Quantcast
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Unglingar og reynsla mín af geðbatteríinu

Á minni ævi hef ég reynt hin ýmsu úrræði sem velferðarkerfið hefur upp á að bjóða fyrir ungt fólk sem er að kljást við geðræn vandamál. Öll úrræðin hafa verið veitt í góðri meiningu og ekkert af því sem betur hefði mátt fara í þessu langa ferli er hægt að kenna því að fólk hafi ekki verið að reyna að gera sitt besta, því auðvitað reynir fólk það alltaf.

Eins og hefur komið fram í fyrri greinum sem ég hef skrifað þá átti ég í miklum erfiðleikum á unglingsárunum og í þessari grein ætla ég að reyna að kryfja þau úrræði sem var reynt að beita í mínu tilfelli og hvernig ég upplifði þau. Einnig ætla ég að koma með hugmyndir um hvað ég hefði viljað að væri gert ef ég hefði verið spurð álits eða haft eitthvað um það að segja hvar mér væri komið fyrir hverju sinni.

Greinin er alls ekki hugsuð sem skítkast heldur er hún einungis vangaveltur auk þess að vera hluti af tilraunum mínum til að gera upp fortíðina. Vonandi eiga þessi skrif eftir að hjálpa einhverjum.

Ég ólst upp í litlu bæjarfélagi úti á landi og á þeim tíma var lítið um úrræði fyrir ungt fólk sem var að berjast við mikla vanlíðan. Ég veit ekkert hvernig staðan er þar í þessum málaflokki núna en ég vona að hún hafi skánað. Þegar vanlíðunar minnar fór að verða vart var ekki hægt að gera annað en senda mig til skólasálfræðingsins og þegar vanlíðan mín fór að verða augljós var brugðið á það ráð að senda mig í hálfsmánaðar leyfi frá skólanum „til að jafna mig“.

Það segir sig sjálft að þegar úrræðin eru engin þá versnar líðanin og hún fór versnandi þar til ég brotnaði algjörlega niður og fékk bráðainnlögn á BUGL. Ég var heppin, heppnari en margir, ég þurfti ekki að fara á biðlista. Margra mánaða biðlisti er því miður raunveruleiki fyrir allt of marga.

Inni á BUGL var stunduð einhverskonar meðferð en hún byggðist mikið á lyfjagjöf. Um það hef ég skrifað hér.

Eftir að vistun minni á BUGL lauk fluttist ég í annað bæjarfélag til bróður mömmu og konunnar hans og þá vonuðust flestir til að mínum vandamálum væri lokið. Annað kom þó á daginn þar sem ég sýndi stjórnlausa hegðun sem ég get núorðið rakið til aukaverkana af lyfjunum sem ég var á, ásamt því að líðan mín fór versnandi og ég var farin að íhuga sjálfsvíg. Þessar öfgafullu breytingar á hegðun voru þó aldei tengdar við hugsanlegar aukaverkanir lyfja, heldur var versnun sjúkdómsins um kennt, sem þó var ekki búið að greina á þessum tíma.

Því miður fór svo að ég gerði tilraun til sjálfsvígs og var skutlað aftur inn á BUGL í kjölfarið. Eftir innlögnina tekur við tímabil sem ég vil helst hugsa sem minst um. Á næstu þremur árum flakkaði ég á milli úrræða sem skiluðu mismiklum árangri.

Ég fór á tvö fósturheimili, dvaldi óteljandi sólarhringa á neyðarvistun Stuðla eingöngu vegna skorts á viðeigandi úrræðum, ég fór í eina innlögn á meðferðardeild Stuðla af sömu ástæðum, og ég fór á tvö langtímameðferðarheimili. Á milli þessa úrræða dvaldi ég á BUGL en fékk sjaldan að vera á mínu eigin heimili.

Það sem ég sé mest eftir þegar ég hugsa til baka um flakkið sem var á mér er hversu mikið ég missti í raun úr félagslegum þroska. Stöðugt flakk gerði það að verkum að ég missti sambandið við þá vini sem ég átti fyrir og jafnframt gerði það mér nánast ómögulegt að kynnast nýju fólki. Það sem er verst við þetta er að í raun var það ég sem lokaði á gömlu vinina en ég gerði það eiginlega ómeðvitað, það er eins og ég hafi vitað að það væri einungis sárara að vera send burt næst ef ég ætti góða vini. Þessar áhyggjur voru á rökum reistar enda var ég send í burtu aftur og aftur þangað til ég varð sjálfráða.

