Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Sól rís yfir Skírisskógi

$
0
0

Í hjarta Hróa hattar var frumsýnt hjá Royal Shakespare Company og mun það vera sama listræna teymi þar að verki og sem stendur að baki Hróa hetti Þjóðleikhússins. Sýningin hefur farið víða, frá London til Bergen, þaðan til Boston, síðan til Toronto, Winnipeg og Uppsala og nú loks komin á fjalir Þjóðleikhússins.

Hrói höttur, já, hví ekki? Þjóðsagnapersóna úr Skírisskógi sem hin munnlega geymd hefur farið með á ýmsan hátt og breytt eftir atvikum í hetju eða skúrk og eftir hentugleikum bætt í sögu hans fjölskrúðugum hópi alþýðu- og hefðarfólks. Það hentar vel listafólki síðustu aldar, sem tók við þessum arfi og setti hann á svið, kvikmyndaði og teiknaði. Þá bættust við fleiri minni, ekki endilega þjóðsagnaminni, heldur minni úr skemmtanabransa þess tíma, einatt amerískum. Á endanum varð fremur lítið úr hinu þjóðsagnakennda upphafi, það hvarf í gleymsku og nú á einfaldlega við: Sá veldur sem á heldur.

12006434_934906396555000_5182186725586546594_o

Vesturport hefur búið til ágæta sögu úr sagnaarfinum um Hróa hött. Hér er hann ótíndur glæpamaður og kvennafæla og stelur til viðurværis sér og sínum ótínda glæpalýð. Og því hefði hann sjálfsagt haldið áfram ef ekki hefði komið til þær aðstæður í konungsríkinu að konungurinn er fjarverandi í hernaði úti í löndum. Á meðan býst óbermið Jóhann prins til að taka völdin og ætlar um leið að kvænast Maríönnu, hinni fögru konungsdóttur sem gleður ósegjanlega hina vergjörnu yngri systur hennar, því þá getur hún líka orðið sér úti um karlmann.

Maríanna, leikin af Láru Jóhönnu Jónsdóttur forðar sér frá hinum viðurstyggilega vonbiðli og flýr út í Skírisskóg með aðstoð franska tónlistarkennarans Pierre, sem leikinn er af Guðjóni Davíð Karlssyni. Þá fer leikurinn allur að æsast eins og vera ber.

_MG_2654

Lára Jóhanna gerir skínandi skemmtilega persónu úr Maríönnu með öllum hennar umbreytingum (hér má víst ekki segja of mikið!) og hefur vel ríflega þann sjarma og þokka sem þarf til að við viljum Maríönnu vel. Maríanna er öðruvísi en sú lafði sem við þekkjum úr flestum nútímasögum um Hróa hött, hún er kvenhetja með eigin vilja, sjálfstæð og fylgin sér og Lára Jóhanna vinnur ákaflega vel og fallega úr öllum þessum eiginleikum. Kraftur hennar er frumkraftur enda er hún sá karakter sem rekur atburðarásina áfram; þegar þess þarf er ást hennar einlæg og falleg.

Guðjón Davíð

Guðjón Davíð

Guðjón Davíð, betur þekktur sem Gói, skapar hér eina af sínum ágætu fígúrum en Pierre hefði kannski orðið ögn skemmtilegri og karakterinn nýst leikaranum betur ef Pierre hefði verið dýpri af höfundarins hálfu. Þessi aðfinnsla um skort á dýpt í karaktersköpun af hálfu höfundar á reyndar því miður við um flestallar persónurnar. En Gói vann vel úr sínu og hefur aðdáunarverða hæfileika til að ná sambandi við salinn.

_MG_2688

Þórir Sæmundsson í hlutverki Hróa hattar kemst vel frá sínu ásamt þeim kumpánum Villa Skarlat, Davíð Miller og Litla-Jóni, leiknum af Oddi Júlíussyni, Baltasar Breka Samper og Birni Dan Karlssyni. Þeir móta saman andann í Skírisskógi, ræna mann og annan og hitta á endanum ofjarl sinn Maríönnu, sem fellur kylliflöt fyrir ofbeldismanninum Hróa – og hann fyrir henni.

