Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Pirringurinn út í Pírata

$
0
0

Ein mesta þversögnin við okkar netvæddu tíma er að það er að sumu leyti lúxusvandamál hversu auðvelt það er að dreifa upplýsingum. Eitt sinn var kostnaðarsamt að prenta texta og dreifa honum en núorðið getur hver sem er með engum tilkostnaði dælt heilu kvikmyndunum um alla heimsbyggðina.

Þessi þróun hefur orðið yfir tiltölulega skamman tíma og kemur eftir að við höfum vanist því að það sé tiltölulega auðvelt að stjórna þessu flæði – af því einmitt að flæðið var hægara og einfaldara. Það að þetta sé auðvelt er samt ekki það sama og að það sé einhver grundvallarréttur einhvers. Það að tekjur séu í húfi býr heldur ekki sjálfkrafa til réttindi.

Ég á eignarétt yfir mínum eigum og það er ofbeldi gagnvart mér að svipta mig þeim og ég get leitað réttar míns fyrir dómi – en hef ég einhvern grundvallarrétt á því að stjórna því hvernig ljósmynd af mér er notuð? Það mikinn að ég gæti farið fram á lokun vefsíðu sem mér finnst nota hana á rangan hátt? Mögulega, ef um ærumeiðingu er að ræða, annars alls ekki.

Höfundar höfundarvarins efnis eða dreifingarréttar á því hafa hins vegar vanist því að mega stjórna því hvernig og hvert það dreifist. Það telst til þeirra réttinda sem fylgja og tengjast höfundarétti. Saga hans er auðvitað flókin en eitt er augljóst – þessi réttur hefði aldrei orðið til nema það væru fjárhagslegir hagsmunir í húfi og það væri tiltölulega auðvelt að fylgja honum eftir. Hið síðara hefur þó með tækniþróuninni sífellt orðið erfiðara og erfiðara. Fyrr eða síðar næst sá tímapunktur sem þetta er alfarið ómögulegt. Sú þróun verður ekki stöðvuð.

Við erum á tímapunkti í sögunni þar sem þetta er að verða algjörlega ljóst. Einhverjir vilja bregðast við með því að viðhalda þessum stjórnunarrétti en aðrir vilja horfast í augu við stöðuna blákalt. Píratar eru með stefnu sem fellur í síðari flokkinn og það pirrar ýmsa í fyrri hópnum. Þann pirring skil ég mjög vel og mér finnst algjör óþarfi að afgreiða hann af léttúð.

Listamenn og útgefendur eru almennt ekki mikil forréttindastétt sem er að pirrast út í missi forréttinda sinna. Allavega ekki hérlendis. Mun frekar er þetta fólk sem hefur alltaf þurft að berjast í bökkum og sér ekki endilega að tækniþróunin muni gera því tilveruna eitthvað auðveldari. Það eru raunverulegar áhyggjur og samfélagslegt verkefni að takast á við þær og finna lausnir.

Þær lausnir verða að felast í því að það sé almennt viðurkennt að listamenn og aðrir sem koma að gerð afþreyingarefnis eigi skilið umbun fyrir vinnu sína. Hvernig svo sem það er tryggt að þeir fái hana.

Eigendur dreifingarréttar efnis annarra eru síðan annað mál. Þar er alveg sannarlega um að ræða fyrirkomulag sem mér finnst rétt að tæknin breyti verulega. Þarna er einfaldlega verið að borga fyrir virðisauka sem margir þurfa ekki lengur á að halda.

Ef ég get fengið t.d. erlent sjónvarpsefni ódýrar hjá erlendri veitu en innlendri sé ég ekki af hverju ég ætti að vera neyddur til að nota þá innlendu. Svo lengi sem höfundar fá sitt.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283