Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ég dó ekki frá dóttur minni… ég var drepinn frá henni!

$
0
0

Friðgeir Sveinsson skrifar:

Ég dó ekki frá dóttur minni… ég var drepinn frá henni!

Þessi umfjöllun í Kastljósi í gær var afar þörf. Og eins og kannski einhverjir vita þá stendur þessi málaflokkur mér óþægilega nærri. Þar var fjallað um samskipti barna við fjölskyldu foreldris sem fellur frá. Séra Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur þótti mér afar skýrmæltur í sínu máli. Þar kom hann inná það þegar barn er dregið útúr sínum upprunatengslum og þann skaða sem það veldur barninu.

Skjáskot af RÚV

Skjáskot af RÚV

Það sem einnig kemur fram í máli þeirra aðila sem starfa inni í þessum geira er að þegar að börnin verða eldri þá verða þessi börn reið og gröm þeim sem brugðust þeim. Þeim foreldrum og ættingjum sem með annað hvort beinum hætti eða aðgerðarleysi rufu tengsl barnanna við uppruna sinn.

Séra Vigfús Bjarni Albersson gekk meira að segja svo langt að segja að þetta ógni heilsu sumra barna – að vera slitin svo frá uppruna sínum.

Nálgun Jóns Bjarnasonar og hans fjölskyldu þykir mér aðdáunarverð.

Þessu umfjöllun er sprottin upp af þeirri sorg þegar ungt fólk fellur frá og börn þeirra þurfa þá að stóla á skynsemi og áræðanleika fullorðinna fjölskyldumeðlima og ættingja.

Mér finnst þessi umræða þörf. Ég fagna henni.

Það eru komin rúm 5 ár síðan að dóttir mín Katrín Steina faðmaði pabba sinn. Hljóp á móti mér í fangið á mér og faðmaði mig með þeirri ást og hlýju sem einungis barn er fært um. Fór í heimsókn til ömmu sinnar og afa. Um foreldra mína verður ekki annað sagt en að sannarlega séu þau amma og afi… hlýjan og kærleikurinn til sinna barnabarna er öllum ljós.

Það eru líka kominn rúm 5 ár síðan að dóttir mín Katrín Steina faðmaði foreldra mína, ömmu sína og afa.

Ég sem faðir dóttur minnar dó ekki. Það var ekki sinnuleysi eftirlifandi sem orsakaði það að uppúr slitnaði. Dóttir mín fjarlægðist ekki uppruna sinn af eigin rammleik.

Ég sem faðir dóttur minnar dó ekki, afi hennar og amma dóu ekki, frænkur hennar og frændur, stórfjölskyldan – við dóum ekki. En í dag veit hún ekki að við erum til.

Mikið sannarlega hef ég reynt að öskra úr gröfinni árum saman og segja dóttur minni að ég sé til…

Kröftugur varnarmúr barnsmóður minnar og hennar foreldra drepur niður allar tilraunir til þess að leiða barnið í sannleikann. Og þau ala hana upp í lygi. Þið vitið hver þið eruð… og það sem verra er þið vitið hvað þið eruð að gera… og þið haldið því áfram.

Elsku litla Katrín Steina mín – ég er ekki dáinn.  Alls ekki – og þú fattar það einn daginn.

En eitt verð ég þó því miður að segja þér þó svo að ég sé ekki dáinn að þá er það öllum ljóst að mamma þín, amma þín, og afi þinn eru sannarlega að leggja sitt að mörkum að drepa mig hvað varðar það – að þú eigir pabba.

Því miður er að þannig að foreldrar (feður) þurfa ekki að deyja til þess að verða drepnir út úr tilveru barna sinna.

Ég vona að þú sjáir þetta fyrr en síðar… Og það eina sem til þarf er að þú segir, pabbi…, og ég rís úr gröfinni sem aðrir vilja halda mér í.  Ég verð ekkert nema kærleikurinn, ástin og hlýjan og kala mun ég ekki bera til neins. Ég mun ekki ætlast til neins af þér heldur. Við bara horfum fram á veginn sameinuð að nýju. Og ég er hér… ég er pabbi þinn og ég er hér.

Ég dó ekki frá þér elsku Katrín Steina mín… Ég var drepinn frá þér… En eins og þú kemst að þá er harðara í pabba þínum en svo að hann verði svo auðveldlega drepinn frá þér.

Kveðja, pabbi


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283