Mér finnst alltaf furðulegt að hugsa til baka um það hversu lítið í raun var reynt að vinna heima með fjölskyldunni áður en brugðið var á það ráð að rífa mig út af heimilinu. Á þessum tíma er ég eins lítil í mér og hægt er að hugsa sér. Af öllum þeim hlutum sem voru að veltast um í sálarlífinu risti dýpst hvað ég í raun þurfti mikið á fjölskyldunni að halda. Ég þarfnaðist svo mikið öryggis og hlýju en í stað þess að fá að vera með fólkinu sem ég þekkti, á stað sem mér leið öruggri á þá var ég látin flakka á milli úrræða þar sem ég náði hvorki að tengjast fólki né stöðum.

Í dag situr þetta flakk enn í mér. Ég er alltaf hrædd um að fólk ætli að hafna mér, mér líður stöðugt eins og það líf sem ég á í dag sé of gott til að vera satt og því hljóti það að hrynja saman hvað úr hverju og ég standi uppi ein og varnarlaus. Ég veit vel að þetta er einskonar hugsanavilla í kjölfar áfalls en þrátt fyrir það losna ég aldrei almennilega við tilfinninguna um að einn daginn vakni ég upp og fái tilkynningu um að tíma mínum sé lokið og tími sé kominn til að útskrifast. Því miður hefur þessi undirliggjandi ótti valdið erfiðleikum í samskiptum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Ég veit ekki hvernig þetta er í dag en þegar ég var unglingur þá hefðu töluvert fleiri úrræði þurft að vera í boði. Mér persónulega finnst að það þurfi að reyna eins og hægt er að vinna heima með fjölskyldunum áður en barn er tekið frá því sem það skilur og þekkir. Ef ég fengi að ráða þá væru persónulegir ráðgjafar hjá hverju sveitafélagi sem færu inn á heimilin og reyndu að hjálpa fjölskyldunni allri að sjá og skilja mismunandi sjónarmið innan hennar og vinna svo úr vandamálunum út frá því. Það er sorglegt en ég hef séð allt of mörg tilfelli þar sem vandamálin virðast stafa af tjáskiptaörðugleikum þótt ekki sé það algilt.

Stuðningsforeldrar er hugtak sem ég er mun hrifnari af heldur en fósturheimili. Á heimili þar sem barn eða ungmenni veikist getur það skipt höfuðmáli að vera með stuðningsforeldri. Þannig er hægt að létta reglulega á álaginu sem skapast þegar einhver í fjölskyldunni veikist til lengri tíma. Þetta form virðist þekkjast vel þegar um líkamleg veikindi eða fatlanir er að ræða en virðist ekki vera eins algengt þegar um andleg veikindi er að ræða. Ég væri til í að sjá þessu úrræði beitt áður en ákveðið er að senda barn eða ungmenni í fóstur þar sem lágmarkstíminn er yfirleitt sex mánuðir. Í mínu tilfelli var fósturheimili næsta úrræði á eftir BUGL og rökin fyrir því voru að ég átti tvö lítil systkini sem áttu ekki að þjást fyrir það að stóra systir var veik. Þessi rök get ég vel skilið ef ég sleppi þeim sársauka og missi sem ég fann fyrir þegar ég var send í burtu. Það er rétt eins og hugsunin hafi verið sú að mér liði hvort eð er svo illa að í rauninni væri ekki svo slæmt þó mér liði verr. Auðvitað var hugsunin þó alls ekki sú, fólk var að gera sitt besta úr því sem var í boði.

Ef að það er eitthvað í ferlinu sem ég get sett puttann á og sagt í hreinskilni að hafi verið mistök þá er það dvöl mín á Stuðlum. Stuðlar virðast vera stofnun sem tekur við nánast öllum vandamálum, það virðast ekki vera neinar fastar reglur um það hverjir eigi erindi þangað og oftar en ekki er þar samansafn af „erfiðum“ unglingum sem eiga í raun ekki neitt sameiginlegt nema samnefnarann „vesen“.

Þegar ég fór í fyrsta skiptið á neyðarvistun Stuðla þá hafði ég aldrei komið nálægt fíkniefnum og á þeim tíma var ég í raun skíthrædd við allt sem tengdist þeim á einn eða annan hátt. Inni á Stuðlum kynntist ég fólki á mínum aldri, skemmtilegu fólki sem virtist hafa gaman af lífinu og varð mér svolítið um þegar ég fékk að vita að þessir einstaklingar notuðu efni sem ég hafði verið hrædd við allt mitt líf.

