Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Yfirlýsing Félags kvenna í lögmennsku

$
0
0

Félag kvenna í lögmennsku sendir frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna umfjöllunar síðustu daga um skipun í nefnd er metur hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara:

„Félag kvenna í lögmennsku (FKL) harmar þá afstöðu Lögmannafélags Íslands að jafnréttislög gildi ekki við skipun í nefnd sem metur hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara. Lögmannafélagið hefur lýst því yfir að jafnréttislög séu almenn lög en lög um dómstóla sérlög og því gangi dómstólalögin framar jafnréttislögum þegar kemur að skipun í nefndina.

Að mati FKL er sú túlkun ótæk og til þess fallin að draga úr áhrifum jafnréttislaga á vinnumarkaði sem og annars staðar í samfélaginu yrði henni beitt um fleiri viðlíka sérlög.

Stjórn FKL tekur undir með Guðrúnu Erlendsdóttur, fyrrum hæstaréttardómara og heiðursfélaga FKL, um að skipun fimm karlmanna í nefndina sé hreint og klárt brot á jafnréttislögum. Að mati FKL er brotið sérlega alvarlegt í ljósi þess að í dag er eingöngu ein kona skipuð dómari við Hæstarétt og því einkar mikilvægt að jafna kynjahlutföll á vettvangi þessa æðsta dómstóls landsins.

Í jafnréttislögum kemur fram að eitt af yfirlýstum markmiðum laganna sé að vinna að jöfnum áhrifum karla og kvenna í samfélaginu. Sú framkvæmd sem viðhöfð hefur verið er varðar skipun í framangreinda nefnd stríðir gegn þessu markmiði laganna með því að skipa eingöngu karla í nefndina og útiloka þar með að konur geti haft áhrif á það hver verði skipaður dómari við Hæstarétt Íslands.“

F.h. stjórnar Félags kvenna í lögmennsku,

Kristrún Elsa Harðardóttir hdl., formaður.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283