langa myndbandi segir Eric frá því hvernig hann varð vitni að því að tyrkneska strandgæslan reyndi að drekkja bátum sem eru á leið í land. Þeir hringsóla í kringum bátana og jafnvel skjóta þá niður. Í þetta sinn var það gríska strandgæslan sem kom fólkinu til bjargar. Þessi myndbönd hans Eric eru viðvaningsleg en klárlega heimild um ástandið. Fólkið nýkomið til lands er eðlilega í uppnámi.

Það sem ég upplifi í samtali okkar er að þú sért mjög uppgefin á aðgerðarleysi þeirra hjálparstofnana sem ættu að vera við stjórn, er það rétt ályktað?

Já, þessar stóru stofnanir eru ákaflega duglegar að safna fé, að stjórna fjölmiðlum. Fólk á vegum Sameinuðu þjóðanna tekur ljósmyndir á þeim stöðum þar sem sjálfboðaliðar og smærri samtök vinna að hjálparstarfi og telja síðan sér til tekna í fjölmiðlum í því skyni að safna meiri peningum en framkvæma síðan nákvæmlega ekki neitt.

Ha?

Ef ég hagaði mér svona yrði ég ákærð fyrir fals, fyrir að eigna mér eitthvað sem ég hef ekki gert. En það gilda greinilega önnur lögmál um Sameinuðu þjóðirnar.

Þar með kvöddumst við Philippa og ég sagði henni að ég myndi reyna að höfða til lesenda okkar með að safna fötum, teppum og svefnpokum til að senda þeim. Það er nú það minnsta sem við getum gert, er það ekki?

Við bendum á söfnun á Facebook á síðu sem heitir BECAUSE I CAN en íslensk kona Ásta Hafþórsdóttir er á förum til Lesbos þann 11. október ásamt fleirum til að vinna að hjálparstarfi. Með því að leggja þeim lið getum við í það minnsta fylgst með því að það sem við leggjum til fari til þeirra sem á þurfa að halda.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283