Breytingu á „framkvæmdarlegum atriðum“ kallaði Ólöf Nordal innanríkisráðherra það að færa vopn í hvern einasta lögreglubíl höfuðborgarsvæðisins í nýlegu samtali við RÚV. Ráðherrann var ekki beðin um nánari skýringu á ummælunum. Skömmu áður hafði Fréttablaðið greint frá því að til stæði að koma vopnum í alla lögreglubíla á höfuðborgarsvæðinu. Líkt og í tilfelli ráðherra á RÚV var breytingin töluð niður og lítið gert úr mikilvægi hennar af talsmönnum lögreglu sem ræddu við Fréttablaðið.
Lögreglan hefur haft vopn allt frá því eftir Gúttóslaginn en svo vitnað sé í orð Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjón hjá embætti ríkislögreglustjóra, í kjölfar hríðskotabyssukaupamálsins í lok síðasta árs þá hefur „meginreglan [verið] sú að þau eru geymd á lögreglustöðvum.“ Það er ekki léttvægt smáatriði af tæknilegu tagi að færa vopn af lögreglustöðvum í hvern einasta bíl. Hvað þá að það sé léttvægt að færa aðgengið að vopnunum úr höndum sérsveitar í hendur allra (eða því sem næst) lögreglumanna.
Í umfjöllun Fréttablaðsins segir: „Þessi breyting er endir á þriggja ára þjálfunaráætlun lögreglunnar sem lýkur 10. desember. Eftir þann tíma verður hafist handa við að koma vopnum fyrir í bílunum.“ Merkilegt ef rétt er sökum þess að Jón F. Bjartmarz sagði fyrir ári að „engin ákvörðun hafi verið tekin um að vopnbúa [lögreglubíla á höfuðborgarsvæðinu],“ í samtali við Morgunblaðið. Tilefnið var umfjöllun DV um vopnakaup lögreglunnar á afgangsvopnum norska hersins. Í DV var því haldið fram að ákvörðunin um að vopn færu í ökutæki lögreglunnar væri þegar tekin. „Síðan er heldur ekki rétt að það sé búið að taka ákvörðun um að setja vopn í alla lögreglubíla. Hið rétta er að vopn eru að jafnaði geymd á lögreglustöðvum,“ segir Jón en tekur fram að einstakir lögreglustjórar á landsbyggðinni hafi á undanförnum árum tekið sjálfstæða ákvörðun um að hafa vopn í bílum. Hann bendir á að embætti lögreglunnar á landsbyggðinni geti náð yfir gríðarlega stór svæði og embættin séu fámenn. „[Komi slík staða upp] þarf að sækja vopnin á lögreglustöð, ef menn eru ekki þar, og það getur tekið tíma. Það hefur sjálfsagt verið meginástæðan fyrir því að lögreglustjórar hafa tekið þessa ákvörðun.“
Það eitt að lögreglan og yfirmenn hennar virðast ófærir um að gefa skýr og heiðarleg svör um fyrirætlanir sínar ættu að vera nægar til þess að efast um færni embættisins til að skotvopnavæðast. Þá er ljóst á framkomu lögregluembætta síðustu ár að lögreglan hefur lagt sig fram við að vopnavæðast í leynd.
Tilfærsla vopna er stór pólitísk ákvörðun og af þeim sökum hefur Kvennablaðið tekið saman nokkur atriði sem við teljum vert að hafa í huga þegar lögregla og yfirvöld láta eins og skotvopnavæðing lögreglu sé aðeins hjákátlegt tækniatriði sem varði almenning ekkert.
Lögreglan er í raun eftirlitslaus
Lögreglan á Íslandi er í raun eftirlitslaus stofnun. Formlega fellur eftirlit með störfum lögreglu á hendur fjölda stofnana en raunin er sú að það er því sem næst ekki til staðar. Svo veikt, dreift og flókið er eftirlitið að í mörgum tilvikum vita þeir sem fara með eftirlit með lögreglu ekki af því. Fjallað var um eftirlitsnet lögreglu í tímaritinu Skástrik árið 2013. „Skástrik leitaði svara um hvernig eftirliti með lögreglunni væri háttað. Athugun okkar leiddi í ljós afar flókið eftirlitsnet sem er á höndum margra stofnana. Eftirlit með lögreglunni fellur þannig undir starfsemi umboðsmanns Alþingis, Ríkisendurskoðunar, ríkissaksóknara, Alþingis og lögregluembættanna sjálfra.“ Ítarlega kortlagningu þeim stofnunum sem fara með eftirlitsskyldur yfir lögreglu má lesa hér.
Í leiðara Skástriks sem skrifaður er af tilefni úttektarinnar segir: „Lögreglan er meðal þeirra stofnana sem falið er mikið vald og mikið traust í samfélagi okkar. Að sama skapi virðist eftirlit með störfum lögreglu vera afar veikt. Því er dreift á fjölda stofnana og óljóst er hver eigi að grípa inn við hvaða tækifæri. Við þetta bætist svo að kjörnir fulltrúar sem virkastir eiga að vera þegar kemur að eftirliti virðast einfaldlega ekki sjá það sem hlutverk sitt að þvælast fyrir með eftirliti og eftirgengni. Nema þegar fella má pólitískar keilur og sparka í andstæðinginn; þá sameinast heilu þingflokkarnir og kalla eftir rannsóknarnefnd um hugðarefni sín.“
Ríkissaksóknara er falin eftirlitsskylda með lögreglu og sá meðal annars um rannsókn á andláti Sævars Rafns Jónassonar sem drepinn var af lögreglu. Ríkissaksóknari telur að stofnunin geti ekki með virkum hætti haft eftirlit með lögreglu. Þetta kemur fram í bréfi Sigríðar Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, til innanríkisráðherra í júní árið 2014. „Ríkissaksóknari telur mjög brýnt að taka til skoðunar hvernig komið verði á virku eftirliti með störfum lögreglu og fyrirkomulagi málsmeðferðar þegar borgararnir telja að lögreglan hafi ekki fylgt réttum reglum í störfum sínum og samskiptum.“ Í bréfinu bendir Ríkissaksóknari á að embættið njóti aðstoðar lögreglu. Það sé því ekki endilega til að vekja traust borgara sem telja á sér brotið að embætti ríkissaksóknara rannsaki slík mál. Þá er einnig bent á að í lögum sé ekki kveðið á um virkt eftirlit.
