Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Rannveig á rauðum sokkum

$
0
0

Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir skrifar.

Á fallegum og sólríkum degi heima í Borgarnesi í sumar ákváðum við móðir mín, eins og svo oft áður, að gera okkur glaðan dag saman. Að sjálfsögðu byrjaði sá góði dagur í okkar ágæta Geirabakaríi. Á þessu uppáhaldskaffihúsi okkar rekumst við alltaf á einhver vinaleg andlit og ferðirnar þangað eiga það til að verða töluvert lengri en upphaflega var ætlað. Í þessari ferð rákumst við á gamla og góða vinkonu, Rannveigu Jónsdóttur, sem sat þar í góðu yfirlæti með tveimur frænkum sínum og ferðafélögum til nokkurra ára, en þær hef ég einnig oft rekist á, enda er Geirabakarí í miklu uppáhaldi hjá þeim.

rannveig

Rannveig Jónsdóttir

Rannveig var gift móðurbróður hennar mömmu, honum Ingólfi Þorkelssyni, og því hefur mamma þekkt hana alla sína ævi. Það hef ég líka gert. Þegar ég var lítil var mamma nefnilega einstaklega dugleg að fara með mig í heimsókn til eldri ættingja minna og ég man vel hvað mér þótti alltaf gott og gaman að kíkja til Ingólfs og Rannveigar, fá eitthvert gotterí í gogginn og segja þeim allt um það hvernig mér gengi í skólanum. Þegar maður er svona lítill eins og ég var þá, og reyndar oft líka eftir að maður er orðinn stór, hugsar maður ekki nóg um að spyrja til baka. Oft er það svo, að þó að maður þekki fólk persónulega, þá þekkir maður sögu þess kannski ekki mikið.

En þennan blíðviðrisdag lentum við á heilmiklu spjalli við Rannveigu og frænkur hennar. Ég man ekki hvernig samtalið leiddi okkur þangað, líklega höfum við verið að fara yfir málefni líðandi stundar, en allt í einu nefndi mamma Rauðsokkurnar. Rauðsokkurnar hafði ég oft heyrt um, þetta var einhvers konar kvenréttindafélag af sterkum og flottum konum og ég hafði alltaf vitað að ég og allar stelpur ættum þessum snillingum margt að þakka. En ég vissi svo sem ekkert meira um hvað þær gerðu eða hverjar þær voru. Og ég vissi sko alls ekki að Rannveig hefði verið ein af þeim! Það kom í ljós þarna yfir kaffibollunum. Hvernig gat ég hafa þekkt þessa konu alla mína ævi en ekki vitað neitt um þetta? Hvernig fór þetta framhjá mér?

Alla daga síðan við rákumst á Rannveigu þarna í Geirabakaríi í sumar hefur hún verið mér mjög ofarlega í huga. Hún og allar þessar Rauðsokkur. Í haust flutti ég suður og hóf nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Og ég fann að ég varð meiri baráttukona sjálf með hverjum deginum sem leið. Í lok fyrri annarinnar var okkur sett fyrir verkefni í margmiðlun. Við áttum að búa til myndband, 3-7 mínútna heimildamynd um hvað sem við vildum. Í því áttum við að blanda saman ljósmyndun, hljóði og myndbandsupptöku og vinna út frá eigin áhugasviði. Rannveigu skaut strax upp í huga minn. Ó hvað ég vonaði að hún væri til í þetta!

Ég varð mjög spennt fyrir þessu verkefni og alltaf þegar ég verð svona spennt þá hringi ég í foreldra mína. Mamma varð jafn spennt og ég og daginn eftir spennusímtalið okkar hafði hún aftur samband við mig og var þá búin að hringja í Rannveigu, sem virtist meira en til í að hitta mig. Í framhaldi fékk ég símanúmer og eftir tvær heimsóknir til Rannveigar, þar sem við töluðum saman í fleiri klukkustundir og langt fram á kvöld, átti ég svo mikið efni að ég hefði auðveldlega getað skilað allavega fimm 7 mínútna heimildamyndum. Þrátt fyrir að þetta væri fyrsta verkefnið mitt af þessu tagi gat ég bara verið nokkuð sátt með útkomuna.

 

 

Mig langar að verða svona meira eins og Rannveig þegar ég verð stór. Svona jafn klár, jafn flott og jafn fín og hún. Hún er ein flottasta fyrirmynd sem ég hef fengið að kynnast. Afsakið dramatíkina en í kringum hana fæ ég stjörnur í augun og fyllist lotningu. Ég er svo þakklát fyrir að þekkja hana og ég er svo heppin að hún hafi leyft mér að gera verkefnið um hana til að ég og aðrir gætum kynnst henni og baráttukonunum á rauðu sokkunum betur.

Í lokin er mikilvægt að geta þess að þegar ég var að ganga frá myndbandinu gleymdi ég að láta það koma fram að nokkrar myndir og ein hljóðupptaka voru fengnar að láni úr heimildamyndinni Konur á rauðum sokkum eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur og biðst ég velvirðingar á þessum byrjendamistökum.

johanna

Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283