Við fengum leyfi til að birta hér viðtal við rithöfundinn og blaðamanninn Guðrúnu Guðlaugsdóttur sem birt var í vefritinu Lifðu núna.is

Ljósmynd/Vikan
Fegurð kvenna hreyfiafl í sögum
Blaðamaður Lifðu núna sest niður í eldhúsinu hjá Guðrúnu Guðlaugsdóttur rithöfundi til að forvitnast um nýju bókina hennar, Blaðamaður deyr. Það er stöðugur straumur fólks í eldhúsið. „Þetta er Kristinn sonur minn“, segir Guðrún þegar snögghærður ungur maður snarast inn í eldhúsið. Eiginmaður Guðrúnar birtist einnig þar og fær sér kaffi og tvö barnabörn koma og kíkja í ísskápinn. En Guðrún á 6 börn og 15 barnabörn og segir oft gestkvæmt í eldhúsinu á Víghólastíg þar sem hún býr í rúmgóðu húsi.
Hefur stundum frið til að skrifa
Blaðamaður deyr er níunda bókin sem kemur út eftir Guðrúnu, en áður starfaði hún sem blaðamaður á Morgunblaðinu og þar áður sem fréttamaður og þáttagerðarmaður á Ríkisútvarpinu. „Ég skrifa þegar ég fæ frið til þess“, segir Guðrún. „Það er oft gott næði hér á morgnana, svona milli klukkan 8 og 11“. Hún segist stundum hafa frið í annan tíma þó ýmsu þurfi að sinna. „Það er ágætt að ég er frekar félagslynd, ég hefði ekki eignast öll þessi börn nema af því“, segir hún og bendir á að fjölskyldulíf sé oft tilefni þátta, eins og til dæmis Dallas og Downton Abbey. „Maður fréttir ýmislegt og sér margt bara í gegnum fjölskylduna“.
Bygging tilgátuklausturs á Reynistað
Það er forkunnarfögur kona sem er helsta aðalpersónan í Blaðamaður deyr. Hún á kost á tveimur mönnum þegar hún er ung kona og velur annan þeirra. „Þetta var óheyrilega falleg kona“, segir Guðrún „og hún skynjar líka ýmislegt sem öðrum er hulið“. Hún giftist ung presti sem nú vill byggja tilgátuklaustur á Reynisstað í Skagafirði. Rannsóknarblaðaður sem er að skoða málið hefur efasemdir um þessi áform og þegar hann veikist fær hann blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur til að skoða málið frekar. Alma var líka sögupersóna í Beinahúsinu, síðustu bók Guðrúnar.
Fegurð kvenna ekki endilega af hinu góða
„Fegurð kvenna er mikið áhrifaafl í ýmsum sögum“, segir Guðrún. Hún segist hafa velt þessu töluvert fyrir sér. Þannig hafi fegurð Hallgerðar til dæmis haft mikil áhrif á framvindu Njálu. Fegurð kvenna sé ekki endilega af hinu góða. Hún geti hjálpað, en geti líka gert líf þessara kvenna erfitt. Þær ráði engu um það og geti ekkert að því gert hvað þær séu fallegar. „En þetta flækir líf þeirra og hvað á fólk að gera sem hefur þessi áhrif?“, spyr hún.
Oft er flagð undir fögru skinni
„Hugmyndin virðist oft sú, að ófríðar konur séu göfugar og góðar, en fagrar konur hljóti að vera flögð, samanber máltækið „Oft er flagð undir fögru skinni“, segir Guðrún. „Það er gjarnan ein svona persóna í skáldsögum, þær mega ekki vera of margar. Karlarnir verða síðan handbendi þessara kvenna“, segir hún og bætir við að þeir virðist oft miklu einfaldari sálir en konurnar, bæði í bókum og í lífinu sjálfu. „Karlar komast ekki með tærnar þar sem konurnar hafa hælana í ástríðunni, segir Guðrún og telur það stafa af því að konur sjái mest um afkvæmin og þurfi að verja þau með kjafti og klóm. Þar af leiðandi séu í þeim meiri tilfinningasveiflur.
Blaðamennska góður undirbúningur fyrir rithöfunda
Guðrún Guðlaugsdóttir hefur verið skrifandi öll sín fullorðinsár og það er kannski ekki tilviljun að aðalsögupersónan Alma Jónsdóttir er blaðamaður. „Mér finnst ég hafa verið óskaplega heppin að hafa fengið tækifæri til að starfa svona lengi í fjölmiðlum“ segir hún, en faðir hennar var einnig blaðamaður sem ungur maður og fleiri í fjölskyldunni. Guðrún segist ævinlega hafa lesið mikið og að sig hafi alltaf langað til að skrifa bækur. Hún segir að athygli sín hafi nýlega verið vakin á því að það sé hugsanlega erfiðara fyrir blaðamenn en aðra að hasla sér völl sem rithöfundar. Það eigi hins vegar ekki alltaf við og ýmsir höfundar hafi sýnt og sannað að blaðamennska sé góður undirbúningur fyrir skáldsagnaritun.
