Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Stjórnarmaður RÚV telur engar siðferðisspurningar vakna um framferði Illuga: „Nei, nei, það er bara fullkomlega ekkert að þessu.“

$
0
0

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn RÚV líkir fréttamönnum Stundarinnar við aftökusveit í Facebook-athugasemd hjá Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra. Eiríkur Finnur Greipsson, fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og nú stjórnarmaður RÚV, segir í samtali við Kvennablaðið að gjörðir Illuga séu „fullkomlega eðlilegar“ en að fréttaflutningur fjölmiðla miði allur að því að tortryggja Illuga.

„Starfsmenn Stundarinnar hafa verið að koma með fréttir sem ekki er staðlaus stafur fyrir. Þeir afla sér tekna af þeim fréttum sem þeir eru þarna með. Þannig að ég er ekki að segja annað en það sem mér finnst bara um þennan fréttaflutning um Illuga.“ Eiríkur Finnur gefur hér í skyn, eins og hann gerði á Facebook, að drifkraftur blaðamanna Stundarinnar sé fyrst og fremst eltingaleikur við aura og krónur fremur en að hér séu blaðamenn að sinna aðhaldshlutverki sínu.

Screen Shot 2015-10-16 at 14.59.59

‘Leiðrönging’ Illuga

Illugi Gunnarsson birti skattaframtöl sín á Facebook í kjölfar fréttar Stundarinnar um ráðgjafafyrirtæki Illuga OG Capital hafi fengið 1,2 milljónir í greiðslur. Tilefni fréttarinnar virðist sú fullyrðing Illuga að hann hafi ekki fengið aðra þóknun frá Orku Energy en þær 5,6 milljónir sem hann fékk sem laun frá fyrirtækinu. „Ráðgjafarfyrirtæki Illuga Gunnarssonar, OG Capital ehf., fékk 1,2 milljóna króna greiðslu frá Orku Energy árið 2012 samkvæmt heimildum Stundarinnar.

Greiðslan var innt af hendi síðla árs 2012 samkvæmt heimildum fjölmiðilsins en Illugi hafði þá sest aftur á Alþingi eftir að hafa verið í leyfi frá störfum frá apríl 2010 til október 2011,“ segir í fréttinni. Illugi brást við með því að birta skattaskjöl sem tengdust fréttinni með engum hætti. Í yfirlýsingu Illuga er þó gefið í skyn að með birtingunni sé frétt Stundarinnar leiðrétt. „Vegna fréttar Stundarinnar frá því [14. október], sem byggð er á ónafngreindum heimildarmanni, hef ég ákveðið að stíga það skref að birta upplýsingar úr skattframtali okkar Brynhildar vegna ársins 2012 og ársins 2013,“ skrifar Illugi á Facebook. „Skattframtöl okkar eru unnin af löggiltum endurskoðanda. Þar koma launagreiðslur til okkar hjóna fram og þar sést að árið 2012 fæ ég laun frá Orku Energy upp á kr. 5.621.179 eins og ég hafði áður greint frá og sýnt launaseðil fyrir. Engar launagreiðslur, arðgreiðslur eða aðrar greiðslur eru til mín eða konu minnar frá fyrirtækinu OG Capital á árinu 2012 eða á árinu 2013. Á árinu 2013 fór félagið úr minni eigu.“

Þessar upplýsingar koma þó skýrt fram í frétt Stundarinnar þar sem greiðslur til Illuga frá Orku Energy og svo greiðslur til fyrirtækisins OG Capital eru aðgreindar. „Engin laun voru greidd út úr OG Capital þetta árið og rekstrarkostnaður nam tæplega 150 þúsund krónum sem bendir til að Illugi hafi ekki notað fyrirtækið mikið þetta árið. Skuld félagsins við eiganda þess, Illuga sjálfan, lækkaði hins vegar um rúmlega 400 þúsund krónur á milli áranna 2011 og 2012.

Í árslok 2013 eignaðist stjórnarformaður Orku Energy, Haukur Harðarson, svo OG Capital og einnig íbúð Illuga á Ránargötu, líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum. Viðskiptin áttu sér stað vegna fjárhagserfiðleika Illuga og hefur hann síðan leigt íbúðina af Hauki,“ segir í fréttinni. Skattframtal Illuga svarar því með engu móti hvort OG Capital hafi fengið fé frá Orku Energy, eða Hauki Harðarsyni.

Moldviðristilraun Illuga virðist þó hafa virkað um stund því seinna sama kvöld birti RÚV frétt um málið þar sem sagt var frá því að Illugi hafi leiðrétt frétt Stundarinnar. „Hann bendir á að engar launagreiðslur, arðgreiðslur eða aðrar greiðslur séu til hans eða konu hans frá fyrirtækinu OG Capital á árinu 2012 eða á árinu 2013, líkt og Stundin hélt fram í dag,“ sagði í fyrstu útgáfu fréttarinnar á vefsvæði RÚV. Fréttastofa leiðrétti síðar frétt sína af leiðréttingu Illuga en þar segir nú. „Þetta hefur nú verið lagfært, enda hélt Stundin ekki fram að [Illugi] eða kona hans hefðu fengið greiðslur frá OG Capital, þvert á móti segir í frétt Stundarinnar að engin laun hafi verið greidd út úr OG Capital.“