Umboðsmaður Alþingis getur tekið málefni lögreglunnar til athugunar berist embættinu kvörtun. Meginreglan er þó sú að umboðsmaður tekur aðeins kvartanir til meðferðar hafi önnur stjórnsýsluúrræði verið reynd. Það þýðir í raun að umboðsmaður metur aðeins hvort hefðbundnar leiðir sem borgarar geta farið til að leita réttlátrar málsmeðferðar hafi dugað til að fá sanngjarna úrlausn. Umboðsmaður Alþingis hefur hins vegar ríka heimild til upptöku frumkvæðismála. Þannig getur umboðsmaður ákveðið að eigin frumkvæði að taka mál til meðferðar án sérstakrar kvörtunar. Í slíkum tilvikum getur umboðsmaður tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds, í þessu tilviki lögreglu, til almennrar athugunar. Sá böggull fylgir skammrifi að umboðsmanni Alþingis skortir fjárheimildir til að geta sinnt frumkvæðisskyldu sinni. „Eins og fjárveitingum til embættisins [hefur] verið háttað síðustu ár [hefur] ekki verið kostur á að ráða sérstaklega starfsmenn til að sinna þessum verkefnum. Þá tók ég fram að með óbreyttum fjárveitingum yrði m.a. ekki kostur á að sinna frumkvæðismálum að ráði. Á árinu 2012 hóf ég því aðeins athugun á tveimur málum að eigin frumkvæði þrátt fyrir að ég telji slíkar athugunir mikilvægan þátt í starfi umboðsmanns,“ segir í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012. Þess ber að geta að sams konar fyrirvara er að finna í skýrslu ársins 2011 og svo auðvitað áranna sem á eftir fylgja.
Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði í ársbyrjun um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu skilaði niðurstöðu sinni í lok nóvember. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram sú tillaga að ráðherra skipi þriggja manna eftirlitsnefnd með störfum lögreglu sem hafi það verkefni að taka við erindum frá borgurunum, yfirfara þau og greina hvort um sé að ræða kæru um refsiverða háttsemi eða kvörtun er lúti að starfsaðferðum lögreglu, og komi erindum í viðeigandi farveg.
Í september lögðu Píratar fram þingsályktunartillögu um að forsætisnefnd yrði falið að undirbúa stofnun sjálfstæðrar stofnunar á vegum Alþingis sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Þingsályktunartillagan hefur enn ekki fengið samþykki og er til umfjöllunar allsherjar- og menntamálanefndar.
Lögreglan hefur skotið mann án afleiðinga eða breytinga á starfsháttum
Skömmu fyrir sjö að morgni 2. desember 2013 var Sævar Rafn Jónasson úrskurðaður látinn í íbúð sinni í Hraunbæ. Í fyrsta sinn hafði sérsveit lögreglu fellt mann. Sævar hafði árum saman átt við geðræn vandamál að stríða. Aðdragandinn að umsátri sérsveitarinnar fyrir utan heimili hans var nokkur. Viðvaranir voru margar og heimildir til inngrips til staðar. Þrátt fyrir það aðhafðist lögreglan ekki. Tveimur mánuðum fyrir andlát Sævars var hann stöðvaður vegna ölvunarakstur og ætlaðs vopnalagabrots. Lögreglan gerði hnífa upptæka en í málaskrá lögreglu, LÖKE, kemur fram að lögreglumaðurinn sem sá um málið taldi að Sævar ætti ekki að bera vopn í því ástandi sem hann var í. „…hann virkar ekki andlega heill á geði í bland við það ölvunarástand sem hann var í,“ segir í lögregluskýrslu. Sævar hafði þá áður hótað bæði fjölskyldu sinni, lögreglu, starfsfólki félagsþjónustunnar og einstaklingi sem hann taldi sig eiga sitthvað sökótt við vegna viðskipta.
Sigríður Ósk Jónasdóttir, systir Sævars, tilkynnti versnandi ástand bróður síns til lögreglu tvívegis með formlegum hætti. Fyrst í maí 2013 þegar hún tjáði lögreglunni á Akureyri að Sævar segðist hafa byssu undir höndum og að hann ætlaði sér að beita henni gegn fjölskyldu sinni og lögreglunni. Þá aðhafðist lögreglan ekkert. Skömmu síðar, eða í júní, sendi Sævar bréf á starfsmann Héraðsdóms Reykjavíkur og almennt pósthólf dómsins um að hann hefði keypt sér byssu og hygðist nota á nafngreindan aðila. „Ég get svosem frætt ykkur með því að fyrir 200.000,- keypti ég Winchester pumpu og tösku af skotum (…) enn þetta fuðrar upp í trýnið á ykkur og [*****] verður drepinn. Hafið þið aldrei heyrt um „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.““ Sami póstur var síðar sendur á innanríkisráðuneytið. Sigríður fékk svo svipaðan póst sem innihélt hótanir gagnvart fjölskyldu Sævars og lögreglu. Hún tilkynnti áhyggjur sínar en án árangurs.
Það vekur sérstaka athygli að Sævar hafði víða viðurkennt kaup á „Winchester pumpu.“ Sævar var ekki með byssuleyfi og gæti slíkt talist sem rökstuddur grunur um vopnalagabrot. Brot á vopnalögum varðar allt að fjögurra ára fangelsi. Í tilfelli Sævars hafði hann ekki aðeins tilgreint vopnakaup heldur hótað ofbeldi gagnvart nafngreindum einstaklingi sem hann taldi sig hafa harma að hefna gegn. Í ljós hefur komið að haglabyssa Sævars var þýfi sem hann hafði keypt á netinu. Upplýsingar sem komið hefðu fram hefði lögregla lagt trú á hótanir Sævars og aðvaranir systur hans og óskað heimildar til húsleitar byggða á rökstuddum grun um vopnalagabrot. Það hefði getað bjargað lífi Sævars.
Andlát Sævars var rannsakað af ríkissaksóknara sem komst að þeirri niðurstöðu að um neyðarvörn hafi verið að ræða en það er ekki refsivert. Hefði lögregla brugðist við fjölda viðvarana er ekki ólíklegt að Sævar væri á lífi og að sérsveitarmaður þyrfti ekki að lifa við að hafa drepið mann. Vanhæfni er ekki alltaf brot á lögum.
