Á árinu birtum við grein sem við fengum senda. Nokkrum dögum eftir að greinin birtist fengum við svo bréf frá konu sem skýrði okkur frá því að við hefðum þarna birt grein eftir mann sem hefði fengið dóm fyrir nauðgun, og hún gæti gert sér í hugarlund að brotaþola liði ekki vel vegna þessa. Við þökkuðum konunni fyrir bréfið og sögðum henni sem var að við krefðum greinarhöfunda ekki um sakarvottorð, að við hefðum ekki vitað þetta og þökkuðum fyrir að hún hefði látið okkur vita.
Fyrsta hugsun hjá ritstjórninni var: Það er engan veginn heppilegt að blað sem heitir Kvennablaðið birti greinar eftir menn sem hafa beitt konur ofbeldi. En ef maðurinn hefur fengið dóm og afplánað höfum við þá það hlutverk að meina honum að tjá sig um hluti sem tengjast í engu glæp hans? Ber Kvennablaðinu að vera einhverskonar framhaldsdómstóll, jafnvel þótt um afar alvarlegt brot gegn konu sé að ræða? Hefur sá sem hefur tekið út sína refsingu ekki greitt sína skuld við samfélagið? Ef viðkomandi hefur greinilega eitthvað merkilegt að segja, á rödd hans þá ekki að fá að heyrast? Og kannski síðast en ekki síst – hvenær verður, eða öllu heldur, verður sekur maður einhverntíma saklaus?
Eftir nokkra umhugsun spurðum við manninn bara beint hvort þetta væri rétt, að hann hefði fengið dóm í kynferðisbrotamáli, og hér er hans svar sem við viljum gjarnan deila með ykkur, með hans leyfi, því þar koma fram sjónarmið sem vert er að skoða gaumgæfilega. Þau varpa ljósi á margar þær spurningar sem komu upp í kollinn á okkur við bréf konunnar:
„Já, það er rétt, ég fékk dóm. Dæmdur þó engar sannanir lægju fyrir. Þið ættuð að lesa dóminn. Hann er mjög skrítinn.
Eflaust segjast allir vera saklausir en saklaus eður ei þá sat eg minn dóm af mér. Ég er ekki á skilorði. Ég er frjáls maður. En þetta sama fólk og ég er að skrifa um ræðst oft frekar á menn en málefni.
Ákæruna fékk ég 2006. Ég veit ekki hvort það veldur ykkur leiðindum að birta greinar eftir mann sem hefur verið dæmdur, en þar verðið þið að eiga við samvisku ykkar.
Ég er ekki saklaus maður eftir tvo tugi ára í eiturlyfjum og undirheimum Reykjavíkur, Spánar og Danmerkur í mörg ár. Það kemur enginn alsaklaus frá slíku en vondur við konur hef ég aldrei verið.
Þú getur líka spurst fyrir. Ég held til dæmis að XXX þekki mig ágætlega og fleiri af vinum ykkar. En þetta er eitthvað sem þið verðið bara að meta. Ég er heill í því lífi sem ég lifi og nota allan þann tíma sem ég hef afgangs frá amstri dagsins til að láta gott af mér leiða og það get ég gert hvar sem er.
Það er vandratað í þessum heimi og margt sem kemur manni til að hugsa sig tvisvar um – hvort maður vilji vera með í samfélaginu eður ei.
Dómar og straff hafa verið umdeild tæki að ekki sé meira sagt svo lengi sem menn muna og við fórum að reyna að hafa stjórn á samfélaginu. En hver er tilgangurinn með straffi?
Hversvegna er ,glæpamönnum’ hleypt út í samfélagið aftur ef þeir eiga ekki að fá að vera nýtir þegnar aftur?
Ég hef séð amerískar kvikmyndir um fanga og hvað þeir eiga erfitt uppdráttar eftir tukthúsvistina og leiðast oft út í glæpi aftur. Ég hafði lengi vel tekið þessu með fyrirvara en komst síðan að því að svona er þetta. Menn koma út eftir að hafa tekið út sinn dóm og ættu að geta komið undir sig fótunum og orðið partur af samfélaginu aftur en þannig er það ekki.
Sem dæmdur maður þá átt þú ekki að geta unnið nema skítavinnu og átt ekki að þrífast nema í neðstu lögum samfélagsins – ekki að hafa skoðun á neinum málum hvað þá að viðra þá skoðun. Embætti eða stöður innan samfélagsins eru utan seilingar og þá er sama hvað langur tími líður frá dómi.
Innan veggja tukthúsa eru allskonar menn, grjótharðir glæpamenn með lágan siðferðisþröskuld og sumir samviskulausir, en flestir þar eru einstaklingar sem hafa á einn eða annan hátt verið á vitlausum stað á vitlausum tíma, tekið vitlausar ákvarðanir og verða fyrir vikið aðilar að harmleik sem skaðar og meiðir fjölda manns. Því oftast eru þessir menn með fjöldskyldur og vini sem þjást líka.
En hversu lengi verða menn að vera útlagar í samfélaginu eftir að þeir hafa tekið út sinn dóm í tukthúsinu – verið á skilorði í einhver ár – hafa snúið við blaðinu, vilja standa sína plikt, verða góðir og gegnir samfélagsþegnar? Aldrei? Er ekkert sem heitir annað tækifæri?
Eigum við aldrei að fá að rísa upp heldur ganga bognir og niðurlútir það sem eftir er af þessu lifi? Er það siðferðislega réttlátt?
Alltaf munu verða einhverjir sem sitja um að koma höggi á dæmda menn og ef þeir voga sér að rísa upp úr drullunni og stinga upp höfðinu til að tjá sig eða bara til að draga andann og vera með í samfélagi manna þá er dreginn fram dómurinn og viðraður eða sendur til viðeigandi aðila til að stoppa þessa svívirðu sem er: Dæmdur maður er ennþá maður með skoðanir, þrár og drauma og vill jafnvel láta gott af sér leiða!
Svo er annað mál en það er ábyrgð þeirra sem taka á móti svona „kvörtunum“ eða hatursábendingum. Þeir verða að gera það upp við sig hvort þeir fari eftir reglum samfélagsins (sem segja að þú sért frjáls maður eftir að þú hefur borgað skuld þína og tekið út þinn dóm) eða hvort þeir beygi sig undir vilja þeirra sem vilja berja niður allt sem heitir mannleg reisn og eru í „réttlátri“ krossferð (kannski persónulegri) gegn mönnum sem hafa verið dæmdir.“