Þess er nú minnst um allan heim að 150 ár eru liðin frá fæðingu Sibeliusar, þjóðartónskálds Finna. Sinfóníuhljómsveitin fagnar stórafmælisárinu með tónleikum fimmtudaginn 1. október þar sem Vladimir Ashkenazy heldur um tónsprotann. Flutt verður fimmta sinfónía Sibeliusar en einnig verður flutt óvenjulegt meistaraverk eftir Sibelius, Luonnotar, sem er samið við erindi úr þjóðkvæðabálkinum Kalevala þar sem segir frá sköpun heimsins. Söngkonan Þóra Einarsdóttir syngur einsöng í Luonnotar en hana þarf vart að kynna fyrir tónlistarunnendum. Kvennablaðið spjallaði við Þóru.
Hvernig undirbýrðu þig fyrir tónleika, Þóra? Er einhver sérstök rútína hjá þér fyrir stórtónleika eins og þessa?
Það er misjafnt og fer eftir því hvers eðlis verkið sem ég er að flytja er. Til dæmis, ef ég er að syngja í óperu er oftast langur æfingatími (6–8 vikur) með öllum þar sem maður getur gefið sér tíma til þess að leyfa hlutverkinu að mótast en fyrir tónleika með sinfóníuhljómsveitum er oft aðeins ein eða tvær æfingar með öllum fyrir tónleikana og þá þarf ég að vera búin að undirbúa mig þeim mun betur sjálf. Luonnotar er ákaflega krefjandi verk og ég hef sungið það daglega síðastliðna tvo mánuði og þar á undan var ég að læra það og kynna mér söguna og vinna með finnskuna.
Ég er ekki með neina sérstaka rútínu aðra en að ég reyni að vera ekki að breyta eitthvað útaf því sem ég er vön að gera. Ég vakna snemma eins og ég er vön og geri það sem þarf að gera í daglegu amstri og æfi mig venjulega fyrir hádegi. Mér finnst gott að fara í sund og í jóga og geri það alveg eins á tónleikadegi. En svo finnst mér ágætt að slaka aðeins á eða leggja mig fyrir tónleikana.
Þú ert að vinna með Ashkenazy í fyrsta sinn en ert búin að æfa með honum og hljómsveitinni. Hvernig líst þér á þennan dáða píanóleikara og stjórnanda?
Ég er reyndar aðeins búin að hitta hann einan og fara í gegnum verkið með honum við píanóið svo að ég hef ekki heyrt í hljómsveitinni enn. Mér finnst alveg frábært að vinna með honum og verð að viðurkenna að mér fannst ekki leiðinlegt að syngja með Ashkenazy við píanóið en hann er auðvitað stórkostlegur píanóleikari og þótt hann sé þekktastur sem einleikari þá ég á nokkar uppáhalds upptökur af honum þar sem hann leikur með söngkonum. Upptöku af Frauenliebe und Leben eftir Schumann með Barböru Bonney og sönglög Rachmaninoffs með Elisabeth Söderström. En á þessum upptökum kemur vel fram hversu mikill listamaður hann er og næmur túlkandi svo að það var ekki síst þess vegna sem ég hlakkaði mikið til að vinna með honum.
Hvað einkennir gott samband stjórnanda og söngvara?
Það þarf að vera byggt á samvinnu þar sem báðir hafa sitt að segja. Sumir stjórnendur eru hálfgerðir harðstjórar, aðrir kunna að laða fram það besta í flytjendum. En þeir eru aðvitað jafn ólíkir og þeir eru margir. Þegar æfingatími er stuttur með hljómsveitarstjóra veltur mikið á því að samstarfið gangi upp og þá er það sameiginlegur skilningur á stíl, innihaldi og túlkun sem skiptir máli. Ég er orðin býsna fljót að lesa í stjórnendur og greina hvað þeir leggja áherslu á. Maður reynir auðvitað að þjóna listrænni sýn sjórnandans en um leið að vera trúr sjálfum sér.
Segðu okkur aðeins frá þessu verki Sibeliusar Luonnotar og samnefndu hlutverki þínu.
