Stóra málið og viðhorf okkar
Mikið hefur verið rætt undanfarin ár um lýðræði og samband Alþingis við þjóðina. Stjórnarskrármálið er hluti af þeirri umræðu rétt eins og þjóðaratkvæðagreiðslur og ýmsir gjörningar til að fá þær í gegn hafa verið áberandi í umræðunni undanfarin ár.
Stærsta málið sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir undanfarna áratugi er það mál sem fær ekki þá athygli sem það ætti að fá. Hér á landi ríkir nefnilega ekki eðlilegt ástand þegar talað er um stjórnvöld, fjölmiðla og almenning.
Umsókn Íslands að Evrópusambandinu er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Hvort sem fólk er með eða á móti því er algert aukaatriði. Það sem skiptir máli er að við, þjóðin (að því gefnu að við fáum viðurkennt af stjórnmálamönnum að við séum þjóðin) eigum að fá að kjósa um aðildarsamning. Fullgildan og fullkláraðan samning þar sem skýrt kemur fram hverjir kostirnir og gallar samstarfsins eru, og hvað þjóðin fær í sinn snúð fyrir að gangast ESB á hönd.
Meira að segja þetta orðalag, „hvað við fáum frá þeim“ segir ansi mikið um stöðu okkar og viðhorf gagnvart ESB og því sem er í gangi almennt. Málið snýst ekki um hvað við fáum frá þeim í ölmusu eða í einhvers konar sérmeðferðum. Heldur á málið að snúast um hvað almenningur græðir á samstarfinu miðað við núverandi ástand.
Málið er ekki flókið í eðli sínu. Allar þjóðir sem vilja fara í ESB semja og svo er kosið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til að semja þarf að fara í viðræður og koma skikki á peningamál, mannréttindamál og önnur mál sem verða vera komin í ákveðinn farveg þegar að samningi kemur. Flest allar þjóðirnar í Evrópu, auk nokkurra utan Evrópu vilja taka þátt í ESB-samstarfinu af þeirri einföldu ástæðu að það er þjóðhagslega betra að gera það heldur en að standa fyrir utan samstarfið.
Það er betra efnahagslega að hafa ESB sem bakhjarl og stuðningsaðila. Það er líka betra fyrir almenning í þeim löndum sem eru í ESB eða vilja komst þangað inn þar sem mannréttindi og samfélagsleg heild skiptir höfuðmáli. Hagsmunir almennings bera höfuð og herðar í allri umræðu um þessi mál erlendis.
Spurningin sem búið er að svara þar, og skipir mestu máli þegar allt er tekið inn í dæmið er þess: Er betra fyrir almenning í viðkomandi löndum að vera innan ESB eða ekki?
Svarið er komið, flestar þjóðir álfunnar eru komnar inn, nokkrar eru að semja og að taka til í sínum málum til að komast inn. Noregur hefur tvisvar sinnum kosið um samning og fellt hann, sem er í góðu lagi, enda fékk þjóðin að velja og hafna. Ekki bara einu sinni heldur tvisvar sinnum.
Að átta sig á ástandinu
Eftir hrun var eina rökrétta skrefið fyrir Ísland að semja við ESB. Það hefði í raun átt að vera löngu búið að því, enda hefði vera okkar í ESB þegar hrunið varð, bjargað heilmiklu. Miklu meiru en hagsmunaaðilar núverandi kerfis láta í veðri vaka. Enda hafa þeir barist með kjafti og klóm til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur og unnið skipulega gegn þjóðinni til að vernda sína hagsmuni, sem stangast algerlega á við hagsmuni þjóðarinnar.
