Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ef ég dey

$
0
0

Ungur kvenrithöfundur á höfuðborgarsvæðinu skrifar:

Ég er orðin ein taugahrúga, þessir síðustu átta mánuðir hafa verið strembnir. Þannig er málum háttað að í febrúar eignaðist ég eltihrelli. Hún er nokkuð sæt,löng og mjó en með svolítið skrítið nef, dökkt hár og auðvitað kolbrjáluð. Stundum starir hún á mig tímunum saman. Um daginn var ég að borða núðlur í skólanum og hún horfði á mig samfleytt í þrjátíu og fimm mínútur, ekki veit ég af hverju. Kannski borða ég núðlur svona fallega. Það er samt ekkert miðað við það sem hún hefur gert mér á þessum átta mánuðum.

Fyrst vorum við ágætar vinkonur, en svo einn daginn virðist hún hafa misst allt vit og rænu. Reyndar var ég eitthvað að borða pitsu með kærastanum hennar. Fyrrverandi kærastanum hennar sem er aftur hennar núverandi. Hún bannaði mér að tala við hitt og þetta fólk og sannfærði mig um að vinir okkar vildu ekkert með mig hafa, því ég er alltaf svo vandræðaleg og óviðeigandi í samskiptum.

Stundum líkar mér vel við hana, þegar hún er róleg og stillt. Hún er líka með tattú af andlitinu mínu á síðunni, undir brjóstahaldaranum. En svo fer hún reglulega í hugrof og þá segist hún ætla að skafa úr mér augun með skeið, koma upp um mína svokölluðu lygasýki eða senda mig til helvítis fyrir aldur fram. Nú verð ég bara að passa mig, ég hef tekið þá ákvörðun að fara ekki í nein teiti sem vinahópurinn heldur því nærvera mín þar gæti komið illa við hana og best er að ekkert komi illa við hana þegar áfengi og hnífar eru innan handar. Ekki heldur skeiðar.

Einnig hef ég ákveðið að fara ekki í útskriftarferðina mína því ég vil ekki verða á vegi hennar sjö drykkjukvöld í röð. Enginn veit hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér. Þegar maður lendir í svona fólki þá verður maður að gera ýmsar varúðarráðstafanir.

Ég skil nestið mitt aldrei eftir á glámbekk í skólanum og ef ég kaupi mér mat þá þarf hann alltaf að vera í innsigluðum umbúðum. Ég sef aldrei með opinn gluggann og læsi líka herbergishurðinni.

Áður en ég fer að sofa sé ég til þess að allar inngönguleiðir hússins séu lokaðar og læstar, engir gluggar opnir, ég set meira að segja stól fyrir hurðina í anddyrinu. Vinir okkar segja oft að hún sé ekki svona hættuleg ef ég læri bara að umgangast hana, en mér þykir auðveldara að forðast hana, því annars þarf ég að leggja svo margt á minnið varðandi hegðun hennar og mig langar helst ekki að þurfa að hugsa til hennar. Sumar nætur dreymir mig að hún sé inni í herberginu mínu, með netta silfurskeið að búa sig undir að fjarlægja augun mín.

Ég finn samt svo til með henni að vera svona veik. Einu sinni mætti ég í rauðum kjól í skólann, en rauður er hennar litur. Þetta varð til þess að hún var heima í tvær vikur, ófær um að mæta í skólann því þarna hafði ég heldur betur farið yfir strikið. Vinir okkar voru flestir á því máli að framvegis ætti ég að mæta í gráu, gulu eða bláu. Rauða kjólinn þurfti að kveðja og loks tókst henni að mæta aftur í skólann. Stundum langar mig að lita hárið mitt skærrautt eins og kjóllinn var áður en hann lenti í ruslinu, en þá yrði ég bara með skærrautt hár í gröfinni. Vangaveltur um eltihrellinn minn elta mig alla daga.

Versta reynsla mín af henni var í vor þegar ég var á balli. Þegar ég var á leiðinni út króaði hún mig af úti í horni og fór að hreyta í mig ýmsum yfirlýsingum.

Það sem ég geri er ekki þitt að segja frá …

Svo datt ég algerlega út og heyrði ekki meira. Ég er ennþá með mynd af andlitinu á henni greypt fast í minni mitt. Hún var heiftarleg, föl, með munninn herptan yfir tennurnar og augun dökk eins og vondir súkkulaðidropar.

Bestu dagarnir með eltihrellu er þegar ég ímynda mér að hún sé bara til í hausnum á mér. Stundum verður sú ímyndun svo raunveruleg að það verður erfitt að greina milli þess sem gerist í alvöru og ekki í alvöru. Eins og þegar vinahópurinn fór í leikhúsferð og í hléinu fórum við stelpurnar út að fá okkur ferskt loft. Sjö stelpur saman úti að anda að sér Reykjavíkurloftinu og ekki ein okkar tók eftir eltihrellunni í dyragættinni. Nema ég. Þegar við gengum inn, gengum við í gegnum hana og hún gufaði upp í þetta fína kvöldloft októbermánaðarins.

Ég er ekkert hrædd við að deyja, en ef ég fell fyrir hendi hennar þá vil ég vera búin að ákveða hvaða lit ég ætla að vera grafin í.

Gulur, blár eða hvítur? Er viðeigandi að hafa gráa lík­­kistu? Er töff að láta vini sína krota á líkkistuna? Ef ég dey, hvað verður þá um eltihrelluna mína?

Ég vona að henni batni. Ef hún er til í alvöru, af því stundum er ég ekki viss. Suma daga hrifsar hún í mig og tuskar mig til en aðra daga er hún bara þarna, hvíslar ónotaorðum að mér á meðan fólk gengur í gegnum hana. Ef kærastinn hennar, fyrrverandi, núverandi, er til í raun þá vona ég að hann komi í jarðarförina mína. Hann gæti borðað mini-pitsur í erfidrykkjunni minni.

Dauðinn á ekki að vera mér svona nálægur, en ef ég dey þá held ég að ég fari til helvítis. Eltihrellan segir það oft. Svo er ég ekkert góð, ég er allavega ekkert betri en eltihrellan. Ég sé til þess að hún gufi upp í kringum fólk og ef ég dey þá vil ég fara á undan henni. Ég vil líka að enginn vorkenni henni af því hún setti mig í búr. Kannski fer hún á sama tíma og ég, ef hennar eigin köllun í lífinu er að vera kvalari minn, hvað verður þá um hana þegar hún fær ekki að kvelja mig?

-L.L-

Ljósmynd Íris Ann


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283