Lögreglan skráir og flokkar fólk eftir stjórnmálaskoðunun en neitar svo fyrir það.
Undanfarin ár hafa komið upp mál þar sem stjórnmálaskoðanir fólks virðast hafa áhrif á sýn lögreglumanna á borgarana. Í lok árs 2014 mátti lögregla una því að afhenda skýrslu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns og varaþingmanns Sjálfstæðisflokks, um skipulag lögreglu við mótmæli á árunum 2008 til 2011. Í stuttu máli leiðir skýrslan í ljós að lögreglan fylgdist sérstaklega með þeim mótmælendum sem taldir voru aðhyllast anarkisma, bæði meðan búsáhaldabyltingin stóð yfir og eftir að henni lauk. Lögreglan var meðvituð um stjórnmálaskoðanir fólks og svo virðist sem sérstök fæð sé lögð á ‘anarkista’.
„Kl. 11:10 var tilkynnt að um 40 mótmælendur væru norðan við bankann og af þeim um 10 anarkistar,“ segir á blaðsíðu 151 í skýrslunni þar sem fjallað er um mótmæli við Seðlabankann 10. febrúar 2009.
Í atvikalýsingu af mótmælum þann 8. júní 2009 segir: „Kl. 15:20 var farið að berja rúður á þinghúsinu og komu upplýsingar innan úr húsinu að þetta ylli mikilli truflun. Voru anarkistar þarna fremstir í flokki og því ákveðið að kippa þeim út úr hópnum. Endaði með því að fimm menn voru handteknir af þeim sem verst létu.“
Í mótmælum sem efnt var til daginn eftir kemur fram að tiltekinn lögreglumaður sem annaðist aðgerðastjórn hafi beðið um að „fylgst yrði með anarkistum“ Þá virðist sem lögreglan hafi elt „anarkistana“ af vettvangi mótmæla þann 17. júní og fylgst með þeim. „Fylgst var með aðilum sem voru að sniglast í kringum Dómkirkjuna. Sást til átta til níu anarkista sem voru á ferðinni í kring um kirkjuna og voru með háreysti. Fylgst var með þeim, maður á mann. Gekk vel fyrir gesti að ganga til kirkju og var heiðursvörður þá leystur upp í bili. Kl. 11:25 var anarkistahópurinn kominn að Thorvaldsen og bað ARM um að fylgst yrði áfram með þeim. Þeir héldu síðan leið sinni í austur Bankastræti.“
Þrátt fyrir að augljóst sé á skýrslunni að lögregla skráir stjórnmálaskoðanir mætti lögreglustjóri Reykjavíkur fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og sagðist ekki telja að lögreglan gerði slíkt alla jafna. „Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á og kannski erfitt fyrir mig að meta forsendurnar á þeim tíma sem þessi ákvörðun er tekin. En eftir á hefði mátt haga samantektinni með þeim hætti að það kæmu ekki fram nöfn eða stjórnmálaskoðanir eða persónulegar skoðanir,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri við þingnefndina.
Reyndar hefur áður komið fram að lögregla stundar einmitt þessi vinnubrögð. Ferðamenn máttu til að mynda búa við að vera spurðir út í stjórnmálaskoðanir sínar á árunum í kringum uppbyggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þá voru gerðar tilraunir til að vísa fjölda fólks úr landi á grundvelli þeirra upplýsinga. Opinberlega neitaði lögreglan ætíð fyrir slíkar aðgerðir en árið 2008, nokkrum árum eftir uppbygginguna, lét Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, taka saman skýrslu um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum, að beiðni þingmanna VG. Skýrslan er vægast sagt hrákasmíð og fullkomið dæmi um hvítþvottaskýrslu þar sem upplýsingar eru valdar með fyrirfram ákveðna útkomu að leiðarljósi. Þó er viðurkennt í skýrslunni að lögregla stöðvaði fólk með það að leiðarljósi að spyrja út í skoðanir þeirra á uppbyggingu Kárahnjúka og að tilraun hafi verið gerð til að vísa hópi fólks með rangar skoðanir úr landi.
Þá er vert að benda á furðulega grein eftir Gísla Jökul Gíslason sem birtist í Lögreglublaðinu árið 2006 undir heitinu Spellvirkjar og mótmælendur. Greinin afhjúpar hreint út sagt ógeðfellda sýn lögreglu gagnvart mótmælendum, anarkistum og umhverfisverndarsinnum. Í greininni er því lýst hve illa lyktandi mótmælendur eru, skrýtin og illa til fara. Þau eigi litla peninga og veki almennt ónæði. „Ætli maður græði mikið á því að vera atvinnumótmælandi?” spurði ungur Reyðfirðingur okkur. „Nei, þú hefur að minnsta kosti ekki efni á sápu, svaraði félagi minn,“ segir í greininni. „Þá einkenndi það hópinn að þau höfðu litla peninga handanna á milli og önnur háttsemi þeirra svo ekki sé minnst á að spellvirkin vöktu litla hrifningu heimamanna. Þau sáust gramsa í rusli fólks til að leita að einhverju ætilegu, stálu afgöngum af borðum í söluskálum og við það bættist að þau voru skítug, illa lyktandi og illa til höfð. Sennilega passaði það inn í þeirra lífsstíl og hugsjónir en það má segja að flestir aðrir hafi viljað sjá þau fara eitthvert sem lengst í burtu.“ Gísli er ósáttur við þá tilhneigingu fjölmiðla að tala um mótmælendur í sömu andrá og Saving Iceland-hópinn. „Fjölmiðlar hafa kallað það fólk mótmælendur en það er sorglegt að nota sama orð yfir alla sem eru á móti framkvæmdunum. Þeir sem mótmæla í sátt við lög eru mótmælendur en þeir sem einsetja sér með ásetningi að raska starfsemi eru ekki mótmælendur í þeim skilningi. Hér eftir kýs ég að kalla þá spellvirkja.“ Þá fer það mikið fyrir brjóstið á honum að erlendir aðilar komi hingað til að mótmæla. „Venjulegt fólk fer ekki í tjaldferðalag og þyngir sig með rörum, reiðhjólalásum (sérstaklega ef það er ekki með reiðhjól), rörhólkum og keðjum. Best þótti mér þó þegar hópur manna minntist Jóns forseta og að við værum þjóð hans sem sagði „Vér mótmælum”. Sömu menn kusu að gleyma að hann var að mótmæla íhlutun útlendinga í íslensk málefni og það var nákvæmlega það sem var að gerast.“ Við lestur greinarinnar er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvort lögreglumenn deili almennt þessari sýn Gísla á fólki sem talið er skrýtið eða utan meginstrauma. Um leið er eðlilegt að spyrja hvort slík þröngsýni sé til þess fallin að skekkja dómgreind lögreglunnar til að bregðast við í hlutfalli við meint brot.
