Eftir hverja fréttina á fætur annari um landsfund Sjálfstæðisflokksins sá ég ljósið. Þar fór eflaust margt skondið og þarflegt fram en leikurinn hans Guðlaugs Þórs fangaði athygli mína.
Það er nefnilega svo að margt frændfólk Guðlaugs Þórs af Siglunesi er í vinahópi mínum og eitt er víst að þar er hvorki að finna lyddur né liðleskjur og margir hverjir eru ótrúlega snjallir. Því fór ég að hugsa – af hverju í ósköpunum stígur elsku drengurinn alltaf til hliðar á meðan aðrir í hans stöðu vaða áfram?
Guðlaugur hafði einu sinni vont orð á sér fyrir að vera „styrkjakóngurinn“ í flokknum. Í dag er hann svo heppinn að með honum í flokki eru til dæmis Hanna Birna Kristjánsdóttir, BjarN1 Benediktson og menntamálaráðherrann Illugi. Það er fólk sem stendur illa í dag.
Ekki bara hvað varðar heimilisbókhaldið, sbr. að þurfa að selja húseignina sína til vinar síns og þiggja skuldaniðurfellingu frá ríkisstjórninni heldur líka vegna þess að þau hafa fallið í pytti lyga og óheiðarleika.
Eftir stendur Guðlaugur Þór og tekur þetta snilldar hliðarskref uppi á sviði í beinni útsendingu, öllum að óvörum.
Með því kemur hann a) ungri manneskju b) konu að, átakalaust og að því er virðist á sinn kostnað.
En þegar betur er að gáð þá skákar hann öllum þeim sem reyndu að gera Sjálfstæðisflokkinn feminiskan og meira að segja sjálfum menntamálaráðherranum Illuga, sem sagði:
„af hverju er ekki jafnrétti í okkar samfélagi? Vegna þess að ekki bara í áratugi, ekki bara í árhundruð heldur í árþúsund hefur staðan verið sú að öðru kyninu hefur verið haldið frá völdum og mismunun hefur verið allan þennan tíma…“
En Illugi gerði hins vegar ekkert í málinu nema koma með tillögu um kynjakvóta á meðan Guðlaugur Þór brást við með hætti sem verður lengi í minnum kvenna og ungs fólks í flokknum haft og skaut þar með samferðamönnum sínum í flokknum ref fyrir rass.
Með þessu hliðarskrefi mun hann að öllum líkindum eiga stuðning unga fólksins og kvenna í framtíðinni – þeim sem eru núna að bíða eftir að erfa flokkinn en ekki að bíða eftir plássi í dagvistun á Hrafnistu.