Hér má lesa bókarkafla úr bókinni
Blaðamaður deyr
eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur
– úr öðrum kafla…
„Hvers vegna í ósköpunum viltu tala við mig ef þú hefur svona lítið álit á
konum?“ sagði Alma. Í aðra röndina hafði hún gaman af æðruleysi og hreinskilni
Árna. Og góður penni hafði hann alltaf verið. Hann var þekktur fyrir
að henda sér í verkin af miklum dugnaði og víla ekki fyrir sér að hafa fyrir
hlutunum. Rannsóknarblaðamaður af bestu tegund. Reyndar mjög undarlegt
að honum skyldi hafa verið sagt upp. Eitthvað hafði verið hvíslað um að
einhverjum fyndist hann „vita of mikið“. En hvað það var vissi enginn sem um
málið ræddi við hana.
„Konur eru líka menn, er það ekki slagorðið? Ef satt skal segja fannst mér
þú strax einlæg og eitthvað svo heiðarleg í framan. Ég hef gjarnan skipt fólki
í flokka. Þá sem ég myndi taka með mér í andspyrnuhreyfingu ef það væri
stríðsástand og svo hina sem ég tæki ekki. Óneitanlega eru mun færri í fyrri
hópnum. En þú ert í honum. Og einmitt það að þú ert kona og við þekkjumst
ekki mikið er kostur í þessu máli. Ég tel að þá yrði erfitt að rekja neitt til þín, ef
til kæmi. Krabbameinið hefur heldur betur sett strik í reikninginn hjá mér og
ég hef ekki neitt bréf upp á að ég komist í gegnum þessa aðgerð, né heldur býst
ég við að hafa eitthvert starfsþrek á næstunni.“ Glottið sem Árni setti upp var
á einhvern hátt átakanlega dauflegt, fannst Ölmu.
„Og hvað á ég eiginlega að gera?“ sagði hún.
„Ég er með upplýsingar hér í umslagi. Þetta eru heimildir sem ég hef aflað
með ólögmætum hætti. Taktu eftir því. Ég ætla líka að senda þér skjal sem ég á
í tölvunni sem inniheldur lauslega punkta sem snerta málið. Þetta snýst meðal
annars um einkavin og samflokksmann Steinólfs ritstjóra þíns, séra Kristján
Olsen og fjármál sem hann á hlut að ásamt fleirum. Hann veitir forstöðu sjóði
sem hyggst standa fyrir tilgátubyggingu norður í Skagafirði, á stað þar sem
áður stóð víst klaustur. Tilgátuhúsið á að lýsa nunnuklaustri og það á að reisa
það þar sem sérlundaðir menn telja að klaustrið hafi staðið. Enginn veit fyrir
víst hvar það stóð, menn byggja þetta á örnefnum held ég, enn sem komið er.
Persónulega hef ég engan áhuga á þessu tilgátuklaustri. En sjóðurinn sem
hyggst standa að byggingu þess finnst mér þess athyglisverðari. Ef ég lifi
aðgerðina ekki af eða verð ekki starfhæfur á eftir, þá ætla ég að biðja þig að
taka við og skoða málið. Þetta gætu þá orðið mín eftirmæli sem rannsóknarblaðamaður.
Ertu til í það?“
Alma hikaði.
„Ég hef ekki verið í rannsóknarblaðamennsku,“ sagði hún.
„Þú klárar þig með brjóstvitinu, af því hefur þú nóg. Og hlý kona eins og þú
neitar ekki manni á banasænginni um greiða,“ sagði Árni.
Alma kinkaði kolli en sagði ekki neitt. Ekki svo vitlaus greining hjá Árna.
Hún hafði alltaf átt erfitt með að neita fólki um greiða. Nei, hún gæti ekki
neitað, það var satt hjá honum. Auk þess var nú alveg eins líklegt að manninum
myndi batna og þá væri hún laus allra mála.
„Þú mátt alls ekki opna umslagið fyrr en þú sérð hvernig mér reiðir af. Þú
getur hringt í hana Margréti Sigurlínu systur mína, þú finnur símanúmerið
hennar á netinu, hún á enga alnöfnu. Hún mun upplýsa þig um líðan mína.“
Árni hafði greinilega fylgst grannt með svipbrigðum Ölmu og getið sér rétt til
um hugrenningar hennar.
Alma tók við umslaginu þegjandi. Var þetta efnið sem búið var að hvísla
um? Hafði Árni komist að einhverju vafasömu sem snerti séra Kristján
Olsen, föður Dofra, aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins? Það gæti reynst honum
skeinuhætt, altalað var að þegar Steinólfur hætti myndi Dofri taka við stjórn
blaðsins. Allavega til bráðabirgða.
„Hvað með Dofra?“ sagði hún eins og ósjálfrátt.
