Slitastjórn Glitnis fær um 60 þúsund krónur á tímann. Það tekur þetta fólk rétt rúmar fjórar klukkustundir að þéna mánaðarlaunin mín. Ég verð að viðurkenna að það vottar fyrir smá öfundsýki hjá mér í þeirra garð. Svona pínku ponsu smá öfundsýkispúki í mér. Ég hugsa að ég myndi lykla bílana þeirra ef ég sæi þá.
Ég þarf nefnilega að vera með allar klær úti þegar mánuðurinn er svona hálfnaður til að fá aukavinnu til að þurfa ekki að byrja að borða kattamat.
Hrun bankanna, fall heimilanna og allt ruglið sem dundi yfir okkur 2008 er það besta sem komið hefur fyrir þetta fólk. Ógæfa Íslands er þeirra lottóvinningur. Mikið er ég hamingjusamur fyrir þeirra hönd.
Þetta er nú sennilega verðskuldað. Það hlýtur að vera rosalega erfitt að vinna svona mikilvægt starf. Svara og senda tölvupóst, sitja á fundum og allt vesenið sem fylgir því að ákveða hvað skuli gera við allt þetta fé sem safnast upp á launareikningum manns. Ég þarf allavega ekki að hafa áhyggjur af því.
Fjármálaráðherra talar um að laun séu að hækka um of. Er hann að tala um læknana sem bjarga mannslífum og voru að fara flýja til útlanda til að menntunin yrði einhvers virði? Eða er hann að tala um kennarana sem voru látnir semja af sér því við tímum ekki að mennta börnin okkar? Eða hjúkrunarfræðingana sem sinna fólki á þeirra verstu stundum fyrir sömu laun og þú getur fengið fyrir að selja tjaldvagn? Í alvörunni, Bjarni? Það er eins og ef Íslandsmeistarinn í Crossfit kæmi fram í fjölmiðlum og segði að fólk væri að stunda of mikla líkamsrækt.
Menn sem bókstaflega vaða í peningum upp að hnjám geta ekki verið að kvarta yfir því að við hin sem fáum brot af þeirra launum séum bara að fara að senda hér allt fram af brúninni.
Að það sé hjúkkan eða kennarinn, sem standa sveitt yfir velferð annars fólks, sem sé að stofna þjóðarbúinu í stórhættu en ekki stjórnmálamaðurinn sem erfði hugmyndafræðina sem kom hérna öllu niður í skólplagnirnar, er bara brandari. Og mér finnst hann ekki fyndinn. Ég er pirraður, blankur, bitur og læt ekki bulla í mig. Staðreyndin er sú að almennt eru laun of lág til að lifa við þær aðstæður sem stjórnmálamenn hafa skapað hér. Það eru stjórnmálamennirnir sem eru drasl og ég vil henda þeim og fá nýja takk.
Eitt stærsta vandamálið er hópur fólks sem lifir eins og kóngar, græðir á tá og fingri, meðan fjölmennur hópur fólks í landinu á bara að vera í því að þjónusta þetta fólk fyrir smáaura. Venjulegt fólk má bara fokka sér og láta sjónvarpið steikja á sér heilann á kvöldin á meðan hinir eru úti að borða, í útlöndum eða á skerinu.
Fólk býr í húsum sem sum eru ekkert annað en litlar hallir á meðan flestir eyða stórum hluta mánaðarins í að halda sínum 70 viðhaldsþurfi fermetrum í fjölbýli með öðrum aumingjum. Það má vera sár og finnast það ósanngjarnt.
Iðulega er talað um að meðallaun á Íslandi séu ekki lág. Hér er líka haldið fram að hægt sé að minnka hrukkur með kremum og að hér trúi fólk á álfa og elski að éta hákarl. Það gerir enginn!
Meðallaun eru há af því að meðaltal er röng aðferð við skoða laun. Stjórnmálamenn sem reyna að róa okkur með meðallaunum vita sem er að íslenskt menntakerfi er í molum og margir átta sig ekki á að himinhá stjórnendalaun skekkja meðaltalið svo mikið að á bak við tölurnar er einn að lifa í vellystingum fyrir hverja fjóra sem þurfa að fara í aukavinnuna sína eftir aukavinnuna.
Þetta er ekki sanngjarnt og það má tuða yfir þessu.
Forsætisráðherrann okkar hamrar á því brosandi eins og hann sé að koma beint úr bakaríinu að við höfum aldrei haft það betra! Aldrei!
Hann meinar að hann hafi aldrei haft það betra. Hann og hans líkir. Hinn íslenski aðall. Reglurnar voru búnar til eins og í flestum borðspilum: Það er einn sigurvegara fyrir svona sirka hverja 4–5 sem tapa spilinu og liggur við að þurfi að taka smálán fyrir jarðarförinni sinni.
Ég neita að trúa því að ekki sé hægt að hafa hér kerfi þar sem flestir hafa það bara ágætt. Þar sem við þurfum öll hvert á öðru að halda og peningar flæða á milli fólks í nokkuð eðlilegum hlutföllum. Ekki bara að kvótaeigendur, bossarnir og bankamenn hirði 90% á meðan við berjumst um restina. Í fréttum í vikunni var að heyrnarlausir séu að flýja land því þeir geta ekki verið hérna. Þetta er fólkið sem aldrei kvartar! Þegar fólkið sem þarf ekki að hlusta á allt bullið er að flýja land þá er eitthvað mikið að.
Bankinn á þig, þú notar kortin hans og hann heldur laununum þínum í gíslingu. Hann lánar þér svo fé til húsnæðiskaupa á sömu kjörum og menn fá lánað fyrir eiturlyfjum niðri í miðbæ. Þá finnst fjármálaráðherra að best sé að einkavæða seinasta bankann aftur svo hér ríki nú örugglega engin samkeppni. Þegar það er alveg óþarfi vill ríkisstjórnin einkavæða banka og fá fyrir hann milljarða sem bankinn mun sennilega skila í hagnað hvort sem er á nokkrum árum. Það er enn einn ófyndni brandarinn í ófyndnasta uppistandi allra tíma sem sýnt er á hverju kvöldi fram að næstu kosningum.
Það er bara ein leið sjáanleg út úr þessu bulli. Við þurfum að breyta til og kjósa yfir okkur venjulegt fólk sem glímir við sama veruleika og við flest. Mér er sama um það þó aðrir hafi það betra en ég. Ég get haldið á lofti mínum vinum og fjölskyldulífinu án þess að missa boltann og verið sáttur í baðstofustemningu með þrjú börn í tveggja svefnherbergja íbúð. En það sem ég sætti mig ekki við eru tækifæri til breytinga sem við nýtum ekki.
Það er raunverulegt tækifæri til að hrista upp í þjóðfélaginu með því að kjósa Pírata í næstu alþingiskosningum. Við getum fært völdin frá jakkafötunum með lögfræðigráðurnar og yfir til Jóns og Gunnu í næsta húsi.
Við getum fengið þing sem situr ekki í fanginu á ríku köllunum, strýkur þeim blíðlega um vangann og hvíslar í eyrun á þeim „ég elska þig“. Þeir einu sem hafa einhverju að tapa eru þeir sem eiga eitthvað.
Og þegar reiknaðar eru saman húsnæðis-, bíla- og námslán, yfirdráttarheimildir, yfirvofandi tannlæknakostnaður, leikskólagjöld og tónlistarnámið sem börnin vilja í þá er ljóst að við eigum fæst nokkuð nema hvert annnað.