Málaskrá lögreglu er svo afar ítarlegur gagnagrunnur ef marka má svar innanríkisráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, frá árinu 2012. Alls eru 325 þúsund einstaklingar í málaskrá lögreglu. Í svari ráðherrans kemur fram að lögreglan hafi safnað upplýsingum í málaskrána frá árinu 1988 en öll lögregluembættin höfðu fyrst tengst miðlægum gagnagrunnum lögreglu í upphafi ársins. Samtals hafa 19.621 fyrirtæki og 325.003 einstaklingar verið skráðir hjá lögreglu. Af þeim eru 38.275 erlendir ríkisborgarar og 19.754 látnir. Ástæða skráningar getur verið af margvíslegum toga, sem vitni, tilkynnendur, farþegar í umferðaróhappi, tjónþolar, kærendur, kærðir og svo framvegis. Engin ákvæði eru um eyðingu upplýsinga í gagnagrunnum lögreglu.
4. Frændsemi og rétt flokkskírteini en ekki faglegheit er það sem blívar
Til að fá yfirmannsstöðu í Lögregluskóla ríkisins er ekki endilega rétt að vera fær og faglegur því best er að hafa rétt vensl. Þeir sem ljúka grunnnámi í Lögregluskóla ríkisins geta starfað sem lögreglumenn. Meðal yfirmanna skólans er Birna Guðmundsdóttir, frænka Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra. Birna var skipuð þvert á ráðleggingu skólans af Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í miðju lekamálinu. Þá þegar var innanríkisráðherra og yfirmaður lögreglunnar í vanda vegna algjörs virðingarleysis gagnvart eigin embætti.
„Embættið rekur ekki minni til þess í 16 ára sögu að stöðuveitingar ríkislögreglustjóra hafi fyrr fengið á sig pólitískan stimpil og er ásökun um pólitíska stöðuveitingu vísað til föðurhúsanna,“ sagði í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra í tilefni af skipun Birnu.
Seinna kom svo auðvitað í ljós að ráðningin var ófagleg og brot á jafnréttislögum. Þá kom í ljós að ríkislögreglustjóri virtist ekki hafa borið umsækjendur saman á heildstæðan hátt. Meðal umsækjenda var maður með 14 ára reynslu innan lögreglunnar en ekki fjögurra ára, eins og Birna. Þvílík fjarstæða að halda því fram að fjölskyldutengsl við Hönnu Birnu hafi haft eitthvað að segja … bölvuð tortryggni alltaf hreint!
Talandi um skipanir í lögregluembætti þá var núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins skipuð án auglýsingar eftir að fyrrverandi ráðherra hrakti forvera hennar úr embætti. Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð af Hönnu Birnu í miðju lekamálinu. Seinna kom auðvitað í ljós að Sigríður Björk hafði átt þátt í lekamálinu og hafði ekki séð nokkra ástæðu til að tilkynna um þátt sinn í málinu þrátt fyrir að ráðherra væri til rannsóknar. Ljóst er að Sigríður Björk og Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu, sem var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna lekamálsins, áttu þrjú samtöl við upphaf lekamálsins, 20. nóvember 2013. Þá kemur fram í rannsóknargögnum að Sigríður Björk notaði af einhverjum ástæðum óskráðan síma við samskiptin. Sigríður Björk hefur alla tíð haldið fram að þau Gísli hafi ekki náð saman fyrr en eftir lekann. Þeim Gísla hefur reyndar ekki alltaf borið saman um það atriði. Hitt er svo annað að það hvort þau ræddu Tony Omos fyrir lekann eða eftir er aukaatriði. Lögreglustjórinn í Reykjavík sat á upplýsingum er gátu varðað rannsóknarhagsmuni þar sem yfirmaður hennar, innanríkisráðherra, var til rannsóknar. Sigríður vissi vel að aðstoðarmaður ráðherra óskaði eftir greinargerð um hælisleitanda sem ráðuneytið var grunað um að vera í stórfelldri ófrægindaherferð gegn. Samt þagði hún vikum saman.
Næst kom í ljós að henni hafði aldrei verið heimilt að afhenda gögnin til aðstoðarmanns. Persónuvernd taldi þannig að verklag hennar væri í bága við 11. og 12. grein laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þessu svarði Sigríður með orðunum: „Nei, ég tel ekki að ég hafi brotið lög.“
Þegar kemur að furðuskipunum þá er eiginlega ekki hægt að tala um lögregluna án þess að minnast á Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum. Ferill Ólafs Helga er gegnumsýrður af hitamálum og furðulegri sýn á vald. Ólafur starfaði sem sýslumaður og lögreglustjóri á Selfossi frá 2002 en var áður sýslumaður á Ísafirði. Hvað eftir annað hefur Ólafur komist í fjölmiðla vegna starfa sinna. Ólafur Helgi lét framkvæma nauðungarsölu án lagaheimildar árið 2011. Annar sækjandi málsins átti hús í Þorlákshöfn og hafði leitað til umboðsmanns skuldara, en hinn sækjandinn átti helmingshlut í eigninni. Íbúðalánasjóður og Byko fóru fram á nauðungarsölu, en drógu beiðnina til baka eftir að hafa fengið upplýsingar frá umboðsmanni skuldara. Ólafi Helga barst jafnframt tilkynning um þetta en ákvað engu að síður að framkvæma nauðungarsöluna. Sýslumanninum á Selfossi var því gert að greiða sóknaraðilum 200.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti og nauðungarsalan dæmd ógild.
