Segir tölfræði um sjúka okkur eitthvað um heilbrigði samfélagsins? Gæti verið. Auðvitað viljum við útrýma ungbarnadauða og krabbameini, eyðni og offitu, alkóhólisma og anorexíu, tannskemmdum og geðveiki og svo mætti lengi telja. Við viljum heilbrigt fólk til að skapa heilbrigt samfélag. En skapar heilbrigt fólk heilbrigt samfélag eða er það samfélagið sem skapar fólkið? Það eru ekkert allir á sama máli þar.
Mér finnst eins og stærstu heilbrigðisvandamál samfélagsins séu aldrei á dagskrá. Hvernig er ástatt með heilbrigði samfélagsins? Í mínum huga er stærsti heilbrigðisvandinn ekki sykurát og áfengisneysla.
Stærsti heilbrigðisvandinn er GRÆÐGI! Græðgi einstaklinga, græðgi fyrirtækja, græðgi þjóða.
Illa staddur alkóhólisti er búinn að ná þeiri viðurkenningu að vera sjúkur, og þar af leiðandi heilbrigðisvandi. Hann kannski lemur konu og börn eða drepur sína fyrrverandi eða guð má vita hvað. Eiturlyfjafíklar gera svipað. Þeir ræna og handrukka og alls konar til að fjármagna sjúkdóminn. Allt bitnar þetta á samfélaginu. Dregur úr heilbrigði þess. Geðveikur maður með byssu í hönd drepur heilan árgang í skólanum eða bara kannski leigusalann sinn því hann heldur að hann sé geimvera. Samfélagið þarf að halda úti fangelsum, geðsjúkrahúsum og réttargeðdeildum til að fást við þennan heilbrigðisvanda. Það eru allir sammála um það.
En af hverju þá ekki að fást við græðgina? Hún veldur samfélaginu miklu meira tjóni en allir fíknisjúkdómar, geðsjúkdómar, fuglaflensur, ebólur og eyðni samanlagt.
Það sem ég á við er að labbakútur í jakkafötum og támjóum skóm getur keypt einkarétt á eyðnilyfi og hækkað verðið um 1000 prósent. Þessi lyf eru þróuð af lyfjarisum með talsvert miklu ríkisframlagi en einhver lunkinn samningapési drifinn áfram af græðgi nær að sölsa þetta undir sig. Heilu samfélögin í Afríku eiga allt sitt undir því að fá þessi lyf. Þar fæðast heilu kynslóðirnar sýktar af HIV. Er þetta heilbrigðisvandi? Er þetta samfélagsvandi? Er þetta kannski bara vandi þegar okkar heilaga Evrópa drukknar í flóttamönnum?
Það sem ég á við er að þeir allra gráðugustu og ríkustu á þessari jörð eru þeir sem höndla með styrjaldir. Almenningur vill ekki vera í stríði það er alveg klárt. Almenningur veit nefnilega að það eru einmitt þeir óbreyttu, þeirra synir, þeirra dætur sem falla.
En það eru öfl drifin áfram af græðgi af þvílíkri stærðargráðu sem ráða ferðinni. Græðgin þarf að selja vopn og meiri vopn dýru verði og græðgin þarf að kaupa ódýra olíu. Það er nefnilega ekki alltaf þannig að sjúkdómurinn sé hættulegastur þeim sem ber hann. Græðgin á það sameiginlegt með alkóhólismanum að þar eru það aðstandendurnir sem í hvað mestri hættu eru. Bera þungann sem hinn tillitslausi sjúklingur skapar.
Græðgin er oftast kynt með peningum en þó er til fyrirbæri sem kallast valdagræðgi. Held þó samt að á bak við hana sé líka fégræðgi. Við erum til dæmis núna með menntamálaráðherra sem svo augljóslega er illa haldinn af valdagræðgi.
Auðvitað er hann líka með snert af siðblindu sem reyndar er auðvitað eiginlega grunnurinn fyrir því að geta sleppt sér lausum í græðginni. Hann var í stjórnmálum fyrir hrun. Var líka að reyna fyrir sér sem bankster. Fórst það illa úr hendi. Hafði hönd í bagga með að narra sparifé af eldriborgurum og öðrum. Þurfti að víkja úr stjórnmálum en var svo hvítþveginn á undarlegan máta. Hann er sannfærður um að hann sé góður fulltrúi fólksins. það hvarflar ekki annað að honum.
