Sigrún Gunnarsdóttir er 19 ára úr Árbænum. Hún er nýútskrifuð úr Kvennaskólanum í Reykjavík. Sigrún á 7 yngri systkini og nýtur þess í botn að vera í kringum stóru fjölskylduna sína. Sigrún er stödd í Kenýa eins og er að kenna í barnaskóla og stefnir á að halda áfram að ferðast og kynnast nýju fólki.
Ég hélt að ég væri algjört hörkutól
Og ég meina það, ég tók yfirleitt öllu með jafnaðargeði, lét lítið á mig fá og fannst ég bara vera nokkuð lífsvön. Alveg þangað til ég fór til Afríku.
Síðastliðið vor, þegar ég var um það bil að klára menntaskólann og það fóru að dynja á mér spurningar um framhaldið, hvað ég ætlaði að verða, hvað ég ætlaði að fara að gera og hvort ég ætlaði í nám kynntist ég hjónum frá Kenýa. Þau eru búsett á Íslandi en reka barnaskóla í heimalandi sínu. Stuttu eftir að ég kynntist þeim varð ég harðákveðin í því að þetta væri næsta skref fyrir mig, ég skyldi fara til Kenýa og kenna í skólanum þeirra.
Þessi líka dásamlegu hjón, Paul og Rosemary, hafa tileinkað lífi sínu því að safna fyrir rekstrinum og ég heillaðist strax af þeim og þeirra lífssýn. Ég var einhvern veginn viss um að þetta myndi gera mig að betri manneskju og væri fullkomið framhald af lífi mínu.
Áður en ég fór út hafði ég gert mér í hugarlund að þetta væri stutt stopp og svo myndi ég koma heim og halda áfram að ganga menntaveginn. Fara í háskóla, eignast börn og verða fullorðin. Nú er ég ekki svo viss.
Eftir aðeins stuttan tíma í Kenýa hefur svo ótrúlega margt breyst. Fyrir það fyrsta þurfti ég algjörlega að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ég er ekki eins mikið hörkutól og ég hélt. Með því á ég kannski við að ég var engan veginn búin undir það sem beið mín.
Fyrir vestrænar prinsessur með silfurskeið í munni var stórt skref bara að lenda á flugvellinum í Nairobi. Flugvöllurinn var allt annað en verndað umhverfi. Þar voru vopnaðir hermenn í hverju horni, allt í óreiðu og enginn starfsmaður traustsins verður, fannst mér.
Það var annað skref að vera einu hvítu manneskjurnar í borginni, enn annað að sofa með pöddur í rúminu og borða mat sem líktist öllu öðru en mat. Þetta varð þó einhvern veginn minnsta mál í heimi þegar við fórum að heimsækja heimamenn og skoða uppruna þeirra. Við fórum til að mynda að skoða fátækrahverfi í Nairobi sem heitir Mathare.
Þar búa tvisvar sinnum fleiri en á öllu Íslandi, í húsum byggðum úr bárujárnsplötum, plasti og pappa. Húsin eru í það mesta 20 fermetrar og hýsa að meðaltali 6–8 manns. Göturnar þar eru drulluskítugar, fólkið í götóttum fötum og fátæktin er ólýsanleg. Það sem var samt svo merkilegt var karakterinn í fólkinu, langflestir voru brosandi, það ómaði tónlist um allar götur og orðið bræðralag hefur líklega orðið til þarna.
Svona er nokkurn veginn hægt að lýsa allri borginni, langflestir lifa við aðstæður sem Íslendingur á við mig getur aldrei gert sér í hugarlund en eru samt með lífsgleði og vilja sem ég vissi heldur ekki að væri til.
Á svo ótrúlega stuttum tíma hefur hugarfar mitt breyst. Matur er næring, pöddur eru krúttlegar, peningar eru algjört aukaatriði og væl og afsakanir eru hreinlega bara ekki í boði. Á nokkrum dögum hefur hjartað mitt tekið hraðari kipp en á allri ævi minni á Íslandi, af hræðslu, skelfingu, samkennd og leiða en fyrst og fremst af gleði.
Eftir að hafa ferðast aðeins um erum við núna komin í sveitaþorpið okkar fallega sem við ætlum að dveljast í fram að jólum og það er dásamlegt. Í garðinum eru nokkrar kýr á stangli, mangótré og virkilega fallegur gróður. Skólinn er í tveggja mínútna göngufæri og fólkið hérna er yndislegra en allt sem yndislegt er. Án þess að hljóma klisjulega finnst mér ég pínulítið vera komin heim. Það er svo ólýsanlegt að vakna í sólinni, labba niður að vatninu til þess að þvo fötin, baða sig í bala, labba á ávaxtamarkað og vera í kringum fallegu börnin í skólanum.
Ég get rétt ímyndað mér að ég verði örlítið óþolandi þegar ég kem heim, það er að segja allt í einu hef ég virkilega áttað mig á því hvað við búum við mikil gæði, nú fer ekkert meira í taugarnar á mér en fólk sem vælir yfir hinum og þessum smáhlutunum á Facebook.
Ég skammast mín fyrir að hafa orðið pirruð yfir því áður að geta ekki ákveðið hvað ég ætti að borða og annað eins ómerkilegt. Þegar ég hugsa til baka verð ég líka pínulítið pirruð yfir því hvað öllum sem ég þekki fannst það mikilvægasta af öllu vera hvað ég ætlaði að gera næst, svona fyrst stúdentsprófið var í höfn. Hvað ég ætlaði að fara að læra og hvenær ég ætlaði nú að verða fullorðin og fara að safna mér fyrir afborgun af íbúð.
Eins og staðan er núna langar mig mest að halda áfram að upplifa heiminn. Leggja mitt af mörkum og berjast gegn allri þeirri ógeðslegu spillingu sem ríkir í þriðja heiminum af okkar völdum.
En hver veit? Kannski verð ég lítið breytt þegar ég kem heim. Eina sem ég veit fyrir víst er að áður en ég fór þá vissi ég ekki neitt. Það getur enginn ímyndað sér þessar aðstæður nema að sjá þær og upplifa sjálfur. Ég veit líka að mitt líf eru þvílík forréttindi og að ég er endalaust þakklát. Þess vegna mæli ég eindregið með því að allir sem hafa tækifæri til færi út kvíarnar, skoði heiminn og öðlist nýja sýn á lífið.
Það hafa allir gott af því að taka skref út fyrir þægindarammann og skipta silfurskeiðinni út fyrir skítuga plastskeið, þó ekki sé nema í stuttan tíma.