Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Raunveruleiki handa barni…

$
0
0

Jakob S. Jónsson skrifar.

Ritstjóri Kvennablaðsins, Steinunn Ólína, bað mig um að skrifa grein um móður mína, Svövu Jakobsdóttur, útfrá sjónarhóli barnsins, sem á rithöfund fyrir móður.

Auðvitað er það sjálfsagt mál, að bregðast vel við þeirri beiðni. Mæður okkar, Svava og Bríet Héðinsdóttir, leikkona og leikstjóri, voru nánir vinir og samstarfsmenn um árabil og vinátta þeirra var af ákaflega sérstöku tagi.

Nú las ég orð Steinunnar Ólínu vitlaust í fyrstu. Hélt þar stæði “sem á rithöfund í staðinn fyrir móður” … og það undarlega var að mér þótti það hreint ekkert undarlegt. Því þannig var það.

Ég hef oft sagt eftir að ég varð fullorðinn, að ég hafi verið svo lánsamur að eignast uppáhaldsrithöfundinn minn sem móður. Það býr nokkur alvara á bak við þessa yfirlýsingu. En ég ætla samt ekki að gera meira úr því en efni standa til, því ég get líka hlegið að alvörunni. Það lærði ég af móður minni, sem hafði alist upp í tveimur menningarheimum, gott ef ekki fleirum, og hafði hlotið kímnigáfu föður síns í vöggugjöf.

Þegar ég fór að muna eftir mér áttum við heima á Eskifirði. Það var smáþorp, jafnvel á þess tíma vísu og þar varð heimsmynd mín til. Eftir á að hyggja: faðir minn var prestur þar og í smáþorpinu voru augljóslega einhverjar væntingar í gangi um það hvernig sonur prestsins ætti að vera. Ég hafði auðvitað enga hugmynd um það. Fékk greinilega bara að vera ég, nokkuð óáreittur af foreldrum mínum. Þeim var margt betur lagið en að veifa félagslegum siðavöndum. Ég á ljúfar minningar um móður mína frá þessum tíma – enda hver nema móðirin er í miðju þess heims sem barnið er að uppgötva, skapa, og hver nema móðirin hlúir að barninu, þegar lífsbrimið skellir því uppað klettum?

Eitt sinn höfðum við Ingólfur, leikfélagi minn á þessum árum, síldarárunum, uppgötvað ljómandi góða gróðavon í því að velta tómum síldartunnum til söltunarstúlknanna á plani. En ungur verkstjórasonur með rödd í mútum reyndist hafa yfirumsjón yfir þessu verki og rak mig heim. Ég var prestssonur og þurfti ekki að vinna. Ingólfur vinur minn var af kaupfélagsstjóraætt og fékk að halda áfram, samkvæmt múturöddinni. En ég fór heim og hágrét það sem eftir lifði dags í fangi móður minnar yfir þessari miskunnarlausu höfnun alþýðunnar.

Hins vegar virðist mér, svona eftir á að hyggja, að það hafi komið smáþorpinu í dálítinn vanda, að móðir mín var ekki hefðbundin prestsfrú. Hún hefði þó átt að kunna fagið, sjálf prestsdóttirin. Móðir hennar og amma mín frú Þóra Einarsdóttir, var þekkt að því að vita hver hennar skylda var. Hún var formaður Kvenfélags Hallgrímskirkju um árabil, stjórnaði kökubösurum, annaðist fjársöfnun til kirkjubyggingar og sinnti öðru starfi kvenfélagsins af skörungskap og var bara á allan hátt til hefðbundinnar fyrirmyndar.

En ekki móðir mín. Hún var að taka fyrstu skrefin á braut atvinnurithöfundarins og sat löngum í vinnuherbergi sínu á prestsetrinu og skrifaði þar á Ericuna sína þær sögur sem urðu að fyrsta smásagnasafni hennar, Tólf konur.

Undir þessum kringumstæðum reyndi ég auðvitað allt hvað ég gat að falla í kramið á Eskifirði. Ingólfur fékk einu sinni að heyra það, hversu hneykslaður ég, sex ára guttinn, var á þessari konu sem bjó á sama heimili og ég:

“Hún mamma mín er svo skrítin! Hún er alltaf að skrifa einhverjar sögur!”

