Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Föstudagurinn 13. í París

$
0
0

Elín Björg Guðmundsdóttir skrifar:

elinheiða (1)

Elín t.v og Heiða t.h

Þegar tvær konur í ævintýraleit skella sér í helgarferð til Parísar má alveg búast við að eitthvað fari úrskeiðis í dagskránni en ekki grunaði mig að þessi ferð yrði á þessa leið.

Miðvikudaginn 11. nóvember sá ég París í fyrsta sinn. Með mér í för var vinkona mín og ljósmyndari, Heiða Halls. Borgin er dáleiðandi og við hreinlega ráfuðum um í hrifningu. Fyrstu tveir dagarnir voru ævintýri, draumur sem mig langaði ekki að vakna frá.

Að kvöldi föstudagsins 13. hittum við kunningja á veitingastað í 13. hverfi. Þar sitjum við og spjöllum og hlæjum, algerlega óafvitandi um ástandið í borginni.

Þegar ég stíg út af veitingastaðnum rennur það upp fyrir mér að ég hafði ekki hugmynd um hvar við vorum staddar og ákvað að ná leigubíl til að skutla okkur á næstu lestarstöð. Þegar þangað var komið var lestarstöðin tóm og allar lestir kyrrsettar. Grunlausar um atburði kvöldsins ákváðum við að setjast á næsta kaffihús með nettengingu til að finna aðra leið heim í íbúð.

Þar sem við sitjum úti undir hitalampa á einum af þessum ekta frönsku veitingastöðum Parísar að sötra kaffi tek ég eftir því að óteljandi lögreglu- og slökkviliðsbílar bruna framhjá okkur með sírenum og bláum ljósum. Ég sný mér að þrem strákum sem sitja á næsta borði og spyr hvort þetta sé eðlilegt ástand í París. Þeir svara mér því að veitingastaður skammt frá hafi verið sprengdur upp. Hryðjuverkamaður hafi varpað handsprengju og að saklausir borgarar séu særðir eða látnir.

_5D38496

Ljósmynd/ Heiða Halls

Við erum leiddar til tveggja franskra stráka sem áttu að veita okkur öryggi. Þeir ráfuðu um með okkur álíka villtir og við. Við fórum okkar leið. Á mannlausum strætum Parísar leituðum við að leigubíl til að keyra okkur í íbúðina og á endanum fann okkur einn. Eins erfitt og það hafði verið að ná leigubíl á fjölförnum vegi fannst mér magnað að hann skyldi koma til okkar og bjóða okkur uppí. En þegar ég nefndi áfangastaðinn kárnaði gamanið. Phillipe Auguste, sagði ég eins og ég hafði oft gert áður til að rata heim með hjálp vegfarenda. En mér til mikillar furðu keyrði hann ekki af stað. Hann öskraði. Á frönsku aðallega en einstaka blótsyrði á ensku. Are you crazy? sagði hann og spurði hvort hann ætti að hætta lífi sínu fyrir tvær ókunnugar stelpur. Þetta var í fyrsta sinn sem ég áttaði mig á þeirri raunverulegri hættu sem við vorum í.

_5D38517

Ljósmynd/ Heiða Halls

Ég finn hvernig hjartað hamast í brjósti mér og verð eins og lítil stúlka. Ég bið hann um að hætta að öskra. Ég bið hann um að koma okkur í öryggi. Ég segi að við séum bara Íslendingar, við höfum aldrei fengið tækifæri til að undirbúa okkur undir svona lagað.

„Herra, gerðu það,“ segi ég á ensku með titrandi röddu, „við viljum bara komast heim.“

Hann keyrir af stað. Hann blótaði og öskraði alla leiðina, en þessi maður með hjarta úr gulli keyrði okkur beint inn í hverfi 11, þar sem lögvaldið var búið að leggja bann á allar mannaferðir. Við föðmuðum manninn og þutum upp að fyrsta stálhliðinu og léttirinn þegar ég heyrði það lokast á eftir okkur var ólýsanlegur. Það var lítið um svefninn þá nótt.