Í Vestmannaeyjum gekk maður sem nauðgað hafði stjúpdóttur sinni laus í ár án kröfu um gæsluvarðhald eftir að myndbandsupptaka af honum við verknaðinn komst í hendur lögreglu. Maðurinn var grunaður um kynferðisbrot gegn þremur stúlkum og fannst gríðarlegt magn barnakláms í fórum hans. Þrátt fyrir allt þetta krafðist Ólafur Helgi ekki gæsluvarðhalds yfir honum. Taldi hann manninn ekki ógna almannahagsmunum og sagði m.a. við RÚV að hver maður væri saklaus uns sekt væri sönnuð. Málið kom á borð saksóknara sem krafðist gæsluvarðhalds fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Í kröfugerð sinni gagnrýndi settur saksóknari lögreglustjórann fyrir að hafa ekki sjálfur farið fram á gæsluvarðhald. Í niðurstöðu dómstólsins í lok júní árið 2011 kom fram að ríkir almannahagsmunir stæðu til þess að menn sem grunaðir væru um alvarleg og ítrekuð brot gegn ungum börnum gengju ekki lausir. „Vegna alvarleika, umfangs og eðli brotanna þykir engu breyta við mat á skilyrðum fyrir gæsluvarðandi af þessum toga þó ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald vegna almannahagsmuna meðan á lögreglurannsókn stóð,“ sagði í úrskurðinum.
Frægastur er Ólafur Helgi þó fyrir að hafa árið 2007 þvingað þvaglegg inn í konu vegna umferðarlagabrots. Konan neitaði að veita lögreglu sýni en í stað þess að svipta hana ökuréttindum ákvað Ólafur Helgi að valdbeiting væri meira viðeigandi. Ólafur Helgi varði ákvörðunina í samtali við Blaðið og sagði meðal annars: „Það hefur margoft gerst hjá okkur að settur hafi verið upp þvagleggur hjá karlmönnum. Ég minnist þess hins vegar ekki að áður hafi þurft að setja upp þvaglegg hjá kvenmanni. Ég kannast ekki við það að nokkur karlmannanna hafi talið að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða.“
„Konan kærði lögregluna til ríkissaksóknara fyrir kynferðisofbeldi og lýsti atvikum þannig að gyrt hefði verið niður um hana og henni haldið nauðugri af karlkyns lögregluþjónum þegar sýnatakan fór fram. Ríkissaksóknari hóf ekki opinbera rannsókn á málinu, og túlkaði Ólafur Helgi það sem svo að lögregla hlyti að hafa „staðið réttilega að verki“.“ segir í umfjöllun DV af ferli Ólafs Helga. „Umboðsmaður Alþingis tók hins vegar málsmeðferð lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði og sendi dómsmála- og mannréttindaráðherra bréf þann 26. ágúst árið 2010. Þar vitnaði settur umboðsmaður til pyntingarákvæðis stjórnarskrárinnar, samsvarandi greinar í mannréttindasáttmála Evrópu og grundvallarreglunnar um meðalhóf. Ráðuneytið féllst á að meðalhófs hefði ekki verið gætt, viðurkenndi mistök og greiddi konunni skaðabætur.“
Lögreglan notar norskar handtökuaðferðir.
Þrátt fyrir að eyða milljónum í spuna og krúttboðskap á samfélagsmiðlum þá er lögreglan sú ríkisstofnun sem hefur heimild til valdbeitingar gegn borgurum. Stofnunin á sér nokkuð langa sögu þess að fara offari. Árið 2013 fór myndband af ‘norskri handtökuaðferð’ eins og eldur um sinu samfélagsmiðla. Í myndbandinu sést lögreglumaður opna hurð á konu sem augljóslega er undir áhrifum, skella henni utan í bekk og draga svo eftir götunni áður en konunni er kastað aftur í lögreglubíl.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, nýtti hvert færi til að gera lítið úr málinu. Snorri er einmitt maðurinn sem benti á að handtökuaðferðin er norsk. Vandinn við þá röksemdafærslu er að það skiptir nákvæmlega engu máli hvaðan aðferðin kemur. Það skiptir hins vegar máli hvort lögreglan hafi beitt vægustu aðferð sem völ var á. Í þessu máli er klárt að svo er ekki. Lögreglunni virðist nefnilega ganga afar illa að skilja að heimildinni til valdbeitingar fylgir sú kvöð að vægasta mögulega aðferð sé ávalt beitt.
Snorri hefur alla tíð varið atvikið og viðbrögð lögreglu. Meðal röksemdafærslna er að konan hafi skyrpt í andlit lögreglumannsins en því fylgi smithætta, aðferðin sé viðurkennd og að konan hafi sjálf verið dæmd fyrir brot gegn valdstjórninni. Aldrei virðist Snorri, sem talsmaður lögreglumanna, velta fyrir sér skala viðbragðanna.
Sömu sögu má segja af aðgerðum lögreglu á Extreme Chill Festival sem haldin var síðasta sumar en þar fór lögreglan gjörsamlega úr límingunum. Fjallað var um aðgerðir lögreglu í Morgunblaðinu skömmu eftir hátíðina. Þar lýsir blaðamaður því þegar lögregla lét gesti hátíðarinnar afklæðast, hótað handtöku og þuklaði á gestum á meðan lögreglan dundaði sér við að setja upp vegatálma. Samkvæmt lýsingu blaðamannsins var hátíðin öll sú rólegasta. „Það rímar við upplifun bæjarbúa en DV ræddi við oddvita bæjarstjórnar í morgun og sagði hún að það væri almennt álit íbúa á Hellissandi að hátíðin væri afar þægileg og lítil sem engin vandræði í kringum hana í þau fimm ár sem hún hefur verið haldin.“
Óljóst er hvað mun sætta lögregluna; hvenær vopnun hennar verður lokið
Árum saman hefur hópur lögreglumanna og yfirmanna lögreglu kallað eftir aukinni vopnavæðingu lögreglunnar. Það er þrátt fyrir að óljóst sé við hvaða aðstæðum er verið að bregðast? Þá er óljóst hvað mun sefa vopnaáhuga lögreglunnar.
Árið 2014 fjallaði DV um kaup lögreglu og Landhelgisgæslu á hríðskotabyssum frá norska hernum. Það tók bæði lögreglu og Landhelgisgæslu langan tíma að koma hreint fram um málið. Á stuttum tíma fóru stofnanirnar frá því að neita kaupunum í að kalla byssurnar gjöf en þurfa svo að neita því og bera til baka. Í ljós kom að byssurnar höfðu ekki verið tollaðar rétt, hvað þá annað. Strax þá var grein frá þeirri ákvörðun lögreglu að setja vopn í alla bíla. Því var neitað staðfastlega en nú þegar ákvörðun um að setja vopn í alla bíla er tekin hefur komið fram að bakvið ákvörðuna sé þriggja ára námskeið og endurmenntunarferli.
Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sá sami og hafði milligöngu um kaup á hríðskotabyssunum frá norska hernum, var afar ósáttur við þær mjúku aðferðir sem honum fannst mótmælendur beittir í búsáhaldabyltingunni. Þetta kemur fram í MPA-ritgerð Huldu Maríu Mikaelsdóttur, Tölgyes, en fjallað var um ritgerðina í DV árið 2014. Þar kemur fram að innan lögreglu hafi ákveðnir menn verið afar gagnrýnir á það hversu mjúklega var tekið á mótmælendum. Í umræðu um vopnavæðingu lögreglu hefur ítrekað komið fram að gott hefði verið fyrir lögreglu að hafa vopn í búsáhaldabyltingunni.
Hvað það hefði bætt í eldfimu ástandi hrunsins er erfitt að segja.
Áður hefur lögreglan barist fyrir rafbyssuvæðingu með dyggri aðstoð Bylgjunnar. „Kristófer Helgason, útvarpsmaður á Bylgjunni, er eigandi fyrirtækisins Promax ehf. sem fer með umboð fyrir innflutningi á Taser-byssum til Íslands. Með honum starfar almannatengillinn Ólafur Valtýr Hauksson og hvetja þeir til þess að lögreglan taki upp rafbyssur á vefsíðunni Taser.is. Þá hefur þáttur Kristófers á Bylgjunni verið notaður til að kynna byssurnar,“ segir í umfjöllun DV af óeðlilegum tengslum útvarpsmannsins sem ætlaði að græða á vopnainnflutningi.
Jómfrúarræðu Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem starfaði áður sem lögreglumaður, var undirlögð undir þörfina á rafbyssum fyrir lögreglumenn. Þá sagði Vilhjálmur að „engar læknisfræðilegar rannsóknir benda til þess að eðlileg notkun taser valdi sérstakri hættu á hjartsláttartruflunum, jafnvel þótt rafpúlsinn frá tækjunum fari í brjóstkassa einstaklinga.“ Þá sagði hann: „Embætti ríkislögreglustjóra á nú þegar til taser. Ég tel mikilvægt að sérsveit ríkislögreglustjóra taki þau tæki í notkun við almenna löggæslu sem fyrst, en þeir hafa nú þegar fengið þjálfun í því skyni. Þá skapast mikilvæg reynsla sem hægt verður að nýta við innleiðingu taser fyrir almenna löggæslu í landinu. Það er mikilvægt og áríðandi að lögreglan taki upp notkun taser, það mun stórauka öryggi lögreglumanna sem og brotamanna og um leið spara umtalsverða fjármuni.“
Samkvæmt gögnum sem samtökin Amnesty International tóku saman hafa minnst 500 Bandaríkjamenn látist af völdum rafbyssna frá árinu 2001. Því hefur jafnframt verið haldið fram að líkur séu á dauðsföllum séu sérstaklega miklar hjá þeim sem haldnir eru hjartasjúkdómum eða háðir eiturlyfjum.
Meðfram stanslausri kröfu um aukna vopnavæðingu hefur lögreglan fjárfest umtalsvert í óeirðarbúnaði að ýmsu tagi. Ríkisendurskoðun fjallaði um viðskiptin í lok árs 2011. Í niðurstöðu ríkisendurskoðunar segir: „Fyrr á þessu ári bárust stofnuninni upplýsingar um að löggæslustofnanir landsins keyptu ýmiss konar vörur af fyrirtækjum í eigu lögreglumanna eða náinna venslamanna þeirra án þess að leita tilboða. Ríkisendurskoðun hefur aflað upplýsinga um viðskipti löggæslustofnana við fjögur eftirfarandi fyrirtæki:
– Hindrun ehf., sem er í eigu eiginkonu yfirlögregluþjóns
hjá sýslumanninum á Akranesi.
– Hiss ehf., sem er í eigu lögreglumanns hjá lögreglunni á
höfuðborgarsvæðinu.
– Landstjarnan ehf., sem er í eigu foreldra fyrrverandi
lögreglumanns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,
en hann var starfandi þegar meirihluti viðskiptanna fór
fram.
– Trademark ehf., sem er í eigu eiginkonu lögreglumanns
hjá ríkislögreglustjóra (RLS).“
Meðal þess varning sem var keyptur af venslamönnum lögreglunnar voru piparúðar, óeirðagas, hjálmar, töskur og skildir fyrir óeirðalögreglu. Ríkisendurskoðun sá ástæðu til að áminna lögreglu vegna innkaupanna en eins og svo oft vill vera með lögregluna naut stofnunin pólitískrar velvildar innanríkisráðherra sem varði viðskiptin.
Lögregla, herir og þjóðríki selja gömul vopn til að fjármagna kaup á nýjum vopnum
Byssur eru merkilega einfaldar og endingargóðar. Í grunninn eru tækin afar einföld og þurfa aðeins lágmarksviðhald til að virka áratugum saman. Þannig eru vopn sem framleidd voru fyrir seinna stríð enn í fullri virkni. Vopnvæddar ríkisstofnanir eru gjarnar á að selja eldri vopn, sem og aukabirgðir, áfram til að fjármagna kaup á nýjum. Hríðskotabyssukaupin af norska hernum átti sér þannig stað í miðjum vopnasöluskandal hjá norska hernum. Dagbladet hafði mánuðum saman afhjúpað hvert vopnasöluhneykslið á fætur öðrum, til dæmis skip sem endað höfðu hjá stríðsherrum í Afríku, vopn sem ekki var vitað hvað varð að og svo framvegis. Í tilfelli Íslandskaupanna var ekki gengið réttilega frá kaupunum og hafði Landhelgisgæslan enga heimild til að færa lögreglu vopnin.