Ætli ég hafi ekki verið að vona að Ingólfur færi með þetta í múturöddina, sem myndi þá uppgötva að ég hefði viðhorf venjulegs manns og mætti þar með græða pening á því að velta tómum tunnum á síldarplaninu. Sú von rættist þó ekki og bilið milli mín og alþýðunnar óx.

En ég vissi sumsé greinilega að móðir mín skrifaði sögur. Mig minnir þó sem ég hafi verið frekar lítið spenntur fyrir sögunum hennar; mig hefur kannski grunað að eitthvað í þeim sögum yrði til að fjarlægja mig enn frekar venjulegu fólki. Ég las Alfinn álfakóng og Dísu ljósálf – það voru sögur um söknuð og liðna tíma. Móðir mín skrifaði sínar sögur handa nýjum börnum nútímans, og þær höfðu lítil áhrif á mig.

Ég komst hins vegar að því síðar, að sögur móður minnar höfðu áhrif. Og eftir á að hyggja hefur það verið dálítið undarlegt að horfa til bernskunnar og komast að því að allt, sem þá þótti stinga í stúf við venjur og olli jafnvel óásættanlegum tilfinningum í barnshjartanu var í raun bara undirbúningur að innkomu móður minnar á hinn opinbera vettvang. Og þegar hún var þangað komin, orðin opinber manneskja, þá var henni skipað í hlutverk, sem voru sköpuð og hönnuð af Gróum á Leiti þessa lands: móðir mín var rithöfundur, kommúnisti, kvenréttindakona, rauðsokka, femínisti, allaballi, byltingarsinni og ég veit ekki hvað. Gróurnar klæddu móður mína í alla þá búninga, sem gerðu hana á einhvern hátt hættulega. Hana, sem hafði huggað mig, þegar alþýðan afneitaði mér!

Þegar þarna var komið sögu var ég orðinn unglingur, skoðanir farnar að mótast og auðvitað var jafnrétti eðlilegasti hlutur í mínum huga. Það var enda fátt meira rætt við eldhúsborðið heima. Ég reyndi náttúrulega að miðla þessum frábæru viðhorfum til vina minna og kunningja og þótti einkennilegt, svo ekki sé sagt frústrerandi, þegar ég mætti mótspyrnu af þeirra hálfu. Margir vinir mínir voru augljóslega ekki par hrifnir af rauðsokkum og höfðu sínar hugmyndir um þennan ógurlega kvennafans. Einn daginn var mér öllum lokið og sá mig tilneyddan að kvarta hástöfum við móður mína: “Fólk segir að þessar rauðsokkur séu bara lesbíur upp til hópa!” Ráðaleysi mitt gagnvart þessum hardcore rökum var algert.

Þá hallaði móðir mín sér yfir eldhúsborðið, tók huggandi um hendur mínar og sagði: “Segðu vinum þínum að þú þekkir margar rauðsokkur – og getir borið um að þær séu ekki lesbíur”.

Það hreif. Auðvitað. Móðir mín vissi, hvernig sögur handa börnum eru skrifaðar. Þessi ágæta retórík gerði að verkum að ég skoraði þó nokkur stig meðal vina og kunningja.

Hugurinn hvarflar aftur til bernskunnar á Eskifirði. Þar skapaðist siður í fjölskyldunni, sem ég minnist ávallt með mikilli gleði. Á kvöldin var sest inn í stofu og lesið úr góðbókmenntum. Alfinnur álfakóngur og Dísa ljósálfur fengu frí og í staðinn voru sóttar Skytturnar eftir Dumas, Börnin í Nýskógum eftir Marryat og aðrar úrvalsbókmenntir. Við skiptumst á um að lesa. Þetta voru unaðsstundir.

Svo var farið að hátta og mamma sat á rúmstokknum og las bænirnar fyrir drenginn sinn. Á eftir bænunum kom dálítil terapíustund, þar sem hún vék sér fimlega undan kröfum mínum um loforð um að deyja aldrei.

Sú saga handa barni var aldrei sögð. Ekki á mínu heimili.

Jakob S. Jónsson. Leikstjóri. Leiðsögumaður. Sonur.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283