Húsaskipti er kostur sem margir velja að nýta sér þegar þeir ferðast. Um allan heim eru starfrækt samtök og síður sem tengja saman húseigendur og fólk sem velur að búa á heimilum umfram hótel og hefðbundna gististaði. Nýverið var stofnuð íslensk síða á Facebook fyrir fólk sem getur hugsað sér að lána heimili sín til ferðafólks og vill gjarnan eiga þess kost að búa á heimilum annara þegar það ferðast. Ellen Calmon er stofnandi síðunnar, Húsaskipti Ísland og útlönd á Facebook og við ákváðum að spyrja hana aðeins út í þennan framandi ferða-og gistimáta.
Sæl Ellen, og til hamingju með síðuna sem við erum viss um að margir munu nýta sér. Hefurðu sjálf reynslu af húsaskiptum?
Já, ég hef skipt á húsum en alltaf við einhverja sem ég kannast við eða einhvern sem þekkir vini eða fjölskyldu. Ég á t.d. vini og ættingja sem búa erlendis og hafa fengið mitt heimili lánað þegar þau koma í heimsókn til Íslands og það hefur alltaf reynst mjög vel.
Hvað þarf fólk að hafa í huga þegar það lánar heimili sín?
Kostirnir eru yfirleitt fyrst og fremst bundnir við kostnað. Það er tvímælalaust ódýrara að vera í íbúð eða húsi sem þú hefur fengið í skiptum fyrir annað húsnæði en að greiða fyrir hótel. Þægindin eru líka yfirleitt meiri, stærra rými, fullbúið eldhús, þvottaaðstaða sem gerir fólki kannski kleift að ferðast með minna af fötum því hægt er þá að þvo í fríinu. Þá getur einnig verið gaman að búa á meðal „innfæddra“ í stað þess að vera á hóteli ásamt öðrum ferðamönnum.
Er engin áhætta fólgin í því að fara inn á heimili annara eða að lána sitt eigið heimili?
Áhættan ætti ekki að vera mikil ef fólk notar síðuna eins og ég hugsa hana. Hún byggir að miklu leyti á kunningsskap – svona dæmigerðum íslenskum maður-þekkir-mann tengslum. Síðan er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem eiga vini, fjölskyldu eða ættinga sem búa erlendis og vilja koma „heim“ til Íslands í frí og svo þá sem vilja komast í frí til vina eða ættingja í útlöndum. Ég á sjálf fjölskyldu í Frakklandi og Svíþjóð og vini víðar. Þessir aðilar vilja oft koma til Íslands yfir sumartímann en rúmast ekki allir inni á mínu heimili og þurfa þá á íbúðum að halda á Íslandi. Þeir myndu gjarnan vilja lána sín heimili í staðinn. Segjum sem svo að einhver sé tilbúinn að lána tengdaforeldrum mínum, sem búa í Stokkhólmi, íbúð á Íslandi og vilja fá húsið þeirra að láni í staðinn. Þá set ég mig í samband við þann sem vill lána sína íbúð og þannig myndum við persónuleg tengsl, skipuleggjum skiptin og förum yfir öll helstu atriðin. Þannig fæst þessi persónulega nálgun og maður-þekkir-mann tengsl. Í slíkum tilfellum held ég að það séu hverfandi líkur á áhættu við slík húsaskipti.
Kvennablaðið hvetur fólk til að skoða síðuna á Facebook og hver veit nema að það verði upphaf að ánægjulegum húsaskiptum!