Einstein sagði eitthvað á þá leið, að við værum öll í raun snillingar en ef við dæmdum fisk út frá hæfni hans til að klifra í trjám myndi hann fara í gegnum lífið sannfærður um að hann væri heimskur.
Sama gildir um okkur manneskjurnar – ef við gerum almennar og einhlítar kröfur til einstaklinga þá sjáum við aldrei hæfileika þeirra.
Í dag stendur yfir söfnun fyrir nýrri samskiptamiðstöð sem samtökin Erindi hyggjast byggja upp og stendur átakið „Á allra vörum“ að söfnuninni. Bein útsending verður í allan dag á Rás 2 og svo sérstök sjónvarpsútsending í sjónvarpinu sem hefst klukkan 19:35.
Ég vil hvetja alla landsmenn til að sýna samfélagslega ábyrgð og styrkja þetta magnaða framtak sem á eftir að nýtast þúsundum barna, foreldrum og starfsfólki skóla um langa framtíð þegar kemur að þessum hörgulsjúkdómi sem einelti er.
Einelti er hörgulsjúkdómur – eins og skyrbjúgur, sagði Margrét Pála um árið. Einelti verður til af vöntun, skorti á umhyggju, samkennd, meðlíðan, hvatningu, skilningi, hlustun, ást og umburðarlyndi. Oft þarf ekkert annað en veita umhyggju og stuðning þeim sem þjáist og sem litla athygli fær.
Það er fín lína á milli félagslegrar útskúfunar og heimsfrægðar. Já, ég segi það og meina það.
Til eru mörg dæmi þess að litlu hefði mátt muna að hæfileikaríkir einstaklingar væru útskúfaðir úr samfélaginu og til eru miklu fleiri dæmi um þá sem ekki fengu að njóta vafans þegar kemur að dómhörku samfélagsins.
Gillian litla þótti óstýrlát og fremur ódæl í skóla, vinirnir stríddu henni og hún brást við með hlédrægni og feimni en þegar sá gállinn var á henni stökk hún upp á borð og dansaði, söng og lét öllum illum látum. Skólinn ákvað auðvitað að senda hana til geðlæknis og til stóð að senda hana í sérskóla fyrir börn með sérþarfir.
Áttum okkur á því að þetta er í kringum 1940 í Bretlandi og því ekki búið að finna upp nöfnin ADHD eða önnur ‘hegðunarvandamál’ sem við þekkjum í dag.
Þegar geðlæknirinn var búinn að taka viðtal við móður og dóttur sagði hann “Þessi stúlka þarf ekki að fara í sérskóla – hún þarf nauðsynlega að komast í dansskóla”.
Og þarna höfum við það. Með því að hlusta hvert á annað og dæma ekki aðra fyrir hegðun eða útlit má breyta einstaklingi úr því að vera “flókið tilfelli” í “snillinginn” sem Einstein talaði um.
Þessi litla stúlka er Dame Gillian Barbara Lynne, einn fremsti danshöfundur síðustu áratugi og var meðal annars aðal danshöfundur Adrew Lloyd Webber í öllum hans verkum, frá Cats til Phantom of the Opera. Gillian hefði getað endað á hinum enda samfélagsins þar sem allt of margir lenda, sem einhverskonar afskurður í samfélagi sem vill steypa alla í sama mót.
Einelti er eitthvað sem því miður fylgir okkur og samfélaginu á meðan við líðum það og tökum ekki hart á því. Það er ekkert hægt að samþykkja það að barni eða öðrum líði illa vegna eineltis.
Það er ekkert eðlilegt við það að fordæma þá sem líta öðru vísi út, tala öðruvísi, ganga öðruvísi eða lifa öðruvísi lífi en þú og þeir þurfi að líða fyrir það með hrópum, uppnefnum eða jafnvel hótunum, útskúfun og jafnvel lífinu sjálfu.
Slíkt er ekkert minna en hryðjuverk gegn samfélaginu, samfélaginu sem þú ert líka hluti af og því er þetta raunverulega áras gegn sjálfum þér og þínum. Og þeim gildum sem þú vilt standa fyrir, vona ég. Þetta verðum við að kenna elsku börnunum okkar líka.
Ef þú vilt lifa í samfélagi þar sem þú er virtur fyrir það sem þú ert en ekki fyrir það sem aðrir vilja að þú sért þá skaltu temja þér að koma vel fram við annað fólk. Er þetta eitthvað flókið?
Elskum hvert annað, okkur sjálf og styðjum og hvetjum alla í kringum okkur og við munum fá það margfalt til baka.
Samtökin Erindi skrifa nú nýjan kafla í sögunni um það hvernig við sem samfélag, Íslendingar, snúum vörn í sókn og tökum á einu erfiðasta félagsvandamáli síðari ára. Við eigum öll erindi.
Erindi eru samtök fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða og hafa það hlutverk að miðla fræðslu og skapa almenna umræðu um málefni sem varða hag barna og ungmenna á öllum skólastigum. Markmið Erindis er að opna samskiptasetur þar sem aðstandendur í eineltismálum geta fengið ráðgjöf og þjónustu frá fagaðilum.