Systirin Henríetta leikin af

Systirin Henríetta leikin af Katrínu Halldóru

Í sömu andrá ber einnig að nefna Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, í hlutverki hinnar karlóðu yngri systur.  Hún útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskólans í vor og óska henni til hamingju með sterka innkomu á íslenskt leiksvið. Þá er einnig rétt að nefna hér, að nokkrar breytingar hafa orðið á leikaraskipan í sýningunni; Ólafur Egill Egilsson, Snorri Engilbertsson og Gísli Örn Garðarsson hafa hlaupið í nokkur hlutverk og verður ekki annað sagt en þeir geri það með mikilli prýði. Ekki skal heldur látið hjá líða að nefna börnin í þorpinu, leikin af Ágústi Erni Börgessyni og Selmu Rún Rúnarsdóttur; þau glæddu söguna þeirri tilfinningasemi sem nauðsynleg er til að vekja spennu og óvissu um hvernig allt endar. Þau voru líka falleg eins og klippt úr Veermersku málverki og betra verður það ekki í svona sögu.

Á endanum kemur Ríkharður konungur heim og allt fellur í ljúfa löð, vonda fólkið fær makleg málagjöld, röð og reglu aftur komið á og ræningjarnir verða góðir og gætu hreinlega verið náskyldir þeim Kasper, Jesper og Jónatan (smile). Og karlóða yngri systirin fær líka sinn eiginmann.

Eins og skilja má á söguþræðinum þá er sagan slétt og felld og minnir á margt annað afþreyingarefni sviðsett og/eða kvikmyndað á undanförnum árum og áratugum. Sögurnar breytast lítið og því ríður á að formið sé stöðugt endurnýjað og fært í nýjan búning.

11222917_933754523336854_3280063180327516243_o

Hér má þakka leikmynd, lýsingu og búningum að lítið ber á dramatúrgísku ryki. Leikmynd Barkar Jónssonar er hugvitsamlega gerð, nýtir möguleika leikhússins ákaflega vel og kemur einatt spennandi á óvart. Lýsing Ken Billington og Ed McCarthys styður við leikmyndina og leikstjórnina og gerir sitt til að skapa góðan fókus í sýningu þar sem margt er á seyði og atburðarásin hröð. Búningar Emmu Ryott vinna vel með karakterunum. Allt atvinnumannslegt og fagmannlegt eins og vænta má.

Að lokum skal nefndur sá þáttur sýningarinnar sem veitir ósviknum ferskleika og hressilegum blæ í efnið: Salka Sól Eyfeld og hljómsveit hennar bera sýninguna áfram í fallegum takti og hljóm. Tónlistin viðfelldin og smart í senn, grípandi og falleg og öll framkoma Sölku Sólar í hlutverki hinnar syngjandi sögukonu aðlaðandi, heillandi – og töff. Hvenær sem hún og hljómsveit hennar birtist og heyrist er eins og lifni yfir öllu og sýningin færist nær okkur í tíma og rúmi. Í hjarta Hróa hattar er einkum sigur Sölku Sólar og hennar sveitar.

Vesturport og Þjóðleikhúsið

Í hjarta Hróa hattar

Höfundur: David Farr
Þýðing: Garðar Gíslason
Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson og Selma Björnsdóttir
Leikmynd: Börkur Jónsson
Tónlist: Salka Sól Eyfeld, Aron Steinn Ásbjarnarson, Sigurður Ingi Einarsson, Tómas Jónsson og Örn Ýmir Arason
Söngtextar: Salka Sól Eyfeld
Búningar: Emma Ryott
Lýsing: Ken Billington og Ed McCarthy
Bardagaatriði: Joe Bostick
Leikarar: Þórir Sæmundsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Sigurður Þór Óskarsson, Oddur Júlíusson, Baltasar Breki Samper, Björn Dan Karlsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Ólafur Egill Egilsson, Gísli Örn Garðarsson, Jóhannes Níels Sigurðsson, Edda Arnljótsdóttir, Ágúst Örn Börgesson og Selma Rún Rúnarsdóttir.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283