Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Snúum líkamshatrinu upp í líkamsvirðingu og ást

$
0
0

„Oj barasta mamma, ég er svo feit,“ sagði 10 ára gömul dóttir mín við mig, beygði sig fram og kleip í magann á sér. Ég varð kjaftstopp. Roðnaði af reiði (ekki út í hana, heldur sjálfa mig og heiminn), taldi upp að tíu og sagði ljúflega við hana, elsku barnið mitt, það ertu ekki. Þótt þú værir það myndi það engu máli skipta. Mjó eða feit, stór eða lítil, þú ert fullkomin eins og þú ert. „En mamma, ég er líka byrjuð að fá brjóst, ég vil það ekki.“ Hvað gat ég sagt?

Það var ekki fyrr en í gagnfræðaskóla sem ég fór að velta líkama mínum fyrir mér af einhverri alvöru. Ég var afskaplega seinþroska og var strítt vegna þess að ég var ekki komin með brjóst fyrr en seint og um síðir. Þess vegna var mér hálflétt þegar ég sá að hennar voru farin að láta á sér kræla. En það hræddi mig líka því hún er jú bara 10 ára. Það er örugglega ekkert auðveldara að vera bráðþroska en seinþroska. En viljum við ekki einmitt það? Gera það auðveldara að vera mismunandi af stærð og gerð? Að „normið“ sé allt og alls konar? Að fagna fjölbreytileikanum?

12248625_554471385854_959015722_n

Mér finnst sárt að hugsa til baka og heyra mig segja við sjálfa mig „af hverju get ég ekki verið með mýkri línur? Ég verð að fá mér sílíkon. Hvers vegna er efri vörin mín svona skrítin? Oh, ég vildi ég væri hávaxin, með þykkt hár og fallegar tær“. Ég vil ekki að dætur mínar hugsi svona.

Ég hef aldrei sett út á líkama minn fyrir framan dætur mínar þrátt fyrir það séu aðeins rétt rúm 3 ár síðan (seinþroska sagði ég) sem ég varð afskaplega sátt við hann. Reyndar tussusátt. En það tók mig einmitt 32 ár og margar agressívar feminískar hugsanapælingar við sjálfa mig. En er í lagi að ég segi það upphátt? Er ég þá montin eða merkileg með mig?

Það kemur varla fyrir að ég hitti kunningja eða vinkonur sem hrósa sjálfum sér eða tala fallega um útlit sitt, vöxt, líkamsgerð eða stærð. Að vera á stöðum þar sem margar konur koma saman til að klæða sig eða farða er alger veisla fyrir niðurrif og líkamshatur.

„Ég verð að mála mig. Oh, ég þoli ekki lærin á mér. Maginn á mér er feitur. Ég er ógeðslega mygluð. Hræðilegt að sjá appelsínuhúðina aftan á lærunum á mér. Brjóstin mín eru sigin. Ég hata hvað ég er með slappa handleggi. Rassinn á mér er allt of stór.“ Þetta eru mjög algengar athugasemdir kvenna um eigin líkama.

12243985_554471770084_1406538394_nÍ grein sem ég skrifaði fyrir löngu um líkamann eftir barnsburð sagði ég: „Ég mæli með að við stöndum saman í margbreytileikanum og fögnum því að vera alls konar. Leyfum okkur að sinna hlutverkum okkar sem konur eins vel og við getum hverju sinni. Njótum þess að elska líkama okkar eins og hann er og berum virðingu fyrir … honum. Einmitt þetta ættum við að gera gagnvart okkur sjálfum, þannig erum við góðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar til að gera slíkt hið sama.

Ég er ánægð með mig alveg eins og ég er. Brjóstin mín, rassinn og handleggir, allt í minni stærð. Efri vörin mín er sérstök, leggirnir lögulegir og maginn minn, þriggja stúlkna maginn minn, er alveg eins á hann á að vera. Ég er afskaplega ánægð með mig nákvæmlega eins og ég er. Nú ætla ég að segja þetta upphátt þegar dætur mínar og vinkonur eru nærri. Snúum líkamshatrinu upp í líkamsvirðingu og ást. Elskum okkur sjálf jafn heitt og við elskum börnin okkar. Þannig læra þau að elska sig, alveg eins og þau eru. Alveg sama hvernig.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283