Valborg Rut Geirsdóttir skrifar:
„Ég hef nýtt mér þjónustu ykkar í tæknifrjóvgunarmálum í töluvert langan tíma. Nú er svo komið að ég safna hverri krónu til að eiga fyrir glasameðferð. Ég eyði sjaldan sem aldrei í vitleysu eða óþarfa. Ég borða í vinnunni og fer varla í búð til að fylla á matarbirgðir á heimilinu mínu. Ég hef svo mörgum sinnum borðað súrmjólk eða hafragraut heilu dagana síðustu þrjú árin. Mér finnst hafragrautur ógeðslegur, en það er stundum það eina sem ég hef efni á á meðan ég er að skrapa saman fyrir næstu tæknitilraun. Ég hef aldrei kvartað. Því ég er til í að leggja á mig svo ótal margt fyrir lítið kraftaverk. En stundum, eins og núna, er ekki hægt að þegja.
Þegar ég komst yfir ársreikning Art Medica frá 2013 sá ég ýmislegt sem vakti athygli mína. T.d. að árið 2013 var eigið fé fyrirtækisins 271 milljón króna. Að árið 2013 greiddu eigendurnir tveir sér 44 milljónir í arð. Að hagnaður fyrirtækisins var rúmar 82 milljónir. Að árið 2013 voru tæki fyrirtækisins metin á 8 milljónir. Ég vonaði svo mikið að þetta væri djók. Mig langaði hreinlega ekki að trúa þessu.
Mig langar ekki að trúa því að fyrirtæki sem ræður öllum markaðnum í tæknifrjóvgunarmálum á Íslandi eigi alla þessa peninga en vinni ekki að því að bæta tæknina og þjónustuna sem það veitir. Mig langar ekki að trúa því að um síðustu mánaðarmót hafi gjaldskráin þeirra verið hækkuð um heilan helling.
Glasameðferð sem kostaði 376.055 krónur fyrir tíu dögum hefur nú hækkað í 413.660 krónur. Mig langar til þess að gráta. Art Medica er eina fyrirtæki sinnar tegundar á landinu. Við getum ekki leitað annað nema þá erlendis, sem þó hefur færst verulega í aukana að fólk geri. Að það sé virkilega hægt að hafa samvisku í að eiga alla þessa peninga, bjóða uppá þjónustu sem er mjög svo ábótavant, tæki sem alls ekki eru það nýjasta í dag og vita að fólkið sem til þeirra leitar á oft mjög margt í erfiðleikum með að skrapa saman fyrir hverri meðferð þykir mér hreint út sagt ótrúlegt.
Kæra Art Medica. Ég vildi óska þess að þið hefðuð samkeppnisaðila í heimi tæknifrjóvgana. Þá mynduð þið kannski auka þjónustuna sem þið bjóðið uppá, vanda ykkur betur, loka færri vikur á ári, kaupa ný tæki og uppfæra ykkur almennt. Ef við hefðum aðra stofu myndu kannski færri fara erlendis í leit að auknum líkum og betra viðmóti.
Mér er því miður farið að líða eins og þetta sé allt saman hrein peningagræðgi en ekki starf sem unnið er af áhuga, metnaði og af mikilli hugsjón. Þetta er tilfinning sem er ekki góð. Ég myndi kannski sætta mig við þetta, þegjandi og hljóðalaust ef mér liði eins og ég fengi eina þá bestu þjónustu sem völ væri á og vissi af allra nýjustu tækni. En því miður, er það ekki raunin.
Mér finnst sorglegt að vita af svo mörgum sem hafa ekki efni á því að eignast börn af þeirri ástæðu að þau þurfa á læknisaðstoð að halda sem kostar alltof mikið. Að alltof hár kostnaður komi í veg fyrir að ótal margir fái drauma sína uppfyllta.
Kæra Art Medica – ég vona að ykkur vegni vel og takið vel á móti mér þegar ég loksins næ að safna þeim 468.660 krónum sem meðferðin mín mun kosta með gjafasæði, en utan allra lyfja.
Fólk er svo sannarlega heppið að þurfa ekki á ykkur að halda.“