Spurningin sem vaknar þá er þessi: Hvaða hagsmunir eru það sem skipta svona miklu máli fyrir almenning? Fyrst og fremst eru það efnahagsmálin. Lán sem hækka og hækka við hverja innborgun eru ekki eðlileg. Það ástand er svo galið að fjármála spekúlantar erlendis skilja það ekki. Ekkert frekar en starfsfólk erlendra banka og lánastofnana sem þurfa að fá skýringar á þessu rugli frá Íslendingum sem hafa farið úr landi og vinna í því að eignast sínar fasteignir og borga sín lán niður.
Námslánin sem hafa tvöfaldast á 8 árum þrátt fyrir miklar innborganir vegna verðtryggingar er líka galið. Enda sama vandamálið á ferðinni, almenningur borgar og borgar og eignast ekkert. Skuldin hækkar með hverri greiðslu, og með hverri hækkun á kaffi, bensíni eða grænum baunum. Ástandið er svo galið og almenningur svo samdauna ruglinu eða það sem verra er að það áttar sig ekki á því hversu slæmt ástandið er. Þessu má líkja við fíkil í mikilli neyslu sem áttar sig ekki á að það er aðeins ein leið til baka frá vísum dauðdaga. Meðferð og nýr lífsstíll. Partýið er löngu búið.
Hagsmunir hverra ráða ferðinni?
Hagsmunirnir sem hér eru í húfi, eru hagsmunir almennings gegn hagsmunum ákveðinna fyrirtækja. Þeir sem vinna fyrir þessi fyrirtæki eru stjórnmálamennirnir sem ganga erinda og vernda hagsmuni þeirra með kjafti og klóm. Sú vinna hefur eitt markmið sem er að vinna beint gegn hagsmunum almennings. Almennings sem þeir eru kosnir til að vinna fyrir.
Það er mjög öfugsnúið að stjórnmálamenn sem hafa það hlutverk að bæta hagsmuni, kjör og líf almennings berjist af mikilli hörku gegn þeim. Þessi hagsmuna ómenning hefur verið hluti af verkalýðshreyfingunni mjög lengi. Eins er þessi ómenning mjög sterkur innan lífeyrissjóðina. Víglínan er verðtryggingin, og hagsmunum okkar íbúa þessa lands er fórnað fyrir peningastýringu og völd sem menn vilja ekki missa. Þannig er þjóðinni haldið í heljargreipum í skjóli stjórnmálamanna og málamynda hugmyndafræði að bandarískum sið. Einhverstaðar hefði þetta verið kallað spillt kerfi. En ekki hér. Hér er þetta bara eins og það hefur alltaf verið, og þar liggur vandamálið. Flestir átta sig ekki á að þetta er ekki eðlilegt, heldur í hæsta máta óðelilegt. Unnið er gegn almenningi þegar hagsmunum þeirra er vísvitandi haldið niðri og unnið skipulega gegn þeim.
Erlendis hafa verkalýðsfélögin verið hörðustu stuðningsmenn ESB, en ekki hér. Hér eru þeir varðhundar kerfisins, en ekki varðmenn almennings sem þeir gefa sig út fyrir að vera. Erlendis hafa menn áttað sig að því að hagsmunum heildarinnar og almennings er betur borgið innan ESB. Hér á landi eru menn ekki einusinni að hugsa um það. Enda kemur sú spurning sjaldan fram í fjölmiðlum eða í umræðunni almennt. Það sem verra er að almenningur er farinn að taka upp þann þjóðernislega talsmáta um að hér fari allt til fjandans ef við erum innlimuð í hið ógnvænlega ESB. Sjálfstæðið fer, matvælaöryggi ógnað, atvinnuleysi (gamallt bragð í að siða almenning til er að tala um atvinnuleysi) og svo framvegis.
Tæknileg árás á lýðræðið
Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa verið fremstir í flokki og leitt baráttuna gegn almenningi í þessu máli. Stuðningur Vinstri grænna hefur verið þeim mikilvægur lika. Meira að segja Samfylkingin tók þátt í baráttunni gegn almenningi, þrátt fyrir yfirlýsingar um vilja til að fara inn í ESB. Þeir notuðu ekki þingmeirihluta þegar hann var til staðar. Minnihlutaflokkum var leyft að taka þátt og málið svæft.
