Blaðamaðurinn Ingimar Karl Helgason ræddi við konu sem gekk inn í það hlutverk að ganga með barn fyrir aðra. Viðtalið birtist áður á Smugunni í febrúar 2012 og er birt hér með leyfi allra sem í hlut eiga.
Konan er nú á fimmtugsaldri og býr ein með þremur börnum sínum. Hún vill ekki láta nafns síns getið, til þess að halda trúnaði við hjónin sem fengu hana til að ganga með barn sitt. Nokkur ár eru liðin frá því að hún svaraði auglýsingu á barnalandi, sem varð til þess að hún setti sig í samband við fólkið.
„Það var auglýst eftir staðgöngumóður í Fréttablaðinu. Ég fylgdist með umræðunni í kringum það, en fannst hún einhvern veginn fara út í vitleysu. En ég hugsaði samt dálítið um þetta, spáði í þessu fram og til baka. Svo sé ég þessa auglýsingu aftur inni á barnalandi, og ákvað þá að svara henni.“
-Hvers vegna ákvaðstu að stíga þetta skref?
„Sko, ég hef ekki tengst börnunum mínum tilfinningalega fyrr en eftir meðgönguna. Í rauninni var mín upplifun þessi: Ég var að hjálpa sjálfri mér. Yngsta barnið mitt er fyrirburi. Ég hafði upplifað það að líkami minn hafði svikið mig um meðgöngu og fæðingu, því ég lenti í bráðakeisara. Þannig að þetta var í rauninni sálarhjálp fyrir mig. Ég gerði þetta meira af eigingirni en hjálpsemi. Þetta var fyrir mitt sálarlíf og mér þótti allt í lagi að hjálpa einhverjum í leiðinni,“ segir konan.
Á þessum tíma var elsta barnið hennar að nálgast tvítugt en tvö yngri börnin á leikskólaaldri.
Missti fóstrið
Hún segist ekki hafa tekið lokaákvörðun fyrr en hún hafði kynnst fólkinu og þeirra aðstæðum. Segist ekki hafa viljað bera barn í þennan heim nema vita að því yrði boðið gott heimili og ástríkir foreldrar. Hún hafi aldrei haft neinar efasemdir um hjónin.
„Og þótt ég væri mest í samskiptum við lækna, þá fórum við konan saman í þetta. Ég sem einstaklingur gat ekki farið í gervifrjóvgun hér. Þannig að við fórum til útlanda sem „vinkonur“ og gerðum þetta þar. Það var í rauninni ekkert um þetta í lögum þannig lagað. Það voru samt sem áður lokanir í lögunum, eins og með gervifrjóvgun og annað. Þetta var þeirra barn. Það er stundum svolítill misskiliningur með staðgöngumæðrun, að það er í fæstum tilvikum þannig að staðgöngumóðirin gefur eggið, allavega miðað við það sem ég hef kynnt mér.“
Konan lýsir frekar jákvæðri reynslu af vikudvöl í útlöndum, þar sem fósturvísum hjónanna var komið fyrir í henni á sérhæfðri læknastöð.
„Það voru semsagt settir upp hjá mér fjórir fósturvísar í fyrstu ferð. Það var smá svona hnútur í maganum að fá svona marga. Þeir eru kaldir læknarnir þarna úti. Ég veit ekki til þess að þetta sé nokkurn tímann gert svona hér. En það festist semsagt einn þeirra. Og …hérna … á elleftu viku meðgöngu þá missti ég fóstrið.“
-Hvernig leið þér þegar þú vissir að þú varst þunguð?
„Það var í rauninni svo skrítið að tilfinningalega var ég svo mikið aftengd þessu. Þetta var þeirra upplifun. Ég tók þungunarprófið og það var þeirra gleði, sem ég tók þátt í. Þegar fóstrið fór þá var það þeirra sorg, sem ég tók þátt í. Það var svolítið svekkelsi fyrir mig,en þetta var þeirra sorg. Mér leið frekar eins og þegar kunningi missir barn. Hvernig maður upplifir svona ákveðna sorg, sýnir hluttekningu, finnur til, en ekki þessa djúpi sorg sem verður þegar maður missir sjálfur. Ég hef misst fóstur sjálf. Það er allt önnur tilfinning. Það er ekki auðvelt að útskýra þetta.“
Kom aldrei til greina að halda barninu
Konan segir frá því að komið hafi á daginn að alvarlegur genagalli var í fóstrinu. En hefur hún hugsað um hvað hefði orðið, hefði meðgangan gengið alla leið og barnið hefði fæðst með alvarlegan galla?
„Við ræddum það mjög vandlega fyrir þungunina. Þetta var hlutur sem ég vildi fá alveg á hreint. hvernig þau myndu taka því ef eitthvað kæmi fyrir. Hvernig þau myndu upplifa þetta. En þau voru að búa sér til sitt barn með öllum þeim kostum og göllum sem því getur fylgt. Það var alveg á hreinu.“
Hún segir að aldrei hafi komið til greina að barnið, hefði það komið í heiminn, yrði eftir hjá sér.
„Nei. Ekki þarna. Ég upplifði það aldrei að þau myndu ekki vilja taka við barninu og óttaðist það í raun og veru aldrei. Þeirra löngun og þeirra þrá, öll sú vinna sem þau höfðu lagt í þetta hafði verið þannig að þau vildu bara eignast barn, með öllu því sem því getur fylgt. Ég kveið engu með þetta.“
„Þetta gat alltaf komið fyrir“
Konan hefur lýst því að hún hafi ekki tengst afkvæmum sínum fyrr en eftir fæðingu og að hún hefði viljað vinna upp meðgöngu sem hún hefði verið „svikin“ um.
„Hjá mér verða tilfinningatengslin til þegar ég fæ barnið í fangið. En af því að við hefðum gert þetta á íslensku sjúkrahúsi þegar ég eignaðist barnið mitt fyrir tímann. Ég hafði verið að búa mig undir heimafæðingu. Það var allt annar hlutur. Ég fór mjög vandlega í gegnum þetta. Svona hugleiðslulega og með sálfræðingi. Ég sá fæðinguna sem slíka ekki fyrir mér sem vandamál. Ég sá alltaf svo sterkt fyrir mér barnið sem þeirra barn. Ég upplifði þetta bara eins og ég væri að passa. Svona eins og að gæta einhverja krúttlegra barna. Það getur verið voða gaman. En það er líka ágætt að skila þeim aftur til foreldra sinna. Það var einhvern veginn svolítið þessi hugsun sem ég hafði í kollinum.“
Konan segist ekki hafa upplifað að hafa brugðist fólkinu þegar hún missti fóstrið.
„Fyrstu tólf vikurnar á meðgöngunni eru krítískar. Mér leið aldrei eins og ég hefði brugðist þeim. Þetta var gervifrjóvgun, gerviuppsetning. Þarna var ég enn á hormónalyfjum og það var bara ennþá ofsalega mikill möguleiki á að fóstrið færi. Það er ekki í rauninni í svona ekki hægt að tala um örugga meðgöngu fyrr en á fimmta eða sjötta mánuði. Þetta gat alltaf komið fyrir.“
ÁFRAMHALD Á NÆSTU SÍÐU