Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Opið bréf til heilbrigðisráðherra

$
0
0

Landssamtökin Geðhjálp hafa barist fyrir bættri þjónustu og réttindum einstaklinga með geðræna sjúkdóma og aðstandanda þeirra allt frá stofnun samtakanna fyrir 36 árum. Ríkur þáttur í þeirri baráttu hefur falist í því að rækta tengsl við 1.300 félaga í samtökunum, notendur, aðstandendur, fagfólk, áhugafólk og almenning með reglulegri upplýsingamiðlun, samskiptum og heimsóknum í stofnanir og úrræði innan geðheilbrigðisþjónustunnar.

Athygli þín er vakin á því að samtökunum hefur upp á síðkastið borist fjölmargar ábendingar, bæði skriflega og símleiðis, um að geðsvið Landspítalans (LSH) vísi alvarlega veiku fólki frá bráðageðdeild spítalans eða útskrifi sjúklinga alltof fljótt af legudeildum. Því miður eru dæmi um að sjúklingum hafi í kjölfarið hrakað og sumir jafnvel endað líf sitt, sbr. meðfylgjandi viðhengi.

Rúmum á geðsviði LSH hefur fækkað úr 240 í 118 á síðastliðnum 15 árum. Sú þróun hefur valdið því að legutími hefur styst og nýting rúma keyrt úr hófi fram. Nýting á legudeildum spítalans hefur verið 110% í haust að því er fram kemur í eftirfarandi kynningarmyndbandi um starfsemi geðsviðs LSH: Fjöldi rúma er fæstur miðað við 1.000 íbúa og legutími á geðsviði stystur á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd.

Geðhjálp skorar á þig að gera LSH kleift að taka við sívaxandi hópi notenda og veita honum fyrsta flokks þjónustu og stuðning til að ná bata og aðlagast samfélaginu á nýjan leik að loknum veikindum. Jafnframt verði tekið mið af vaxandi þörf fyrir þjónustu geðsviðs við hönnun nýs spítala. Síðast en ekki síst verði þjónusta heilsugæslustöðva efld í því skyni að tryggja að komið verði til móts við vanda fólks strax á fyrstu stigum. Önnur úrræði verði styrkt til styðja við bata viðkomandi einstaklinga að lokinni útskrift á spítalanum.

Brýnt er að brugðist verði við vandanum strax. Ef haldið verður áfram að skera niður útgjöld til geðheilbrigðismála á sama tíma og vandinn vex hröðum skrefum er ljóst að umfang hans á eftir að margfaldast með tilheyrandi afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélagið í heild á allra næstu árum.

Fyrir hönd stjórnar Geðhjálpar er óskað svara við því hvort og ,ef svo er, hvernig brugðist verði við aðsteðjandi vanda af hálfu stjórnvalda.

Virðingarfyllst,

Hrannar Jónsson.

 

Ljósmynd Anton Brink

Fylgigögn vegna bréfs til ráðherra um slaka þjónustu LSH 2015


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283