„Skrýtið að þú skulir segja þetta – en ber vott um innsæi. Mér er nefnilega
eitthvað undarlega illa við að höggva nálægt honum. Tilfinningasemi sem er
ekki lík mér. En það er eitthvað í fari hans sem ég kannast við. Hann minnir
mig á föður minn. Ef ég á að vera hreinskilinn þá bjóst ég ekki við neinu góðu
frá Dofra. Hef meira að segja rökstuddan grun um að hann hafi átt þátt í að
ég var rekinn af blaðinu. En lengi skal manninn reyna, hann heimsótti mig
þegar hann frétti að ég væri veikur og sat lengi hjá mér. Ræddi um skólatíð
sína og mína. Við erum báðir stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri. Ég
var raunar samtíða pabba hans þar – og þekkti líka mömmu hans. Hann kom
reyndar með heilsubótarseyði sem hún hafði búið til.“
„Hittir þú þau ennþá?“
„Nei, en ég hef fylgst með þeim. Veit að þau hafa lifað afar hátt undanfarin
ár. Það gerðu þau ekki hér áður, meðan Kristján var prestur fyrir norðan. Hann
er núna nýlega kominn í sérverkefni fyrir Biskupsstofu – varla ábatasamt.
Konan hans heitir Marsibil Bjarnadóttir og er úr Eyjafirði. Hún er að vísu með
einhverja framleiðslu og fyrirtæki því tengt. Hún er grasalæknir og heilari,
hvað sem það nú er. Hún býr til ýmislegt úr jurtum. Allskonar kremsull og svo
þetta seyði sem á að styrkja ónæmiskerfið. Það hefði mátt segja mér það oftar
en einu sinni og oftar en tvisvar að Massý færi þessa leið. – Nei, ég held að ekki
sé allt sem sýnist í þessu máli.“
„Dofra er greinilega ekki alls varnað,“ sagði Alma. Hún var dálítið hissa á
að hann skyldi gefa sér tíma til að heimsækja Árna. Hún hafði hingað til ekki
séð mörg góðverkin til þess manns. Að vísu átti hann sæti í einhverri nefnd
um mannúðarmál og gaf sig út fyrir að vera hlynntur jafnrétti af öllu tagi. En
eitt var að segja hlutina og annað að framkvæma. Hún hafði frá því fyrsta efast
um heilindi hans, óverðskuldað þó. Hann hafði aldrei gert henni neitt – en
eitthvað í fari hans gerði það að verkum að henni leið illa nálægt honum.
„Verkin tala best,“ bætti hún við.
„Já, Dofri hefur komið á óvart. Var flottur á því, hafði ekki bara með sér
jurtaseyðið, kom líka með viskíflösku. Við fengum okkur í glas saman. Hann
var með silfurstaup í leðurtösku, ættargripi sagði hann, sem hann tók auðvitað
með sér. En hann var svo höfðinglegur að skilja viskíflöskuna eftir. Hana
sagðist hann koma með til að við gætum skálað fyrir uppbót á starfslokasamningnum.
Ég var steinhissa. Það hefði bara mátt leggja þessa smáupphæð
inn á reikninginn minn! En ekki get ég rengt hann og peningarnar komu sér
vel. Eftir að ég fór á atvinnuleysisbætur vann ég svart og sjálfstætt þangað til
ég veiktist, þá tók fyrir það.“
„Því fórstu ekki strax til læknis?“
„Það er góð spurning. Þetta byrjaði með að ég átti erfitt með að pissa og
hélt illa þvagi. Fyrirgefðu þetta ógeðfellda líkamsvessatal. En svona er þetta
bara. Hafði grun um að þetta væri blöðruhálskirtillinn en vildi ekki fara til
læknis. Vildi ekki láta gelda mig. Þegar ég var loks alveg að drepast fór ég til
doktorsins. Þá reyndist grunur minn auðvitað vera réttur. Ég hefði náttúrlega
átt að fara strax og ég fór að finna fyrir þessu.“
„Furðulegt með ykkur karlmennina, hvað þið eruð hræddir við lækna,“
sagði Alma.
„Maður er nú mest hræddur um karlmennskuna,“ svaraði Árni. Satt að
segja var karlmennska ekki það sem manni helst datt í hug þegar horft var á
hann. Hárið farið að þynnast, andlitið að síga og húðliturinn ískyggilega grár.
„Passaðu umslagið og mundu hvað ég sagði. Sjáðu til, það gæti skeð að
einhver hefði áhuga á að ná í það. En engum dettur í hug að þú komir nálægt
svona máli. Þú ert nú bara þekkt fyrir lífsreynslusögur og heimilisspjall. Settu
umslagið ofan í töskuna þína og réttu mér fartölvuna.“
Alma stóð upp og sótti litla Apple-tölvu sem stóð á hliðarborði rétt við
innganginn úr forstofunni.
„Gulls ígildi þessi elska,“ sagði Árni og klappaði nokkuð beinaberri hendi
ofan á tölvuna. Hann hafði horast og var satt að segja varla nema skugginn af
sjálfum sér. Í herberginu voru nokkrar tómar vínflöskur, það sá Alma þegar
hún sótti tölvuna. Þungt reykingaloft var og í herberginu. Sennilega lifði Árni
ekki sem heilbrigðustu lífi.
„Þú ættir ekki að drekka ef þú tekur mikið að lyfjum,“ sagði hún.
„Áfengi og tóbak eru þau lyf sem hafa reynst mér best,“ sagði Árni . . .