Kvennablaðinu hafa borist sögur af ungabörnum sem eru talin hafa veikst af því að drekka Stoðmjólk frá MS og fleiri slíkar er að finna hér og þar í netheimum. MS innkallaði stoðmjólkina í vikunni með þeim útskýringum að hún stæðist ekki bragðkröfur.
Við könnuðum hvar málið stæði hjá eftirlitsiðnaðinum. Hjalti Andrason, fræðslustjóri hjá Matvælastofnun (Mast) varð fyrir svörum. Hann segir ekkert vitað enn með vissu um eðli vandans og aðeins eitt tilfelli um veikindi af völdum mjólkurinnar væri þekkt. DV hefur greint frá því að tilfellin séu fleiri.
Málið er í ferli hjá Mast, að sögn Hjalta, auk þess sem framleiðandinn er að rannsaka það innanhúss sjá sér. Sýni hafa verið tekin af mjólkinni og eru þau til rannsóknar hjá Mast, MS og hafa einnig verið send á erlenda rannsóknarstofu.
Ekki er enn ljóst hversu mikið magn seldist af gölluðu stoðmjólkinni, en ein framleiðslulota var innkölluð og mun skaðinn takmarkast við hana.
Við höldum lesendum upplýstum um framvindu þessa máls.