Að undanförnu hefur þó nokkuð verið fjallað um brottnám barna í íslenskum fjölmiðlum. Kemur það til af mikilli umfjöllun um deilu foreldra íslensk/danskra barna um forsjá þeirra og lögheimili og það hvernig íslenskir dómstólar hafa dæmt móður sem flúði hingað til lands til að afhenda börnin forsjárföður.
Það er alls ekki ætlun mín að fjalla um það mál á nokkurn hátt hér á síðum Kvennablaðsins heldur fjalla örlítið um hvaða lagaramma við erum að tala um þegar fjallað er um brottnám barns.
Ísland er aðili að tveimur milliríkjasamningum sem varða forsjá og endurheimt forsjár annars vegar og brottnám barna til flutnings milli landa hins vegar. Eru þeir í daglegu tali kallaðir Evrópusamningurinn og Haagsamningurinn. Hér á landi höfum við í gildi lög um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. og ganga þau í daglegu tali undir heitinu brottnámslögin.
En hvað erum við að tala um hérna? Hvaða máli skipta þessi lög? Markmið samningsins er að leysa úr þeim vandamálum þegar annað foreldra flytur barn með ólögmætum hætti frá einu samningsríki til annars eða heldur því í samningsríki gegn vilja hins foreldris. Er með samningnum gert ráð fyrir að hægt sé að bregðast við brottnáminu með því að skila barninu sem fyrst til síns heima og eru aðildarríkin, sem eru 81 talsins, skuldbundin til að afhenda brottnumið barn sem þar dvelur sé þess óskað.
Þá er spurt, hvernig getur barn verið brottnumið þegar foreldri þess er með það? Ráðum við ekki yfir börnunum okkar? Nei ekki alltaf því stundum er í gildi forsjársamningur milli foreldra, nú eða að dómur hefur komist að niðurstöðu í máli milli foreldra um hvar barn skuli búa og hjá hverjum. Og brot á slíkum samningi þarf að vera til staðar svo um ólögmætt brottnám sé að ræða. En það eru fleiri skilyrði fyrir því að ferðalag barns milli landa með foreldri geti flokkast sem ólögmætt brottnám barns.
Í fyrsta lagi þarf að liggja ljóst fyrir að það foreldri sem krefst afhendingar sé forsjárforeldri, ýmist með hinu eða eitt og sér. Í öðru lagi þarf barnið að búa í öðru samningsríki en því sem annast afhendinguna, þetta varðar m.ö.o. brottnám milli landa. Í þriðja lagi þarf það foreldri sem krefst afhendingar að hafa notið réttar sem forsjárforeldri, t.a.m. umgengnisréttar. Loks skal taka fram að það er ekki skilyrði fyrir afhendingu að flutningurinn til landsins hafi verið ólögmætur, heldur dugar að barninu sé ekki skilað tilbaka á tilsömdum tíma í samræmi við forsjársamning.
Hvernig fer afhendingin fram?
Ákvarðanir um afhendingu barna samkvæmt samningnum eru teknar af héraðsdómara í kjölfar málshöfðunar fyrir dómi. Þetta er ekki ákvörðun sem er tekin án röksemda heldur er mál um afhendingu barns rekið fyrir dómi. En áður en til þess kemur berst beiðni um afhendingu frá aðildarríki til innanríkisráðuneytis sem annast málið fyrir Íslands hönd. Þegar ráðuneytið hefur rannsakað hvort um brottnámsmál er að ræða gerir ráðuneytið tilraun til að ná sambandi við foreldrið sem er með barnið til að kanna möguleika á afhendingu. Ef ekki er vitað hvar barnið er niður komið þá má kalla til lögreglu til aðstoðar við leitina. Ef ekki gengur að semja við foreldrið útvegar ráðuneytið því foreldri sem krefst afhendingar lögmann til að fara með málið fyrir dóm. Ef héraðsdómur kemst að því að um ólögmætt brottnám hafi verið að ræða og að afhenda skuli barnið getur það foreldri sem hingað kom með barnið kært niðurstöðuna til Hæstaréttar. Skal áréttað að héraðsdómur er ekki að fjalla um forsjárhæfni foreldranna heldur eingöngu um brottnámið sem slíkt.
Að lokum ber að geta þess að héraðsdómur getur í sérstökum tilvikum komist að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir að um ólögmætt brottnám hafi verið að ræða, að ekki beri að afhenda barnið. Eru undantekningarreglur túlkaðar afar þröngt og er um að ræða nokkur dæmi. Má nefna þegar meira en ár er liðið frá því barnið kom til landsins og það hefur aðlagast nýjum aðstæðum. Ef alvarleg hætta er á að afhending barns muni skaða það andlega eða líkamlega eða koma því í óbærilega stöðu. Ef barnið er eindregið andvígt afhendingu og hefur náð þeim aldri og þroska að rétt þykir að taka tillit til skoðana þess eða loks ef afhending er ekki í samræmi við grundvallarreglur um mannréttindi.
Brottnámsmál eru afar flókin enda er ekki verið að fjalla um dauða hluti heldur börn og foreldra þeirra sem ekki hefur borið gæfa til að ná sáttum um forsjá og búsetu barna sinna. Þrátt fyrir allt tel ég að við verðum að vera sammála um nauðsyn alþjóðasamninga um brottnám og afhendingu brottnuminna barna, enda mikilvægt að skýrar reglur séu milli landa um það hvernig bregðast skuli við í aðstæðum þegar börn eru flutt án heimildar foreldris milli landa.
Helga Vala Helgadóttir héraðsdómslögmaður.