Ég hef haldið mörg námskeið í kaðlaprjóni þar sem farið er í hvernig hægt er að prjóna kaðla þannig að þeir verði nákvæmlega eins báðum megin, en slíka kaðla kalla ég ég „eineggja kaðla“. Ég hef á sama námskeiði líka kennt hvernig hægt er að prjóna eitthvað sem er með köðlum báðum megin sem eru þó ekki nákvæmlega eins, en þá kalla ég „tvíeggja kaðla“. Láttu endilega heyra í þér ef þú veist um betra heiti.
Tvær spurningar fæ ég undantekningalaust á þessum námskeiðum. Sú fyrri er hvernig maður viti hversu margar umferðir eigi að vera á milli kaðalsnúninga en hin er hvernig eigi að telja umferðirnar á milli snúninga.
Svarið við fyrri spurningunni er afar einföld (svarið við hinni líka en aðeins lengra). Það er engin regla á því hversu margar umferðir eigi að prjóna á milli og getur þú haft þetta nákvæmlega eftir þínu höfði. Þumalputtareglan er samt sú að ef það eru t.d. sex lykkjur sem mynda kaðallinn þá er snúningurinn gerður í sjöttu hverri umferð. Ef kaðallinn er 8 lykkju breiður, þá er snúningurinn gerður í áttundu hverja umferð o.s.frv.
En þá er það svarið við seinni spurningunni. Hvernig telur þú umferðirnar frá síðasta snúningi.
Það er lítið mál!
Ef þú ert að prjóna fram og til baka, þá byrjar þú á því að sjá hvor hliðin snúi að þér. Ef kaðallinn snýr að þér þá veistu að þú hefur að minnsta kosti prjónað eina umferð á röngunni eftir síðasta snúning. Þú hefur s.s prjónað oddatölu umferð. Þetta er byrjunin.
En til að vera alveg örugg/ur – hvort sem þú ert að prjóna fram og til baka eða í hring – notaðu aukaprjón:
Stingdu prjóninum (ég notaði heklunál) í holunni sem myndast þegar snúningurinn er framkvæmdur í kaðlinum. Teldu síðan umferðirnar upp frá því! Ekki telja þessa sem liggur yfir prjóninum og heldur ekki þá sem er í vinnslu á prjóninum. Teldu aðeins þær sem eru þarna á milli.
Þrjár umferðir!
Sko. Ég sagði að þetta yrði ekkert mál. Og þar sem þetta er 6 lykkju kaðall, þá þarf ég að prjóna tvær umferðir í viðbót áður en ég geri snúningsumferð. Það þurfa s.s að vera 5 umferðir þarna á milli hjá mér.
Mundu að kvitta og segja mér hvernig þér fannst þessi pistill. Ég er endalaust að þreifa mig áfram og læra hvað það er sem þér líkar. Þannig get ég gert meira af því sjáðu til.
Snúin kveðja á línuna,
Tína