Segist í drottningarviðtali ætla að halda áfram í pólitík meðan hann hefur gaman af. En hann er í tímabundnum vanda. Hann virðist ekkert vera góður í að stjórna eigin fjármálum. Þarf að skítredda sér og sínum með skyndiláni frá bissnessmanni. Veit ekki hvort sá bissnessmann er líka veikur en honum finnst allavega allt í lagi að spila á ráðherrann. En ráðherrann sem á að bera ábyrgð á menntun barnanna okkar ætlar að draga fjölskyldu sína og vini í gegnum sama lygavefs-fjölmiðlafárið og annar ráðherra og viti menn – samflokkskona dró yfir sig og sína á síðasta ári. Til hvers? Er engin sómatilfinning? Engin væntumþykja gagnvart sínum nánustu?
Er þetta heilbrigðisvandi? Er heilbrigt að þjóðfélagið skuli þurfa að láta þetta yfir sig ganga? Eru þetta skilaboðin sem við viljum að menntakerfið gefi?
Hér á heimavelli má benda á mörg dæmi um græðgisskaðann. Fjármálaráðherra heldur verndarhendi yfir ríkisbanka sem selur frænda hans góss innan úr innstu hillu. Hann virðist tefja skattrannsókn sem leitt gæti alla götuna hans inn á Litla-Hraun á góðum degi. Sjávarútvegsráðherra sem kom upp kvótakerfi og var svo á undarlegan hátt fljótlega orðinn handhafi flestra fiskanna í sjónum.
Útgerðarmenn sem setja heilu byggðarlögin á hliðina til að geta labbað suður í sólina til að drekka sig í hel. Útgerðarmenn sem ekkert munar um að halda á floti einhverju versta valdagræðgistilfellinu sem þjóðin hefur þurft að þola. Og þjóðin þarf að þola að fá inn um bréfalúguna áróðursblaðið sem hinir gráðugu kvótaþjófar halda á floti. Er þetta heilbrigðisvandi? Er þetta fegurðarmerki á þjóðfélaginu?
Það eru allir núna að koma út úr skápnum með það sem þeir hafa mátt þola. Það er gott. Leyndarmál eru til alls ills líkleg.
Ég verð að játa að ég get alveg verið smá gráðugur. Á meðan ætla ég ekki að dæma aðra harkalega. Við verðum að vinna á eigin græðgi sjálf. Þannig náði ég tökum á alkóhólismanum fyrir löngu síðan. Ég sá hann og sagði honum stríð á hendur. Ég sé þetta líka með græðgina. Ég hugsa æði oft um eigin hag. En ég hef samt mín mörk.
Ég er ekki til í að láta aðra þjást mín vegna. En hvar liggja mörkin? Ég er að hamra þessi orð á tölvuna. Örgjörvinn vafalaust framleiddur í Ísrael. Ísrael=valdagræðgi er það ekki? Eða býr kannski í Ísrael líka almenningur sem ekki vill vera í stríði? Almenningur sem löngu er búinn að fá sig fullsaddan af Nethanjíhú og öllum amerísku græðgiskúrekunum sem styðja hann?
Ég átti einu sinni ísraelska vinkonu. Hún var frekar friðsæl og hún átti bróður í hernum. Var stöðugt hrædd um hann og hermang valdhafanna. Er það heilbrigt?
Þegar við náum einhverjum tökum á okkar eigin græðgi þá munum við gefast upp á þessari stóru sem umlykur okkur og þá verðum við í stakk búin að henda henni út. Þ.e.a.s við munum þá koma okkur upp viðeigandi stofnun fyrir þá sjúku. Því vafalaust er það þannig að rétt eins og flestir alkóhólistarnir, þá langar þá ekkert til að vera vondu kallarnir. Þeir eru bara fastir.
Það er líka ábyrgðarhluti af okkar hálfu að leyfa þeim sjúku að ráða ferðinni. Við endum fram af brúninni með þeim ef ekkert er gert.
Ég hef fulla trú á að áður en yfir lýkur þá verði á þessari jörð heilbrigt samfélag manna. Hvað get ég gert til að flýta fyrir því?
Ljósmynd eftir Tolla.