Hér tókst „þeim“, það er Framsókn og Sjálfstæðisflokki ásamt þeirra bakhjörlum og varðhundum núverandi kerfis, sem er ónýtt efnahags- og stjórnkerfi, að nota það sem kallast tæknileg hindrun á leið Íslands inn í meiri velmegun og stöðugleika. Fleyg var stungið niður og þar með varð væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla og aðlögun Íslands í átt að stöðugleika og inngöngu í ESB að engu. Allar tilraunir í átt að aðlögun sem og viðræður hættu snögglega. Málið var rammað þannig inn að það væri eins konar málamiðlun „sökum sér íslenskra aðstæðna“ að almenningur fengi að kjósa um áframhaldandi viðræður eða ekki. Stjórnmálamenn komu með tillögu handa almenningi að kjósa um, og sýndu sitt rétta andlit sem bjargvættir sem gefa almenningi vald og möguleika á að kjósa.
Með þeim gjörningi var einu stærsta hagsmunamáli Íslands síðustu áratuga eytt. Máli sem þjóðin á að kjósa um, rétt eins og aðrar þjóðir í Evrópu hafa gert og munu gera. Nei, ekki hér á Íslandi. Hér snýst málið um hvort halda eigi áfram að tala við ESB eða ekki. Valdið um að kjósa um eigin örlög og framtíð var tekið af almenningi með spuna, óróðri og dyggum stuðningi gagnrýnislausra fjölmiðla sem kepptust við að flytja fréttir af þessu gjafmildi Alþingis til þjóðarinnar. Gagnrýnislaus fjölmiðlun rak þetta áfram, og spurningunni um hvað væri í rauninni í gangi var ekki velt upp nema hjá einstaka fýlupúkum á blogginu. Sem eins og venjan er hér á landi, voru úthrópaðir af hjörðinni sem enn trúir á bjargvættarmátt stjórnmálamanna og þeirra betri vitund okkur til hagsbóta.
Gengdarlaus áróður
Það sem verra er að svínbeygður almúginn hefur setið undir gengdarlausum svörtum áróðri gegn ESB frá því löngu fyrir hrun. Heimssýn og fleiri útbrunnir kerfiskallar sem vinna við það í ellinni að viðhalda gamla spillta kerfinu sem var svo gott við þá í öll þessi ár standa sig vel sem varðhundar „sinna manna“. Almenningur var og er farin að trúa þeirri fásinnu að ESB hafi verið vondi kallinn í hruninu, en ekki innlendir spákaupmenn og þeir stjórnmálamenn sem réðu Seðlabankanum og tóku allt regluveldi burt.
Fáir áttuðu sig á þeirri staðreynd að það var búið að ákveða fyrir okkur af hagsmunaaðilum kerfisins að koma í veg fyrir áframhaldandi viðræður og þar af leiðandi óumfrýjanlega kosningu um samning við ESB. Af hverju má þjóðin ekki kjósa um samning er spurningin sem átti að spyrja, en hún kom ekki.
Svarið er það sem kerfið óttast. Hann hefði líklega verið samþykktur af þjóðinni, og það geta „þeir“ ekki þolað. Að missa völd, að missa stjórnina á krónunni, að missa hálstakið af almenningi og fyrirtækjum er eitthvað sem stjórnmálamenn og hagsmunatengdir aðilar þeirra get ekki hugsað sér.
Áróður og spuni eru lykilorðin og mér er það til efs að fólk almennt átti sig á því hversu mikið er um það hér á Íslandi. Staðreyndin er sú að hér er umræðunni stjórnað miskunnarlaust. Ekki bara af stjórnmálamönnum heldur standa fjölmiðlar sig með prýða að taka undir vitleysuna gagnrýnislaust.