Yfirskynið er alltaf að „það gilda strangar reglur um hverjir mega kaupa byssur“ en raunin er auðvitað önnur. Jafnvel á Íslandi hefur sala vopna lögreglu farið í vitleysu. Árið 1991 stóð Jón Bjartmarz að sölu 22 skammbyssna úr vopnabúri sérsveitarinnar til þess að fjármagna kaup á nýjum skammbyssum fyrir sveitina. Stöð 2 sagði frá þessum viðskiptum árið 1997 og fullyrti að ein skammbyssnanna hefði endað í eigu manns sem átti við geðræn vandamál að stríða. Jón Bjartmarz var mjög ósáttur við framsetningu fréttar Stöðvar 2, en hann sagði i samtali við Helgarpóstinn að: „[…]gömlum byssum hefði verið skipt út fyrir nýrri tegund hjá löglegum byssusala árið 1991, en það hefði mátt skilja á fréttinni að þeir hefðu selt byssur um borg og bý. ‘Það gilda strangar reglur um hverjir mega kaupa byssur og við bárum öll kaup undir ráðuneytið.’“ Sjá nánar hér.
Það er því hreint út sagt ótrúlegt að lögregluyfirvöld leyfi sér að tala á þeim nótum að aukinn vopnaburður lögreglu sé fyrst og fremst tækniatriði. Skammbyssur geta hæglega skilað virkni til 200 ára. Það er því ekkert vopn keypt án þess að því fylgi ábyrgð um eyðileggingu eða endursölu. Vopn eru hins vegar nægilega dýr til að menn eyði þeim ekki svo glatt, þótt kostnaðurinn við eina byssu í röngum höndum geti verið gríðarlegur. Því miður virðist oft erfiðara að sjá þann kostnað fyrir.
Fjölmiðlar kunna illa að veita lögreglu aðhald
Íslenskir fjölmiðlar hafa afar takmarkaða burði til að halda lögreglu ábyrga. Lögreglan stýrir í raun því sem næst öllum upplýsingum um stofnunina. Þannig eyðir stofnunin gríðarlegum tíma og peningum í að birta sem jákvæðasta mynd af sér og sínum störfum. Þegar á reynir skýlir lögreglan sér hins vegar bakvið þagnarskyldu eftir hentugleika.
Vopnavæðing lögreglunnar bætir verulega á þörfina á auknu eftirliti með lögreglu, bæði beinu opinberu eftirliti sem og óbeinu. Lögreglan er með mann í fullu starfi við að uppfæra Facebook-síðu sveitarinnar. Þá eru um 12 starfsmenn sem láta til sín taka við uppfærslurnar. Umfjöllun fjölmiðla um samfélagsmiðlaverk lögreglunnar ber með sér hreint út sagt ótrúlegt gagnrýnisleysi. Endalausar fréttir birtast af því hvað lögreglan sé nú sniðug og fyndin á Facebook.
Meðfram auknum krafti á samfélagsmiðlum hefur lögregla í raun lagt minni áherslu á að svara fyrirspurnum fjölmiðla. Facebook hefur því gert lögregluna að ritstjóra eigin upplýsinga. Fyrir var samband lögreglu og fjölmiðla nokkuð gagnrýnislaust.
9. Lögregla hefur margsinnis orðið uppvís af rangri, lítilli og villandi upplýsingagjöf.
Þegar DV fjallaði um kaup lögreglu á hríðskotabyssum gekk afar erfiðlega fyrir blaðið og aðra gagnrýna fjölmiðla að fá svör við einföldustu spurningum. Þess í stað kusu yfirmenn lögreglu að nýta sér aðra og gagnrýnislausari fjölmiðla til að gera lítið úr umfjöllun DV.
Í vopnakaupamálinu birtist þessi tilhneiging mjög skýrt þegar Landhelgisgæslan, ríkislögreglustjóri, Jón Bjartmarz, yfirmaður sérsveitarinnar, og innanríkisráðherra veigruðu sér öll við að svara fyrirspurnum um innflutning vopnanna sem og almennum fyrirspurnum um vopnaeign lögreglunnar. Ofangreind embætti voru svo margsaga um aðdraganda og innihald viðskiptanna við norska herinn og misræmis hefur gætt í staðhæfingum embættismanna um málið. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, hélt því til dæmis fram að ekki mætti birta kaupsamninginn þar sem hann væri trúnaðarmál undir reglum NATO. Talsmaður norska hersins upplýsti síðar fjölmiðla um að það hafi verið Landhelgisgæslan sem óskaði eftir að kaupsamningnum yrði haldið leyndum. Enda sendi Landhelgisgæslan samninginn til fjölmiðla stuttu síðar. Því er ljóst að ekki var um trúnaðargögn vegna kröfu NATO að ræða eins og Georg Lárusson hélt fram.
Sigríður Björk lögreglustjóri hefur þannig nýtt sér þagnarskyldu eftir hentugleika þegar kemur að því að verjast slæmri umfjöllun um hennar störf. Sigríður stundaði það vikum saman að velja sér gagnrýnislausa fjölmiðlamenn til að svara spurningum um hennar störf en hunsaði fyrirspurnir annarra. Þannig naut hún meira að segja aðstoðar Björns Inga Hrafnssonar við að bægja frá sér spurningum fréttastofu Stöðvar 2 vegna þáttar hennar í lekamálinu. Líkt og áður í málinu beitti Sigríður Björk sinni furðulegu rökræðulist. Henni fannst hún nefnilega ekki á flótta undan fjölmiðlum. Í frétt Stöðvar 2 um málið segir: „Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ætlar ekki á neinum tímapunkti að tjá sig við fréttastofu Stöðvar 2 um samskipti sín við fyrrverandi aðstoðarmann innanríkisráðherra. Hún sagði þó í viðtali við Eyjuna nú síðdegis að hún væri ekki á flótta undan fjölmiðlum og hafnaði því að Persónuvernd hefði komist að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið lög.“
Sigríður Björk var á flótta undan fjölmiðlum og það liggur fyrir að hún braut lög um Persónuvernd.