Ég var í hálfan mánuð á Stuðlum sem er lengsta dvöl sem hægt er að vera á neyðarvistun. Þegar ég kom út var það eitt fyrst verk mitt að hafa samband við einstakling sem dvaldist með mér á neyðarvistun og komast að því hvar ég gæti útvegað mér fíkniefni. Tilgangurinn var að reyna að finna vellíðanina sem ég hafði nýlega lært að gæti birst með neyslu fíkniefna. Það var þó enga vellíðan að finna í þessum efnum, það var blekking sem ég hefði alveg verið til í að sleppa við.

Ég mun ávallt vera andvíg því að blönduðum hópum sé skellt saman í meðferð eins og gert er á Stuðlum og fleirri stöðum. BUGL-ið tæklar þetta mál á aðdáunarverðan hátt en það er nánast örugg regla hjá þeim að ef einstaklingur á sögu um neyslu þá kemur hann ekki í innlögn. Þetta er regla sem kemur í veg fyrir að unglingar sem eru í eðli sínu áhrifagjarnir verði fyrir áhrifum sem þeir annars væru lausir við.

Það er stórt gat í kerfinu sem þarf að fylla sem fyrst upp í. Gatið er úrræðaleysið fyrir einstaklinga sem eru að kljást við hegðunarvandamál, þessum einstaklingum eru til skiptis fengin úrræði sem eru hönnuð fyrir fíkla og úrræði sem sniðin eru að þörfum þeirra sem eru andlega veikir og það eru því miður úrræði sem duga ansi skammt fyrir þann sem er að kljást við hegðunarvandamál.

Ég er geri mér ljóst að margir líta á fíkn hjá börnum og unglingum sem hegðunarvandamál en það er mikill misskilningur. Fíkn er ævilangur sjúkdómur sem ekki er hægt að lækna með lyfjagjöf eða uppskurði. Stuðlar ættu að fá að sinna því sem þeir gera best en það er að meðhöndla fíkn hjá ungu fólki og þá komum við að því vandamáli hvað gera eigi við unglingana sem ekki eru í neyslu, eru ekki með geðræn vandamál en eru þrátt fyrir það með hegðunarvandamál sem geta m.a. verið ljótur munnsöfnuður, hótanir, strok eða jafnvel „tölvusýki“.

Þrátt fyrir að „tölvusýki“ sé ein tegund af fíkn þá finnst mér persónulega algjör fásinna að setja einstakling sem deyfir tilfinningar með tölvunotkun á sama stað og þá sem nota fíkniefni í sama tilgangi. Óþarfa leikur að eldi kalla ég þetta.

Ef ég væri spurð þá myndi ég svara því til að helst þyrfti sérstaka stofnun sem sérhæfði sig í hegðunarvandamálum, stofnun sem myndi bjóða upp á göngudeildarmeðferð og svo innlagnarmeðferð fyrir þá sem þyrftu. Þessi stofnun gæti unnið með ungmennum sem ekki búa við fíkniefnavanda eða geðræna röskun og ég trúi því heilshugar að sérúrræði fyrir unglinga með hegðunarvanda gætu bjargað mörgum. Ég hefði til dæmis verið til í að bíða með eða sleppa því að kynnast heimi fíkniefnanna – sem hefði vel verið gerlegt ef sérúrræði hefðu boðist vegna hegðunarvandamála.

Allar þær tillögur sem mér hafa dottið í hug eiga það sammerkt að kosta peninga en mér finnast þetta smáaurar ef ég set þá í samhengi við heildina. Auðvitað kostar það sveitarfélögin peninga að vera með persónulega ráðgjafa í vinnu og auðvitað kostar peninga að borga fleiri stuðningsforeldrum og það er gefið mál að stofnun nýrrar meðferðarstofnunar myndi kosta mikið fé.

En hvað kostar sólarhringur á stofnun eins og Stuðlum eða BUGL?

Hvað kostar það samfélagið þegar einstaklingar fá ekki strax viðeigandi úrræði? (Sjálfsvígstilraunir, strok, hótanir, allt kostar samfélagið sitt.)

Eru margra mánaða biðlistar ásættanlegir í svona tilfellum eða getum við eitthvað gert til að stytta þá svo veikustu einstaklingarnir komist að?

Er nokkurntíma ásættanlegt að við höfnum manneðlinu, viljanum til að hjálpa náunganum, höfnum því vegna þess að við sjáum eftir peningunum?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283