Í dag halda utan til Ólympíuleikanna í Rússlandi eftirtaldir aðilar á vegum Íslands: fimm keppendur ásamt þremur þjálfurum, einum sjúkraþjálfara og framkvæmdastjóra ÍSÍ. Fararstjóri er sviðsstjóri afreks- og ólympíusviðs ÍSÍ og formaður Skíðasambands Íslands er aðstoðarfararstjóri.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra fer til Rússlands á fimmtudaginn og verður í heila viku. Forseti Íslands og frú Dorrit verða viðstödd upphaf leikanna en Ólafur mun ætla að nýta tímann til funda með einhverjum þeim þjóðarleiðtogum sem leikana sækja. Eygló Harðardóttir velferðarráðherra verður einnig sérstakur gestur Íslands á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í Sochi í Rússlandi dagana 7.–16. mars næstkomandi.
Ljóst er að íslenska sendinefndin mun ekki hitta Barack Obama, David Cameron og Angelu Merkel sem verða ekki viðstödd Ólympíuleikanna en getur hinsvegar notið félagsskapar við ráðamennina Xi Jinping forseta Kína, Shinzo Abe forsætisráherra Japans og Recep Tayyip Erdoğan forsætisráðherra Tyrklands sem og Ban Ki-moon aðalritara Sameinuðu þjóðanna.
Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa afboðað komu sína vegna þeirra mannréttindabrota sem samkynhneigðir hafa orðið fyrir í Rússlandi. Þeirra á meðal er sænski íþróttamálaráðherrann Lena Liljeroth sem segir umgjörð Ólympíuleikanna vera áróðursbragð Pútíns til að bæta eigin ásýnd. Eftirfarandi var haft eftir henni á norska vefnum Klassekampen.no:
Af hálfu Pútíns er þetta áróðursbragð. Margt vekur spurningar: umhverfi, fjármál og ekki síst mannréttindi, segir Liljeroth við sænska ríkissjónvarpið SVT. Rússneski forsetinn Vladimir Pútín hefur lagt mikinn metnað í skipulag Ólympíuleikanna í Sotsjí og verðmiðinn hljóðar væntanlega upp á 300 milljarða króna (SEK). Leikarnir verða haldnir 7.–23. febrúar. – Ég verð ekki viðstödd opnunarhátíðina. Það sýnir pólitíska afstöðu mína, segir Liljeroth.
Í dag afhentu fulltrúar Samtakanna ´78 og Hinsegin daga í Reykjavík menntamálaráðherra kveðjugjöf í menntamálaráðuneytinu. Í fréttatilkynningu þeirra segir að mikilvægt sé að Íslendingar haldi á lofti merkjum réttinda hinsegin fólks. Staða þeirra sé veik í Rússlandi og hafi snarversnað síðan Pútín tók aftur við forsetaembætti 2012.
Myndskreyting: Kristján Frímann Kristjánsson fyrir Kvennablaðið