Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fjör og gleði en vantar dýpt

$
0
0

Það vantar ekki fjörið og leikgleðina í trúðasýninguna Sókrates. Hér skal sögð sagan af hinum merka heimspekingi og það gengur brösulega eins og vera ber þegar fara sannkallaðir trúðar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Borgarleikhúsið teflir fram trúðum sínum en áður hafa þeir sagt okkur frá dauðasyndunum og Jesú litla og þá má kannski í sömu andránni nefna Hamlet litla, sem var ekki trúðasýning í þeim skilningi, en sömu höfundar hafa haldið um taumana í öllum þessum sýningum.

Trúðarnir Úlfar, Guðrún, Bella og Ronja leika söguna um Sókrates og bregða sér í þau hlutverk sem sagan krefst – Sókrates er auðvitað sá sem allt snýst um, Xanþippa er hin forsmáða eiginkona hans og Sófransiskos hjartnæmur sonur þeirra. Þá koma við sögu ótal aðrar persónur: Flautustúlka, sæfarar, hákarl að ógleymdum Platón! Án hans hefði ekki verið nein saga og hefði hann ekki skrifað sögu Sókratesar hefðu allar hinar sögurnar – þær sem aldrei voru skráðar! – ekki heldur verið til. Þetta er, sko, heimspeki, og það er augljóslega enginn skortur á möguleikum til snúninga og útúrsnúninga í orðum og æði þegar farið er heimspekilega í hlutina.

20150925-_D3A2649

Það er æði margt sem úr verður kostulegt skrípó. Dæmi: Tilvistarkreppa og sálarangist farmannsins sem flytur eitrið sem á að drepa Sókrates yfir Miðjarðarhafið er átakanleg og grípandi. Ó, hvað við finnum sárt til með trúðnum hennar Kristínar Þóru þar sem hún hefur misst vinstri handlegg í hákarlsgin og að auki glatað lífstilganginum. Platón Maríönnu Clöru er ekki síður örvæntingarfullur þar sem hann berst við að vera hvergi viðstaddur þar sem hlutirnir gerast, því aðeins þannig getur hann verið fullkomlega hlutlaus; hún fer einnig eftirminnilega með brúðuna Sófransiskus Sókratesar- og Xanþippuson og á eitt fallegasta móment leiksins ásamt Bergi Þór þegar feðgarnir tala saman á einlægu nótunum eftir að búið er að dæma Sókrates til dauða. Kristjana Stefánsdóttir fer á kostum í hlutverkum hins auðuga vinar, auðmanns og heimspekings Krítóns og Flautustúlkunnar; söngur hennar hreint unaðslegur og tónlistin yfir höfuð gullfalleg og fleytir mörgum atriðum fallega áfram. Aðaltrúðurinn Úlfar fer með hlutverk Sókratesar sjálfs og Bergur Þór hefur þvílíkt vald á klassískum trúðleik að unun er að og að öðrum ólöstuðum voru mörg tærustu augnablik trúðleiksins sem fyrirbæris sprottin úr tækni hans og orku.

Sókrates

Sókrates

Leikmynd og lýsing Egils Ingibergssonar er hvort tveggja smekkleg og haganlega gerð. Egill hefur margoft sýnt og sannað hvert vald hann hefur á þessum þáttum leikhússins og hér vinnur allt hvert með öðru þannig að úr verður góð listræn heild sem þjónar anda verksins.

Og hver eru svo heildaráhrifin? Jú, að mestu leyti góð. En – sýningin er svo sprellfjörug og skemmtileg að henni tekst næstum því að fela megingallann: textinn er fátæklegur. Biðji maður um tilgang, dýpt eða söguþráð er lítið að finna umfram það sem við þegar vitum um Sókrates úr sögubókum: heimspekingur frá Aþenu, hann skrifaði ekkert sjálfur; lærisveinar hans Platón og Xenofon sögðu frá honum sem og leikskáldið Aristófanes og á þeim er þekking okkar á Sókratesi byggð. Sókrates skoðaði samfélagið og eðli þess, var talsmaður skynsemishyggju og er sagður hafa aflað þekkingar sinnar með því að leita svara við spurningum á borð við “Hvers konar líf er þess virði að því sé lifað?”, “Hvað er vinátta?” og “Hvað er réttlæti?”

Sókrates

Sókrates

Sókrates var dæmdur til dauða árið 399 f.Kr. og látinn drekka eitur; honum var til saka fundið að hafa spillt ungdómnum með hugmyndum sem drógu lýðræðið í efa auk þess sem hann stóð gegn því að lög væru í mótsögn við stjórnarskrána.

Það vantar ekki dramatík í sögu Sókratesar en hún nýtist textahöfundi lítið. Sagan er mögnuð með einu pólítísku réttrúnaðarkorni: skortur á konum í sögu heimspekinnar varð að nokkrum augnablikum í sýningunni sem áhorfendur á frumsýningu fögnuðu mjög – það skorti ekki á pólítíska réttsýni og samskilning milli sviðs og salar – og eins örlaði á nokkrum tilvísunum til nútíma sem góðu heilli var ekki farið of mikið útí enda vísast að þá hefði farið fyrir lítið sá húmor sem þó hélt sýningunni uppi. Hinu skal til haga haldið, að textinn er ákaflega smellinn og margt rímið bráðskemmtilegt.

Og það verður ekki af því skafið – sýningin er brjálæðislega skemmtileg, fjörug og lifandi og aldrei er eins gaman í leikhúsi og þegar leikararnir skemmta sér og þau Bergur Þór, Kristín Þóra, Kristjana og Maríanna Clara leika svo sannarlega við hvurn sinn fingur. Hvergi er dauður punktur, alltaf eitthvað fjörlegt og fyndið að gerast og fyrir það þökkuðu frumsýningargestir með því að rísa úr sætum og fagna; ég er nú helst á því að það eigi eftir að gerast oftar í sögu þessarar sýningar.

 

Borgarleikhúsið
Sókrates
Höfundur leik- og söngtexta: Bergur Þór Ingólfsson
Höfundur tónlistar: Kristjana Stefánsdóttir
Leikstjórn: Rafael Bianciotto og Bergur Þór Ingólfsson
Leikmynd og ljósahönnun: Egill Ingibergsson
Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir

Sókrates_fin


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283