Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hugleiðingar um hreyfiöfl og fólk á ferð

$
0
0

Ég heyrði einu sinni viðtal í útvarpinu við konu á Raufarhöfn sem var spurð að því hvað væri hægt að gera á staðnum: „Það er stutt yfir á Þórshöfn“ var svar hennar og ég hló – var þá alveg búin að gleyma þessu …

„Utanbæjarnúmer... ferðamenn.“

„Utanbæjarnúmer… ferðamenn.“

Þegar ég var að alast upp sætti það tíðindum ef ferðamenn flæktust út af hringveginum og heimsóttu minn heimabæ, Eskifjörð. Það kom þó fyrir að bílar með utanbæjarnúmer lónuðu um bæinn, farþegar þeirra skyggndust út um rúður og kölluðu til okkar krakkanna eftir upplýsingum. Við vinkonurnar dauðskömmuðumst okkar fyrir að lengstum var hvorki hægt að benda á hótel eða kaffihús og við urðum kafrjóðar þegar við reyndum að svara því hvort sundlaugin væri opin. Því var nefnilega þannig háttað með opnunartímann að það var val um þrjú-sund, fjögur-sund, fimm-sund og sex-sund.

Þessi fyrirbæri var erfitt að útskýra fyrir utanaðkomandi, en innfæddir Eskirðingar voru alvanir því að hanga á snerlinum á heila tímanum (þangað til Konni hleypti inn), hafa fjörutíu og fimm mínútur í lauginni og vera svo reknir upp úr fjórðungi fyrir næsta heila tíma, passlega til að ná að sturta sig, klæða og rýma klefana fyrir næsta holl. Það var bannað að fara í tvö samliggjandi sund og það þótti vitlaust að fara í laugina á hálfa tímanum, því þá var svo stutt í að rekið yrði upp úr. Það var samt leyfilegt að fara í þrjú-sund og fimm-sund eða fjögur-sund og sex-sund – og það gerðu margir krakkar á þessum árum.

SundlaugOpin-LokuðMig rekur þó ekki minni til að við höfum útskýrt þann möguleika fyrir ferðamönnum, sem virtust einmitt hafa sérstakt lag á að villast inn í bæinn og spyrja um opnunartíma sundlaugarinnar þegar það var langt í næsta heila tíma. Fæstir nenntu að bíða, eða vildu kannski ekki hanga á snerlinum og láta reka sig upp úr með hvellu flauti. Þeim ferðamönnum ráðlögðum við að fara bara á Norðfjörð – þar væri nefnilega útisundlaug og rosa flott kaupfélag á mörgum hæðum. Samt var okkur frekar illa við Nobbana, en við höfðum samúð með ferðamönnunum sem þurftu kannski að borða eitthvað, gista einhvers staðar og gera eitthvað. Það var ekki hægt á Eskifirði í þá daga en var betra á Norðfirði.

Á níunda áratugnum var lífið ennþá svolítill saltfiskur og menn kunnu betur að taka við því sem barst sjóleiðina en landleiðina. Fiskur var mikilvægari en ferðamenn, skilaði meiri tekjum og var enn ríkur þáttur í lífi fólks. Á Eskifirði var ekkert vandamál að taka við öllu því sem barst af hafi; bæði mönnum og afla. Þarna voru bryggjur, frystihús, bræðslusíló, söltunarstöðvar og rækjuverksmiðja fyrir aflann, verbúðir fyrir farandverkafólk og Valhöll fyrir alla sem vildu gleyma slorinu um stund. Þetta var fyrir opnun sjóminjasafnsins, steinasafnsins, kaffihússins, Randulffs og Mjóeyrar – og fyrir tíma útisundlaugarinnar sem alltaf virðist vera opin.

Nú bjóða Eskfirðingar meira að segja ferðamönnum heim til sín undir slagorðinu „Meet the locals“. Það datt okkur vinkonunum aldrei í hug og sögðum ferðamönnunum blessuðum að drífa sig bara upp brekkuna hjá Landsbankanum og keyra alveg þangað til þeir sæju næsta bæ, þá væru þeir komnir á Norðfjörð. (Það eru, held ég, bara Nobbar, fréttamenn, illa áttaðir og bókstafstrúarfólk sem kalla Norðfjörð Neskaupstað.)

Nú er ekki hægt að benda á Landsbankann sem kennileiti þegar vísa á fólki upp Norðfjarðarbrattann. Það er búið að loka bankanum og opna þar hótel, Hótel Eskifjörð. Það er líka búið að loka frystihúsinu, rækjuverksmiðjunni og söltunarstöðvunum. Bókabúðinni var nýlega lokað og Ellabúð, Konnabúð og búðin hans Helga heitins tilheyra horfnum heimi. Horfnir eru líka þeir tímar dags þegar miðbærinn iðaði af lífi; fólkið sem vann í fiski notaði hádegis- og kaffitímana til að útrétta, og með umferð keyrandi og gangandi mátti heyra þessi gamalkunnu, notalegu hafnarhljóð, sem skilja eftir svo mikla þögn þegar þau heyrast ekki lengur.