Í maí fjallaði Man magasín um njósnir Mark Kennedy um umhverfisverndarsinna og anarkista árið 2005. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanns til að fá svör við spurningum sýndi lögregla engan vilja til aðstoðar. Í enda greinarinnar má finna þess klausu: „Við vinnslu umfjöllunarinnar var blaðamanni veittur aðgangur að fjölda ljósmynda, myndbandsupptaka og skjala í fórum aðgerðarsinna auk þess að hafa rætt við aðgerðarsinna á Íslandi, Bretlandi og Þýskalandi sem og kjörna fulltrúa í löndunum þremur. Lögregla sýndi litla samvinnu en byggt er á skýrslum og svörum lögreglu sem þegar hafa verið birtar. Upplýsingar í þeim eru ófullnægjandi og stangast á við önnur gögn. Lögreglan gaf ekki færi á sér til að svara spurningum um misræmi á gögnum lögreglu og mótmælendana.“ Málefni Mark Kennedy eru til rannsóknar um alla Evrópu. Í Þýskalandi hefur árum saman verið rekin rannsókn á vegum þingsins. Lögreglan á Íslandi gaf út svar sem er fullt af rangfærslum og inniheldur ekki öll þekkt atvik sem upp komu á tímabilinu. Þá eru upplýsingar lögreglu oft á tíðum hlægilegar og stangast fullkomlega á við fyrirliggjandi gögn. Það hefur þó nægt bæði fjölmiðlum og þjóðþingi Íslendinga. Engin virk rannsókn er á samstarfi Mark Kennedy við íslenska lögreglu.
Hver er hættan sem gerir skotvopnavæðingu lögreglu nauðsynlega?
Í allri umræðu um aukna vopnaþörf hefur lögreglu ekki tekist að benda á rök fyrir aukinni hættu. Ísland er að megninu til vopnlaust land. Það er að skotvopn eru að flestum aðeins talin veiðitæki ekki vopn gegn mönnum. Morð þar sem skotvopnum er beitt eru afar sjaldgæf. Það er ábyrgðarhlutur að hálfu lögreglunar að auka umferð vopna í samfélagi sem að mestu leiti er vopnlaust. Í Bretlandi og Nýja-Sjálandi bera almennir lögregluþjónar ekki skotvopn að staðaldir. Það er ákvörðun sem breskt og ný-sjálenskt samfélag hafa tekið. Raunin er nefnilega sú að iðulega eru tengsl milli glæpatíðni og skotvopnaburðar. Ísland er með einhverja lægstu glæpatíðni í heimi og eru þar rökin fyrir almennum vopnaburði því engin.
Lögreglan hefur brugðist við allri gagnrýni á aukinn skotvopnaburð með þeim hætti að í raun sé engin breyting að eiga sér stað. Hér verður að hafa í huga að sama fólk og talar niður breytinguna er fólkið og mun ef til vill vera í þeirri stöðu að ákveða beitingu skotvopna. Það er því áhyggjuefni að siðferðisstuðull þessa fólks sé svo bjagaður að þau telji sig ekki þurfa að ræða breytingu á skotvopnaburði lögreglunar við almenning. Það er fyrsta viðvörðunin um að þau taki þetta vald ekki mjög alvarlega.
Vopnaburður lögreglu eykur ekki öryggi almennings. Þvert á móti sýna rannsóknir aftur og aftur að öryggi borgaranna er stefnt í hættu af skotvopnaglaðri lögreglu. Árið 2013 skaut breska lögreglan þremur skotum úr byssum sínum. Aðeins sérþjálfaðir lögreglumenn bera skotvopn. Árið 2012 drap lögreglan einn mann. Borið saman við Bandaríkin og lagað að stærðarmun landanna þá eru íbúar Bretlands 100x ólíklegri fyrir að verða fyrir skoti lögreglu en íbúar Bandaríkjanna. Ástæðan er einfaldlega að skotvopn eru fátíð í Bretlandi. Sama á við á Íslandi og það er eitthvað sem vert er að halda í.
Lagatækni, leynimakk og tilhneiging til að gera lítið úr ábyrgð sinni
Árin 2014 og 2015 voru vond ár fyrir skosku lögregluna. Fjölmiðlar í Skotlandi veittu því athygli að á lögreglumenn með skammbyssur fóru að birtast á götum úti. Í ljós kom að tæplega 300 lögreglumenn voru nú þjálfaðir til að bera skotvopn við dagleg embættisstörf. Skoska lögreglan hóf þegar að gera lítið úr málinu og nefndi – eins og sú íslenska – að lögreglumenn gætu ekki skilað vopnunum inn á lögreglustöð ef mikið lægi við. Rökin eru reyndar hálf furðuleg því sama hver rökin eru þá er niðurstaðan sú að menn bera skotvopn meðal almennings. Hvað sem tækniatriðum líður þá hlýtur umræðan að snúast um það hvort samfélagið vilji að lögreglumenn séu alla jafna með skotvopn innan um almenna borgara.
Skoska lögreglan gat hins vegar – ólíkt þeirri íslensku – nefnt hvert einasta atvik þar sem lögregla hafði ‘neyðst’ til þess að fara með skotvopn við dagleg störf. Talsmenn skotvopnavæðingar íslensku lögreglunnar hafa aftur á móti talað um að þeir hafi oft farið vopnaðir til útkalla. Þá hefur formaður Landssambands lögreglumanna lýst því hvernig hann ferðaðist landa á milli með vopnaða byssu. Furðulegast er þó að þetta telja talsmennirnir rök fyrir vopnavæðingu en ekki rök gegn því að þeir séu nægilega hæfir til að bera skotvopn.
Skoska lögreglan eins og sú íslenska taldi sig fullfæra um að ákveða sjálf án samráðs við almenning að auka vopnaburð sinn. Rökin í Skotlandi eins og á Íslandi var að ekki væri um efnislega breytingu að ræða – sem er ótrúlegt rugl – og að lög heimili lögreglu vopnaburð. Það er reyndar í báðum tilvikum eitthvað sem deilt er um.
Ábyrg ríkisstofnun með vald langt umfram aðrar stofnanir samfélagsins er meðvituð um afleiðingar ákvarðana sinna. Lögreglan virðist ekki sjá aukið aðgengi lögreglumanna að skotvopnum sem slíka ákvörðun. Það er áhyggjuefni. Þá hefur lögreglan í hverju vopnahneykslinu á fætur öðru bent á að lögreglan hafi alltaf haft vopn og að hér sé því ekki um ný tíðindi að ræða. Þannig er reynt að spila á þekkingarleysi almennings og þeirra sem telja að íslenska lögreglan sé í grunninn skotvopnalaus við almenn störf. Sé það rangt er vert að benda lögreglunni á að hún hefur upplýsinga- og fræðsluskyldu gagnvart almenningi. Í því ljósi er óskiljanlegt að hún hafi án athugasemda leyft fjölmiðlum heimsins að birta þá mynd af lögreglunni að hér væri um óvopnuð krúttkríli ræða.