Nýverið var ítalski freyðivínsframleiðandinn Ferrari valinn „European Winery of the Year“ af Wine Enthusiast vínblaðinu sem kannski undirstrikar þann fjölda viðurkenninga sem þessi frábæra víngerð hefur fengið gegnum árin. Í september var Ferrari líka valinn „Sparkling wine Producer of the Year“ í hinni frægu keppni „The Champagne and Sparkling Wine World Championships.“ Það má því með sanni segja að Ferrari beri höfuð og herðar yfir aðra freyðivínsframleiðendur.
Draumur verður að veruleika
Um aldamótin 1900 ól Giulio Ferrari með sér þann draum að gera freyðivín í Trento héraðinu á Ítalíu sem stæðu jafnfætis kampavínum að gæðum. Hann sá möguleika svæðisins til að gera góð þurr freyðivín og var fyrsti víngerðarmaðurinn sem plantaði töluverðu magni af Chardonnay vínvið í Trento. Hann byrjaði hægt og bítandi að framleiða freyðivín og með endalausri elju og áherslu á gæði tókst honum ótrúlega fljótt að öðlast viðurkenningu fyrir vínin sín. Ferrari varð ekki barna auðið og fór um miðja síðustu öld að leita að arftaka sem gæti haldið draumnum gangandi. Hann fann Bruno Lunelli, eiganda vínbúðar í Trento og hann tók við keflinu. Með mikilli þrautsegju tókst honum að auka framleiðsluna án þess að það kæmi niður á gæðum freyðivínsins. Upp úr 1970 tóku svo synir Bruno Lunellis, þeir Franco, Gino og Mauro, við rekstrinum og tókst að gera Ferrari að markaðsleiðandi fyrirtæki á Ítalíu.
Nútíðin
Í dag er það þriðja kynslóðin sem heldur um stjórnartaumana, þau Marcello, Matteo, Camilla og Alessandro. Markmið þeirra er einfalt: að kynna Ferrari um allan heim sem glæsilegan fulltrúa fyrir ítölsku listina að lifa. Ferrari freyðivín eru nú eftirsótt um allan heim og borin fram í fínustu veislum. Það er fagnaðarefni að í Vínbúðunum fæst ein tegund af Ferrari og þó það sé ekki ódýrt miðað við freyðivín er það samt næstum helmingi ódýrara en kampavín í sama gæðaflokki.
Ferrari Maximum Brut kr. 4.639
Sú staðreynd að Steingrímur Sigurgeirsson hafi valið þetta vín sem besta vín ársins 2010 segir kannski sína sögu. Þetta freyðivín, sem gert er 100% úr Chardonnay þrúgum, er bara unaðslegt og í nefi má finna epli, smá tóna af kexi og sítrónu. Þroskaðir ávextir og stökkt brauð koma upp á yfirborðið en það má örugglega rekja til þess að vínið er látið eldast í a.m.k. 3 ár með gerinu. Ferskt og líflegt í munni með alveg unaðslegum og fínlegum „bubblum“, dæmigerðir ávaxtatónar frá Chardonnayinu og örlítill keimur af geri. Þetta hlýtur að vera freyðivínið um jólin og áramótin!
Hér má sjá myndband um sögu fyrirtækisins.