Ég hef ekki vanist þessari nýju þögn og finnst hún ekki passa staðnum, og ég hef heldur ekki vanist því að bílastæðið framan við búðina og gamla bankann standi stundum autt. Takturinn í bæjarlífinu hefur breyst og vettvangur þess hefur færst til. Margir bæjarbúar vinna nú í álverinu hinum megin Hólmatinds (á Reyðarfirði (öfugum megin við fjallið)) og eiga því ekki þátt í að fylla bæinn af lífi yfir daginn. Flestir gera sín innkaup í lágvöruverðsverslunum í næstu bæjarkjörnum og því er lítið að gera í einu matvöruversluninni sem enn er á staðnum.

Mér finnst dauflegt í bænum, nú þegar ég kem þangað sem brottfluttur Eskfirðingur, og velti fyrir mér breytingunni sem orðið hefur á mínum gamla heimabæ – og öðrum sambærilegum. Með breyttum atvinnuháttum og ýmsum áherslubreytingum hafa mörg sjávarpláss á landsbyggðinni tekið nokkrum breytingum í áranna rás. Sum hafa tekið stakkaskiptum til betri vegar en önnur mega muna sinn fífil fegurri. Auðvitað eiga byggðarlög sér bæði sín blómaskeið og hnignunarskeið, að langmestu leyti í samræmi við þróun atvinnulífs, en aðrir misstórir þættir geta einnig haft áhrif, allt frá ákvörðunum einstaklinga yfir í allt það sem er utan við mannlega stjórn.

Hér var ekki ætlunin að rýna sérstaklega í stöðu Eskifjarðar, hann er einungis tekinn sem dæmi, enda eiga sér allir „sinn Eskifjörð“; eiga sér tengsl við einhvern bæ sem sýnist blómlegur á köflum en dauflegri á öðrum stundum. Ýmsar breytingar sem orðið hafa í sjávarplássum og öðrum byggðakjörnum á landsbyggðinni síðustu ár og áratugi má í ákveðnu ljósi túlka sem framför.

Ferðamenn, innlendir sem erlendir, geta á ferð sinni um landið vænst þess að finna alls kyns áhugaverðar vörður sem vert er að staldra við. Þessar vörður eru margar hverjar afrakstur einstaklingsframtaks þar sem söfn, setur, sýningar, kaffihús, veitingastaðir, handverkshús og þvíumlíkt hafa verið sett á fót vítt og breitt um landið. Úti um alla koppa og grundir, inn til lands og upp til sveita, hafa sprottið upp alls kyns fyrirbæri sem flest hver má setja undir stækkandi hatt ferðaiðnaðarins. Hvaðeina sem fengið gæti ferðamenn til að staldra við og eyða svolitlum peningum er komið á koppinn. Drifkrafturinn er aukinn straumur ferðamanna til Íslands, möguleikinn á að skapa sér atvinnu og lífsviðurværi – og að geta ráðið eigin búsetu.

Það er hins vegar engin trygging fyrir því að aukinn straumur ferðamanna og uppbygging í ferðaþjónustu skili sér í bættum hag fyrir íbúa viðkomandi byggðarlags, svona almennt og yfirleitt, sumir bæir hafa orðið dauflegri þrátt fyrir að ferðaþjónusta þar hafi aukist. Íbúar gleðjast þó væntanlega yfir því að þurfa ekki að vísa á næstu byggðarlög þegar ferðamenn spyrja þá um kaffihús, söfn og sundlaugar, en sú gleði ristir væntanlega grynnra þegar atvinnulífið þykir einhæft – og fólk þarf jafnvel að sækja sér atvinnu í næstu byggðarlög. Já, svona breytist allt. Það sem er gott fyrir ferðamanninn er ekki endilega gott fyrir bæjarbúann.

Ef ég heimfæri þetta upp á minn gamla heimabæ, er munurinn greinilegur frá því ég var að alast upp. Í stað þess að hanga á snerlinum og bíða þess að vera hleypt inn í litla innisundlaug og benda ferðamönnum á að heimsækja næsta bæ, er nú komin glæsileg útisundlaug sem skartar bæði ríflegum opnunartíma og dásamlegu útsýni (í mesta lagi sundlaugin á Patró sem toppar það).

Hægt er að vísa ferðafólki á söfn, veitingastað og kaffihús en þrátt fyrir það er minna líf í bænum. Ferðaþjónustan hefur ekki náð að vega upp á móti breyttum atvinnuháttum. Það er að vísu alltaf líf og fjör í sundlauginni en þeim bæjarbúum hefur fækkað sem dvelja í bænum daglangt við vinnu, og erindast síðan innanbæjar í matmálstímum og öðrum frítíma.

Þungamiðja atvinnulífsins er við álverið í Reyðarfirði. Ofan við það stendur steinhúsið Sómastaðir, sem virðist svo agnarlítið í samhengi nýrra tíma og nýrra atvinnuhátta.

„Sómastaðir og álverið við Reyðarfjörð.“ Mynd: Atli Börkur Egilsson.

„Sómastaðir og álverið við Reyðarfjörð.“ Mynd: Atli Börkur Egilsson.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283