Í morgun fékk ég þann glaðning í pósthólfinu að lúsin væri farin að láta á sér kræla. Þessi óvinsæli gestur á íslenskum heimilum er í essinu sínu á haustin þegar börnin koma saman í skólunum og ég veit ekki með ykkur – en ég man ekki eftir svona linnulausum lúsagangi þegar ég var í barnaskóla.
Ég man bara eftir lús af afspurn þegar ég var barn og svo fjarri og jafnframt heillandi var þessi vargur að ég laug því blákalt, hátt og snjallt í kaffiboði hjá ömmu minni í samsæti heldri frúa að ég hefði í þrígang fengið lús. Ömmu var ekki skemmt og frúrnar jesúsuðu sig.
En það er andstyggilegt að lenda í lúsagangi á stórum heimilum, ég tala af reynslu – því það þýðir endalaus þvottur – kembingar og leiðindi og þessi óþægilega tilhugsun um þessa ósýnilegu leigjendur í húsakynnum manns.
Mér hefur gefist best að löðra hár barnanna í olíu t.d. kókos- eða ólífuolíu, eða vaselíni og leyfa fitunni að vera í hárinu góða stund, svona 1-2 tíma. Þá kafnar lúsarskrattinn. Svo er að skola fituna úr með volgu vatni og hársápu og svo er að kemba. Auðvitað má splæsa í Hedrin eða þessháttar meðöl ef þið treystið þeim betur.
Best er að skipta höfðinu í fleti og taka hvern flöt fyrir sig og kemba hárið frá rót að enda eins og óð sért. Mikilvægt er að sjá vel til og hafa við hendina góðan lúsakamb sem fæst í apótekum. Nitin eða lúsareggið er eins og lítil glær kúla utan um hárið og þessu þarf að ná úr hárinu því þó þú hafir myrt lifandi lús sem kann að hafa leynst í hárinu með olíumeðferðinni þá lifa eggin góðu lífi nema þau séu fjarlægð. Svo ráðlegg ég að þið kembið næstu daga á eftir kvölds og morgna þar til kvikindin eru á bak og burt.
Buff, þó þau séu hryllilega ljót, eru gagnleg þegar lúsafaraldur er í gangi.
- Þvo rúmfatnað
- Þvo húfur og fatnað
- Þrífa rækilega hárbursta og greiður
- Myrða lús með olíumeðferð
- Kemba reglulega
- Senda börn með húfur eða buff í skólann meðan á faraldri stendur
- Vona að aðrir foreldrar geri allt ofangreint líka annars er von á því að þetta verði viðvarandi ástand í vetur.
Baráttukveðjur!
p.s Endilega deilið aðferðafræði ykkar við að ráða að niðurlögum lúsinnar.