Harpa Hildiberg Böðvarsdóttir skrifar:
Ég er sjokkeruð á þessu andvaraleysi gagnvart kynferðisofbeldi/ áreiti gagnvart þroskahömluðu fólki. Hér á landi virðast vaða uppi menn sem gagngert misnota þessar konur og komast upp með það! Ég heyrði ekki fyrir svo löngu um einn sem stundar þetta og hótar þeim svo öllu illu ef þær kæra, sumar hafa kjark til þess en þegar þær ætla að kæra virðist hann vera þekktur hjá lögreglunni en ekkert er gert! Hvers vegna er ekkert gert eins og í þessu tilviki þegar einn og sami maðurinn á í hlut og konurnar eru margar?
Í Kastljósi á þriðjudagskvöldið var rætt um kynferðislega áreitni af hálfu manns sem rak Nýjabæ, sumarleyfisstað fyrir fólk með þroskahömlun, í garð tveggja kvenna sem þar dvöldu, þær Stínu frá Bolungarvík og Hönnu úr Kópavoginum. Það mál var vel rannsakað af hálfu lögreglunnar á Selfossi og fá þeir plús fyrir það en Ríkissakóknari felldi niður málið. Á hvaða rökum gerði hann það, var sönnunarbyrðin ekki nógu sterk vegna þess að þessar konur eru með þroskahömlun? Læknar höfðu þó staðfest að vitnisburður þeirra væri trúverðugur, einnig komu þar fram konur sem sögðu frá ítrekaðri kynferðislegri áreitni af hálfu fyrrgreinds manns. Hvað þarf meira, það er nógu erfitt fyrir „normal“ fólk að kæra kynferðisofbeldi en það er greinilega vita vonlaust fyrir fólk með þroskahömlun.
Í Kastljósi fyrrakvöld var svo fjallað um mál hennar Stínu frá Bolungarvík en þar er sögð „löng saga um kynferðislega misnotkun ýmissa karlmanna áður en hún flutti á sambýlið árið 1989“. „Það eru tæp 30 ár frá því að grunur fór að vakna um kynferðislegt ofbeldi af hálfu manna í heimabæ hennar, allt samfélagið vissi af þessu en enginn gerði neitt“ Manni finnst afskaplega sorglegt að heyra svona en þöggunin er svo afgerandi þar sem að vinir og vandamenn gætu verið þeir seku og því lítur fólk framhjá þessu því miður og eins virðist yfirvaldið hafa skellt við skollaeyrum í þessum málum.
Ég er nú samt alveg viss um að einhverjir hafi viljað tala en það verið þaggað niður, enda var þetta „bara hún Stína“. Það er eins og að sumt fólk hafi haldið að fólk með þroskahömlun hefði engar tilfinningar og það væri bara hægt að leika sér með það að vild, sorglegt í vel upplýstu samfélagi. Svona var þetta í gamla daga hjá kotbændum en við eigum að vera svo löngu komin af þeim stað og þurfum að fara að átta okkur á að fólk með þroskahömlun hefur tilfinningar, langanir og þrár eins og við hin, þau eru fólk eins og við og oft miklu betra fólk en við.
Í gærkvöldi var svo fjallað um Spánarferð á vegum Nýjabæjar en þannig ferðir voru farnar á þeirra vegum um árabil. Ég er svo gáttuð og hrikalega sorgmædd yfir því að þetta hafi viðgengist í mörg ár og ekkert verið gert þrátt fyrir að starfsmaður hafi lagt inn kvörtun í Velferðarráðuneytinu eftir ferð sumarið 2011 þar sem henni blöskraði aðbúnaður og framkoma við fólkið. Mannréttindi voru brotin heiftarlega í þeirri ferð og örugglega í öllum ferðum þeirra í öll þessi ár. Eins hafði verið lögð fram sams konar kvörtun vegna aðbúnaðar og framkomu við sumardvalarfólk á Nýjabæ árið 2004 af hálfu sumarstarfsmanns en þá hlustaði heldur enginn!
Fólk með þroskahömlun á svo miklu betra skilið, þau eru einlæg og hjartahlý og trúa yfirleitt ekki neinu illu upp á neinn í sínu barnslega sakleysi. Við sem þjóð þurfum að taka okkur saman í andlitunu og koma betur fram við fólk með þroskahömlun. Hættum þessari þöggun sem við höfum látið viðgangast í áratugi og látum vita ef okkur grunar eitthvað misjafnt, látum ekki níðast á fólki því það á enginn skilið hvort sem það er fólk með þroskahömlun eður ei. Opnum augun og berjumst fyrir betra samfélagi og betri þjóð, verum stolt þjóð!