Screen Shot 2015-10-16 at 19.55.19

Haukur ráðlagði Róbert Wessmann og Björgólfi Thor að múta embættismönnum

DV birti árið 2011 frétt upp úr skýrslu sem Haukur vann fyrir fjárfestana Róbert Wessmann og Björgólf Thor Björgólfsson, þar sem hann ráðlagði þeim að múta spænskum embættismönnum. Árið 2005 keyptu Róbert og Björgólfur land á Spáni þar sem þeir ætluðu að byggja á þriðja þúsund íbúðir á. DV greindi frá því að Haukur hefði unnið skýrslu um verkefnið fyrir Róbert. Þar hefði hann lagt til að fjárfestarnir greiddu spænskum embættismönnum sex milljónir evra til að liðka fyrir viðskiptunum. Róbert Wessmann sagði í yfirlýsingu að skýrsla Hauks endurspegli ekki vinnubrögð við verkefnið en ekkert varð af uppbyggingunni. „Mútugreiðslurnar, sex milljónir evra, áttu að vera innifaldar í kaupverðinu samkvæmt gögnunum um málið. Í gögnunum um málið sem DV hefur undir höndum segir meðal annars um greiðslurnar: ,,Þetta er það sem við myndum kalla mútur á einföldu máli.“ Illuga-málið er því ekki í fyrsta sinn sem Haukur kemst í fréttir vegna umræðu um kaup á áhrifum.

Vill ekki svona umfjöllun um flokksbróður

Eiríkur Finnur gat ekki skýrt nákvæmlega hvað það væri sem honum þætti rangt við umfjöllun Stundarinnar um málefni Illuga. Hann virðist telja óeðlilegt að fjalla um fjármál stjórnmálamanna enda sé slíkt þeirra einkamál. „Eins og ég sagði á Facebook, þá hefur mér fundist allur málatilbúnaður varðandi þá spurningalista, sem sendir hafa verið Illuga, vera með þeim hætti að verið sé að reyna að búa til mál út úr engu. Það sé verið að reyna að gera störf hans tortryggileg. Það hefur leitt til þess að hann hefur þurft að opinbera persónuleg fjármál sín og einkalíf. Mér finnst það persónulega bara vera það sem ég er að segja með þessari setningu.“

– Þú ert stjórnarmaður í RÚV en fréttastofa Ríkisútvarps hefur einnig fjallað um þessi mál… „Stjórn Ríkisúvarpsins fjallar ekki um fréttir og ekki um málefni fréttamanna eða fréttamennsku. Það er rekstrarstjórn þannig að ég hlýt að mega hafa skoðanir á fréttaflutning fjölmiðla og reyndar líka Ríkisútvarpsins þótt ég sitji í stjórn ríkisútvarpsins.“

– Finnst þér óeðliegt að fjölmiðlar fjalli um málefni ráðherra sem er búinn að koma sér í svona mál? „Nei, nei, nei …. ja koma sér í svona mál? Mér finnst reyndar eins og ég segi að þarna sé búið að gera hluti tortryggilega sem eru fullkomlega eðlilegir. Það er gert með því að tuða nógu lengi um það og vera með stanslausar árásir út af sama hlutnum. Þetta eru auðvitað þekkt vinnubrögð í gegnum árin, ekki bara hér, þetta eru þekkt vinnubrögð um allan heim, og mér finnst þessi vinnubrögð sem þarna eru stunduð miða til þessa hluta.  Að verið sé að reyna koma þeim hugmyndum að hjá fólki að hér séu eitthvað óeðlilegir hlutir á ferðinni?“

– Er ekkert óeðlilegt við það að maður sem er að setjast í ráðherrastól selji besta vini sínum húsið sitt – setji húsið sitt í einkahlutafélag – selji það til vinar síns og leigi svo áfram hjá honum? „Ég tel mig vera búinn að svara þessari spurningu margoft og tel mig ekkert geta bætt neinu betra við það.“ – Þannig að þú telur gjörðir Illuga ekki vekja neinar siðgerðisspurningar? „Nei, nei, það er bara fullkomlega ekkert að þessu.“

Miklir vinir

Það var Illugi sem skipaði Eirík Finn í stjórn RÚV í byrjun árs. Þeir eru miklir vinir frá Flateyri en Eiríkur Finnur starfaði meðal annars hjá Hjálmari hf., fyrirtæki Einars Odds Kristjánssonar heitins, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og tengdaföður menntamálaráðherra. Illugi starfaði á sama tíma hjá Hjálmari. Eiríkur Finnur segir í samtali við Vísi að Illugi sjálfur hafi beðið hann um að setjast í stjórn RÚV. Vísir spurði hvort það orkaði hugsanlega tvímælis, og gæti flokkast sem einhvers konar vinahygli að skipa hann þá í ljósi þess að hann er vinur hans og þeirra hjóna til ára og áratuga? „Er honum óheimilt að skipa vini sína? Eru þeir vanhæfir þar með? Ég spyr nú bara svo á móti,“ svaraði Eríkur Finnur fyrirspurn Vísis.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283