Vegna umræðunnar um 111. meðferð á svínum er áhugavert að skoða hvernig svín eru nýtt í iðnaði. Það er víðar en ykkur grunar. Vissuð þið t.d. að það er að finna svínaafurðir í sápum, sjampói, tannkremi og húðkremum? Belgir og hylki sem innihalda lyf eru oftar en ekki búin til úr svínaafurðum. Það er alls ekki loku fyrir það skotið að þegar þú ert búin/n að klæða þig á morgnana sértu búin að innbyrða, þrífa þig og smyrja andlit þitt með – svínaafurðum.
Svo ferðu fram í eldhús og þar bíður heimilisjógúrtin sem er hlaðin gelatíni. Gelatín, sem er unnið úr beinum og húð svína, hefur ýmsa eiginleika en helstir eru hleyping, bindigeta, ýrumyndun, og þykkingar- og mótunareiginleikar. Gelatín er litlaust og bragðlaust hleypiefni sem inniheldur hátt hlutfall af auðmeltu próteini. Gelatín er líka notað í djúsa, ýmislegt sælgæti eins og hlaup og ís en einnig er gelatín að finna í mörgum eftirréttum, kjötafurðum og fiskafurðum.
Fitusýrur úr beinum svína eru einnig notaðar í ýmislegt, svo sem eins og mýkingarefni, málningu, sjampó og smjörlíki ýmiss konar – sumsé ýmislegt sem við erum vön að beri svona eftirsóttan smjörlíkisperluáferðargljáa!
Svo þegar rökkva tekur og þú kveikir á kertum er næsta öruggt að í þeim er að finna svínaafurðir sem notaðar eru til að herða vaxið og lengja brennslutíma kertanna. Ef þú málar með penslum gæti meira en verið að hár pensilsins séu einmitt af svíni.
Listakonan og rannsakandinn Christine Meindertsma varði þremur árum í að rannsaka allar afurðir þær sem fengust af einu svíni. Þar kom ýmislegt á óvart en á meðal þess sem framleitt er úr svínum er til dæmis:
Áburður, bjór, lág-fituvörur, Skot í byssur, lyf, hjartalokur, postulín, tyggigúmmí, biodíselolía, bremsur , ljósmyndapappír, sígarettur og vín. Svínið sem hún fylgdi eftir bar númerið 05049. Hún bjó til listaverkabók um svínið sem hét einfaldlega Pig 05049.
Christine Meindertsma flutti skemmtilegan fyrirlestur um svínið sem hún fylgdi frá gröf til afurða á fyrirlestrarsíðunni Ted. Við mælum með að þið hlustið á hana og fræðist um hið merka og gagnlega dýr, svínið!