Quantcast
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Frelsi – hvað er svona merkilegt við það!

„Hvað er svona merkilegt við það?“, heimildarmynd um Kvennaframboðið og Kvennalistann, var frumsýnd í Reykjavík fimmtudaginn 22. október. Hin eiginlega frumsýning var á heimildakvikmyndahátíðinni Skjaldborg í vor, þar sem hún var valin besta myndin. Ekki er það nú ætlunin að fara að skrifa einhvers konar gagnrýni eða dóm um myndina, til þess er mér málið alltof skylt, þar sem ég var einn af stofnendum beggja hreyfinganna og kem talsvert við sögu. Miklu frekar að velta vöngum yfir þeim áhrifum sem myndin hafði á mig. Það er skemmst frá því að segja að þetta voru eins og endurfundir við gamla, mjög góða vinkonu, sem ég hafði ekki hitt lengi en oft hugsað til og saknað.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
Banner

„Hvað er svona merkilegt við það?“ gerir ekki tilraun til að spanna alla sögu þessara hreyfinga, enda væri það óvinnandi vegur að gera henni einhver skil í einni mynd – til þess þyrfti sjálfsagt einar tíu af álíka lengd! Í myndinni er aftur á móti reynt að fanga það andrúmsloft sem þessar hreyfingar spruttu uppúr og þann anda sem sveif yfir vötnum í undirbúningi stofnunar þeirra og starfi fyrstu árin. Síðan er nokkuð lýst innbyrðis átökum, sem var vissulega nóg af, enda engin átakafælni innan hreyfinganna, hningnun og endalok.

Myndin byggir að miklu leyti á samtölum við frumkvöðlana (mikið væri nú gaman ef til væri orðið frumkvöðlur!), mikið myndskreyttum, ýmist úr samtímaheimildum eða með grafískum útfærslum – oft mjög fyndnum. Einnig er nokkuð um leikin atriði, auk nokkurra „útúrdúra“ svo sem Grýlurnar með Röggu Gísla í fararbroddi. Myndin er hröð, fræðandi – og umfram allt fjörleg – enda var oft hlegið mikið og hjartanlega meðan á sýningunni stóð.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
Screen Shot 2015-10-25 at 20.38.55

Myndin fangaði vel þá gleði, samstöðu, hugmyndaauðgi og ótæmandi eljusemi sem einkenndi hreyfingarnar. Kannski þó síst alla þá gríðarlegu vinnu sem innt var af höndum á endalausum fundum, stórum og smáum, þar sem lögð voru drög að stórmerkilegri hugmyndafræði, sem sífellt var verið að endurnýja og betrumbæta, ítarlegum stefnuskrám fyrir hverjar kosningar og málefnavinnu. Að þessu starfi komu tugir ef ekki hundruð kvenna um allt land, þótt meginþunginn væri, eðli málsins samvæmt, í Reykjavík. Lítið sem ekkert var fjallað í myndinni um öll þau mál sem Kvennalistinn og Kvennaframboðið settu á dagskrá á þingi og í sveitarstjórnum og tóku oftar en ekki á málum sem aldrei höfðu ratað inn í stefnuskrár hefðbundnu flokkanna, en prýða þær nú mörg hver. Fátt af óhefðbundnum uppátækjum og gríni, sem var óspart notað, er tíundað. Þó er hin óborganlega uppákoma þegar „fegurðardrottningar“ mættu til leiks á borgarstjórnarfund með.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
Drottningar

Yfir þessu er ég ekki að kvarta, síður en svo, enda ekki hægt að gera þessu öllu skil í einni mynd, eins og ég hef þegar nefnt. Nei, það er einmitt styrkur myndarinnar að fara ekki um víðan völl og gerir hana að áhrifaríkri mynd sem getur hugsanlega orðið öðrum konum innblástur og hvatt þær til að „taka til sinna ráða“. Strax eftir sýningu myndarinnar mátti merkja þessi áhrif, ekki síst meðal ungra kvenna. Þær komu margar að máli við okkur „frumkvöðlurnar“, uppljómaðar og innblásnar. Guð láti gott á vita!

Höfum við gengið til góðs? Hefur eitthvað miðað og hefur eitthvað breyst frá því við „tókum til okkar ráða“? Já, vissulega, en erfiðasti kaflinn er eftir. Það er hugarfarsbreytingin, sem okkur varð svo tíðrætt um hér á árum áður. Það dugir ekkert minna en að breyta menningu feðraveldisins ef konur eiga að ná jafnri stöðu í samfélaginu.

Ungar konur hafa svo sannarlega verið að láta til sín taka undanfarið. Þær hafa mátt þola klám- og kynlífsflóðbylgju, sem engu eirir, og svara með „brjóstabyltingunni“ og Beauty Tips. Þær vilja endurheimta líkama sinn og vísa skömminni til föðurhúsanna. Þær vilja ekki una því gengdarlausa ofbeldi sem konur og börn sæta. Sífelld launabarátta kvennastétta sýnir, svo ekki verður um villst, að þrátt fyrir síaukna menntun kvenna og vinnu miðar lítið. Launamunurinn er eins og sár sem ekki vill gróa. Konur una óréttlætinu illa. Kannski er þolinmæði þeirra að verða að þrotum komin? Er misgengið, eins og Sirrý Dúna myndi orða það, orðið of mikið og nýtt gos í aðsigi? Ef svo er – hvað er þá til ráða? Ég hef ekkert eitt svar við því en vil þó benda á eftirfarandi.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
Kvennasaga

Flestar, ef ekki allar, þær konur sem tóku þátt í stofnun og starfi Kvennaframboðs og Kvennalista hafa lýst því sem „mesta ævintýri lífs míns“. Ég þar á meðal. Ég áttaði mig á því þegar ég horfði á myndina af hverju við segjum þetta allar. Það var frelsið. Frelsið sem við öðluðumst við það af slíta af okkur fjötra fortíðar og hefða og fara að skapa á eigin forsendum. Frelsistilfinning sem við höfðum aldrei upplifað áður. Frjálsar til að hugsa og segja það sem við vildum og fannst. Frelsi frá öllu því viðtekna. „Svona á þetta að vera, svona hefur þetta alltaf verið gert, svona gerir enginn, þetta verður að vera svona…“ rétt eins og um náttúrulögmál væri að ræða. Þessu var öllu hent út í hafsauga og við gerðum, hugsuðum, sögðum og skrifuðum – allt eftir eigin höfði. Þvílíkt frelsi!

Myndin „Hvað er svona merkilegt við það?“ fangar vel þetta andrúmsloft frelsis og þá gleði sem því fylgir. Hún er því ekki bara góð heimildamynd heldur getur hún hugsanlega verið konum hvatning til að taka sér áður óþekkt frelsi. Ég á ekki betri ósk, konum til handa, en að þær fái sem flestar notið þeirrar gleði sem fylgir frelsi. Frelsi til að skapa nýjan heim, skapa sér eigið líf og örlög. Ef konum finnst komið „veður til að skapa“ munu þær svo sannarlega geta sótt sér innblástur í  „Hvað er svona merkilegt við það!“

Stikla úr myndinni:

Kitchen Sink Revolution – Trailer from Krumma films on Vimeo.

Hvað er svona merkilegt við það

Framleiðandi: Hrafnhildur Gunnarsdóttir

Handrit og leikstjórn: Halla Kristín Einarsdóttir


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283