_5D38530

Ljósmynd/ Heiða Halls

Móðir mín setti mig í stofubann. En það sem hún, ásamt þeim sem heima voru með áhyggjur, máttu alls ekki vita var að íbúðin okkar var stödd í miðju gini ljónsins. Eftir svefnlausa nótt var forgangsatriði að koma okkur út úr þessu hverfi og í öryggi. Hvert leita tveir símalausir túristar að öruggu skjóli í framandi landi þar sem allar upplýsingar eru gefnar á óskiljanlegu tungumáli?

Við tókum tóma lest að Louvre-safninu og eyddum deginum okkar umkringdar vopnuðum hermönnum. Að stíga upp úr metróinu var óhugnanlegt. Þar sem ég hafði komið tveim dögum fyrr upp tröppurnar og lífið tók við mér. Götusalar, túristar, Frakkar að gera sér glaðan dag, söngur, hljóðfæraspil – horfið eins og dögg fyrir sólu. Þar sem áður höfðu verið gljáðar göturnar af lífi var nú andvarinn einn eftir. Ljósin voru slökkt á Eiffelturninum þetta kvöld. Tómt Parísarhjól dansaði nokkra hringi en staldraði svo við í áfalli þjóðarinnar og snerist ekki meir.

Til að vera með á nótunum þýddi ekkert að finna næstu fréttastöð og fylgjast með. Það gerðist allt á frönsku, tungumáli sem við hvorugar höfðum lært. En lánið leiddi okkur reglulega að góðu fólki sem upplýsti okkur á vel mæltri ensku og eigum við þeim að þakka að hafa ekki verið að þvælast á röngum svæðum í París. Þegar líður á kvöld stend ég á spjalli við mann einn og hann segir mér frá eftirstöðvum slíkrar árásar. Ég spyr hann hvort það sé ekki eitthvað sem við gætum gert til að votta virðingu okkar. Ég býð honum þögn í virðingarskyni.

„Nei, segir hann, alls ekki! Þið megið ekki hætta, þá hafa þeir unnið!“

Áttavillt spyr ég hann frekari upplýsinga og hann svarar mér:

„Syngið! Dansið! Leikið ykkur! Gangið niður strætin með söng í hjarta og brosið! Þá höfum við unnið sigur.“

Ég mun aldrei gleyma þessu samtali.

Hann hafði rétt fyrir sér. Vilji hryðjuverkamannanna var að lama borgina, þeir réðust á ungt fólk. Fólk sem lauk vinnuviku sinni með því að gera sér glaðan dag. Þeir miðuðu aðallega á ungar konur til að gera mennina æfa yfir missi sínum. Þeirra sigur var ekki unninn fyrr en þeir höfðu náð að reita þá til reiði sem gætu svarað þeim í svipaðri mynt. Þetta eru veikir einstaklingar sem eru færir um að gera hluti sem eru ómannlegir. Að svara í sömu mynt er ekki sigur, það er tap. Þá fyrst hafa þeir unnið. En með því að halda áfram að fylla götur Parísar af lífi vinnst hinn raunverulegi sigur.