Þetta er ekki langt verk, svokallað tónaljóð, en gríðarlega krefjandi og innihaldsríkt. Það fjallar um sköpun heimsins eins og henni er lýst í „Kalevala“. Luonnotar þýðir dóttir náttúrunnar, en tónaljóðið segir frá því hvernig stúlkan Luonnotar flýtur um í tómarúminu og berst um á öldum vatnsins í sjö hundruð ár þar til fugl kemur og gerir sér hreiður á hné stúlkunnar sem risið hafði úr vatninu. Hún hristir sig og úr brotnum eggjunum verður tungl og stjörnubjartur himinn. Þetta er auðvitað allt mun fallegra á finnskunni í ríkulegum texta og tónlistin er hreint út sagt stórkostleg, fíngerð, mikilfengleg og dáleiðandi.
Nú er 150 ára afmælis Sibeliusar minnst, áttu þér eftirlætistónverk eftir hann?
Ég held að fiðlukonsertinn verði alltaf í uppáhaldi þó að Luonnotar sé uppáhaldsverkið akkúrat í dag. Ég söng í Kullervo síðastliðinn vetur sem er risavaxið verk fyrir stærðar karlakór sópran barítón og hljómsveit það var algjörlega magnað. Svo hef ég verið að syngja sönglögin hans og þar er að finna fíngerðar perlur eins og Diamanten på marssnön svo að það er óhætt að segja að hann eigi sér margar hliðar. En fyrst og fremst er það tengingin við náttúruna sem alltaf er til staðar hjá Sibelius sem höfðar sterkt til mín.
Hvað er svo fram undan hjá þér í vetur?
Það vill svo skemmtilega til að á morgun, tónleikadaginn, er ég líka að útskrifast með MA í listkennslu. Ég gerði stóra rannsókn á sviði söngkennslu þar sem ég var að skoða og þróa starf mitt sem söngkennari við tónlistardeild LHÍ í samstarfi við Kristin Sigmundsson. Ég ætla að fylgja rannnsókninni eftir, helga mig frekari rannsóknum á sviði menntavísinda, og vinna með nemendum í LHÍ samhliða því sem ég held áfram að syngja.
Það eru fjöldi tónleika fram undan en sérstaklega er þó merkilegt að það virðast vera einhverjir finnskir straumar í öllu sem ég tek mér fyrir hendur þessa dagana, ég hef sungið mikið af finnskri tónlist undanfarið og unnið með finnsku tónlistarfóki og mín bíða nokkur boð um að koma til Finnlands; m.a. er ég að syngja Jóhannesarpassíu Bachs í Helsinki með Helskinki Barrok Orchester um næstu páska.

Þóra Einarsdóttir í hlutverki Ragnheiðar. Á mynd eru einnig Viðar Gunnarsson og Jóhann Smári Sævarsson. Ljósmyndari Gísli Egill Hrafnsson.
Þú sýndir m.a í Ragnheiði, óperu Gunnars Þórðarsonar, að þú ert ekki bara frábær söngkona heldur hörkuleikkona, hvaða hlutverk óperanna heilla þig mest og af hverju?
Þau eru mörg, en af hlutverkum sem ég hef ekki sungið enn og langar að takast á við eru það Margarethe í Faust eftir Gounod, Manon í Manon eftir Massenet, Melisande í Pelleas og Melisande eftir Debussy. Þetta eru allt hlutverk sem eru mjög marglaga og krefjandi í persónusköpun auk þess sem tónlistin höfðar til mín.
Ashkenazy steig sín fyrstu skref sem hljómsveitarstjóri með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1972. Hann hefur verið aðalstjórnandi hjá virtum hljómsveitum á borð við Konunglegu fílharmóníusveitina í London, Tékknesku fílharmóníusveitina og Sinfóníuhljómsveitina í Sidney í Ástralíu. Auk þess hefur hann starfað sem gestastjórnandi með flestum frægustu hljómsveitum heims. Árið 2002 var Ashkenazy gerður að heiðursstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann hefur síðan snúið aftur á hverju starfsári og stjórnað mörgum meistaraverkum tónbókmenntanna.
Tónleikarnir hefjast á flutningi á 2. sinfóníu Johannes Brahms. Ashkenazy hefur undanfarin ár stjórnað 1. og 3. sinfóníu Brahms með hljómsveitinni og er áformað að hann loki hringnum með fjórðu sinfóníunni á næsta ári. Tónleikarnir eru eins og áður sagði fimmtudaginn 1. október 2015 klukkan 19.30.
Efnisskrá tónleika:
Johannes Brahms: Sinfónía nr. 2
Jean Sibelius: Luonnotar
Jean Sibelius: Sinfónía nr. 5
Stjórnandi: Vladimir Ashkenazy
Einsöngvari: Þóra Einarsdóttir