Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Ég er ekki tabú!“

$
0
0

Hrönn Harðardóttir skrifar:

Ég er ekki tabú!
Mér finnst svo frábært að það sé verið að vekja athygli á geðsjúkdómum núna og eftir töluverða umhugsun hef ég ákveðið að segja frá minni reynslu af kvíðaröskun.

Það var árið 2009 sem ég fékk mitt fyrsta ofsakvíðakast og það er mjög erfitt að koma í orð hvernig sú tilfinning er. Oföndun, óstjórnlegur grátur, svimi, ógleði og lamandi hræðsla voru þau einkenni sem ég fékk, tilfinningin var þannig að mér fannst ég ekki ná andanum og hélt hreinlega að ég væri að deyja. Þetta gerðist eftir að ég var byrjuð aftur í námi og fullkomnunaráráttan var að fara með mig!

Mikið nám, mikil vinna, peningaáhyggjur og endalaus pressa sem ég setti á sjálfa mig, því fyrir mér var ekki í boði að fá 6 í einkunn, há einkunn eða ekkert! Kvíðaköstin byrjuðu að koma í kringum prófatíð og svo þegar prófin voru búin og köstin hættu ekki þá ákvað ég að fara á bráðamóttöku geðdeildar. Það voru þung spor, ég skammaðist mín fyrir að þurfa að fara á geðdeild, einhvern veginn var það skammarlegra en að þurfa að fara á einhverja aðra deild á sjúkrahúsi. Það er það sem ég vona að sé að breytast og þess vegna vil ég segja frá þessu.

Í kjölfarið fór ég í meðferð á geðdeildinni þar sem mikið var farið í hugræna atferlismeðferð, ég vildi ekki fara á lyf heldur ætlaði ég bara að vinna með hausinn á mér. Það gekk vel og mér fór að líða mun betur, þangað til ári seinna þegar ungur systursonur minn lést í slysi. Ég áttaði mig ekki strax á að kvíðinn væri kominn til baka því það var svo margt sem maður var að vinna í þarna og sorgin var svo mikil. Nokkrum mánuðum síðar þurfti ég aftur á geðdeildina og fór þá á bæði kvíðalyf og tímabundið á svefnlyf. Þá var útskýrt fyrir mér að stundum væri þetta bara þannig að það þyrfti lyf, þetta væri orðið líffræðilegt og alveg sama hvað ég ynni með hausinn á mér, það væri ekki alltaf nóg.

Mér fór að líða mun betur og var á lyfjunum í ca tvö og hálft ár en þá var ég í Biggest Loser-ferlinu og fannst ég orðin nógu sterk og komin með næg verkfæri til að prófa að hætta á lyfjunum. Ég talaði um það við lækni og hann var sammála mér svo ég hætti smám saman á þeim og gekk vel. Kvíðinn hverfur samt ekkert og ég þurfti alltaf að vera meðvituð um hann, um leið og eitthvað kom upp á eða ég var undir álagi fann ég fyrir honum en ég náði að hafa stjórn.

Í vor lenti ég í áfalli og í kjölfarið var mikið álag á mér svo ég fann kvíðann læðast upp að mér aftur en það er ótrúlega skrítið stundum hvernig það gerist. Ég er orðin svo vön tilfinningunni að vera með kvíðahnút í maganum og slíkt að ég átta mig oft ekki strax á því að hann sé að aukast. Eins skrítið og það er þá er oft það sem verður til þess að ég átta mig þegar ég fæ mikla verki í kjálkana en þá er ég búin að vera stíf svo lengi að mig fer að verkja og það hefur orðið þannig að ég get varla tuggið fyrir verkjum. Þegar kvíðinn verður mikill hjá mér þá er eins og ég missi stjórn á huganum.

Ég tel mig nú yfirleitt frekar skynsama manneskju, wink emoticon, en þegar kvíðinn kemur þá nær skynsemin oft ekki í gegn. Ég fer að verða hrædd við allt, get orðið sjúklega hrædd við að missa einhvern sem mér þykir vænt um, verð viss um að ég sé komin með alvarlegan sjúkdóm eða bara eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast. Þá sofna ég hálflömuð af kvíða, held að ég muni ekki vakna daginn eftir, það kvikni í íbúðinni eða bara hvað sem er. Þegar þetta gerist þá virðist lausnin vera að hætta bara að hugsa um þetta og oft er það ráðið sem aðrir gefa manni en því miður er það ekki svo einfalt, ef það væri þannig þá væri ekkert til sem heitir kvíði. Það er eins og að segja mígrenissjúklingi að hætta að vera með höfuðverk.

Það eina sem hægt er að gera er að leita sér hjálpar og það er ekkert til að skammast sín fyrir! Í sumar þá talaði ég við Gurrý (þjálfara í Biggest Loser) alveg miður mín yfir að vera að þyngjast, ná ekki stjórn á mataræðinu og leið bara mjög illa. Ég sagði henni frá því sem hafði verið í gangi undanfarna mánuði og það er henni að þakka að ég leitaði mér hjálpar.

Hún sagði við mig að nú væri það fyrsta sem ég þyrfti að gera að fara til sálfræðings og vinna úr öllu þessu „gamla drasli“. Það yrði að vera í forgangi því þangað til ég færi að vinna í því fyrir alvöru myndi ég aldrei ná stjórn á þyngdinni og það er að sjálfsögðu hárrétt. Þegar kvíðinn er mikill og mikil vanlíðan þá er það átak að fara fram úr á morgnana og gera það sem maður þarf að gera, eftir það er orkan búin og þetta verður, í mínu tilfelli, til þess að ég fer að borða alltof mikið.

Eftir að hafa verið hjá sálfræðingi núna í nokkrar vikur þá finn ég að líðanin er betri að öllu leyti og ég hef áttað mig á því að kvíðinn er búinn að fylgja mér nánast alla tíð. Ég hef alltaf verið kvíðin yfir ótrúlegustu hlutum, hrædd við að mistakast, hrædd um alla í kringum mig og hrædd um að vera ekki nógu góð. Þótt mér líði betur þá er þetta samt ekkert búið, ég þarf alltaf að vera meðvituð um þetta og mun sennilega alltaf þurfa þess. En ég er hætt að skammast mín, þetta er ekki aumingjaskapur og ég leita mér þeirrar hjálpar sem ég þarf, alveg eins og ég myndi gera ef þetta væri líkamlegur kvilli.

Ég ákvað að skrifa um þetta til að taka þátt í þessari frábæru umræðu og með von um að þetta hjálpi einhverjum til að skila skömminni, leita sér hjálpar og vinna í sínum málum.

Það er erfitt en klárlega þess virði! ‪#‎égerekkitabú‬

 

Fylgist með Hrönn á Facebook hér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283