_5D38502

Ljósmynd/ Heiða Halls

Daginn eftir fórum við að minnisvarðanum á Republique til að votta virðingu okkar. Við höfðum hugsað okkur að kveikja á einu kerti á mann. Það rigndi þennan dag og brátt eftir að við komum upp úr lestarstöðinni fór að dimma. Það var eins og borgin sjálf væri í sorg. Tignarleg styttan heldur yfir fjöldanum grein af ólífutré eins og til að undirstrika þann frið sem hefði átt að ríkja en var rofinn þennan örlagaríka dag. Um leið og við nálgumst hundruðir manna umhverfis styttuna hægjast skrefin ósjálfrátt. Það sem sló mig var þögnin. Hundruð manna samankomin og það eina sem rauf þögnina var einstaka fréttamaður eða einstaka hvísl á milli manna. Rétt áður en við komum að hópnum staldra ég við. Ég gat snert vanlíðan þeirra sem þarna voru samankomnir. Ég skynjaði hana svo sterkt, ég fann hana fylla öll mín vit og hjartað fyllist sorg. Án nokkurra hugsana ráfa ég upp að minnisvarðanum, fell á hnén og fer að kveikja aftur á þeim kertum sem dáið höfðu í rigningunni. Eitt og eitt ljós sem slokknað hafði kviknað á ný.

_5D38490

Ljósmynd/ Heiða Halls

Atvikið frá föstudeginum hafði tekið sér bólfestu í hjarta mínu og mér fannst ég vera að fara á bak við orð mannsins sem bað okkur að lifa í stað þess að syrgja. Metróin voru orðin eðlilega troðin á ný en það veitti mér ekki það öryggi sem ég hélt. Hugur minn leitaði stöðugt til samúðar minnar gagnvart þeim sem misst höfðu í blöndnum ótta við að missa sjálf mitt eigið líf.

Á því augnabliki sveif yfir mig undarleg hugarfarsbreyting. Í lestinni leituðu augu mín að tómum höndum karlmanna sem ekki báru sama litarhaft og ég. Hver taska varð tifandi tímasprengja, jafnvel þótt hún væri merkt Hello Kitty. Í ótta mínum hélt ég yfirveguðu yfirborði. Þar sem ég leyfi augum mínum að flakka um lestina í varkárni fyrir öllum þeim ódæðismönnum sem hér voru um borð, tók ég eftir einu. Í hverjum augum mætti ég mínu eigin augnaráði. Það fólk sem ég óttaðist hvað mest, var með nákvæmlega sömu hugmyndir gagnvart mér. Við vorum öll hrædd. Við vorum öll tortryggin. Ekkert okkar vildi missa líf sitt.

_5D38515

Ljósmynd/ Heiða Halls

Ekki má gleyma því að þessir miskunnarlausu ódæðismenn voru eitt sinn börn. Börn sem eitt sinn tóku fyrstu skrefin sín og sögðu fyrstu orðin sín. En einhvers staðar á lífsleiðinni misstu þau meira en þau kunnu að ráða við og fóru út af brautinni. Þá hefur talsmaður öfgasamtakanna fundið þau og boðið þeim betra líf. Ég er mjög opin trúarlega, ég skipti mér ekki af því hvað trúin heitir svo framarlega sem fólk trúir. Í gegnum heimildaöflun mína um trúarbrögð hef ég komist að sameiginlegum kjarna þeirra flestra. Kærleikurinn. Allt snýr þetta að sama kjarnanum, elskaðu manninn, elskaðu sjálfan þig og elskaðu Guð. Þessi öfgatrú er komin langt út fyrir boðskap Muhammad, sem stóð frammi fyrir því að hann vildi breyta illsku heimsins í kærleika. Kóraninn er falleg skrif með tilvísunum og frásögnum um hvernig má verða betri maður, gagnvart náunganum og gagnvart sjálfum sér.

_5D38499

Ljósmynd/ Heiða Halls

Mistök okkar eru að taka þennan minnihluta trúarsamtaka og álykta að vitfirringin spretti út frá trúnni sjálfri. Orð Muhammad eru að mörgu leyti lík þeim sem komu frá frelsaranum sem við trúum að hafi dáið fyrir syndir okkar eftir að hafa kennt okkur boðskap kærleikans. Ekkert sem hryðjuverkamennirnir gerðu endurspeglar vilja Muhammad. Við megum ekki halda að vegna þessa atvika stafi ógn af öllum þeim sem eru íslam-trúar. Þetta er fólk sem trúir á kærleikann.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283