Anna Eiríksdóttir skrifar:
Jólin nálgast og allt sem þeim fylgir, veisluhöld og aðventugleði hægri og vinstri. Okkur hættir því miður flestum til að borða of mikið á þessum árstíma.
Í desember er eins og reynt sé með skipulögðum hætti að koma sem mestu matarkyns ofan í fólk við öll tækifæri. Aðventuviðburðir eru í leikskólum, skólum, vinnustöðum og inni á heimilum. Sumir fara á nokkur jólahlaðborð, með vinnunni, vinnu makans, saumaklúbbnum o.s.frv.
Sætindi af öllum gerðum, konfekt, piparkökur og sælgæti er, að því er virðist, hvert sem litið er, í desember. Veislan nær svo hámarki um jól og áramót, ein heljarinnar neysluveisla þar sem fólk raðar í sig veisluréttum frá morgni til kvölds dögum saman.
Ekki halda að ég sé á móti jólunum. Langt frá því, jólin eru auðvitað yndisleg hátíð ljóss og friðar. Tími til að rækta fjölskyldu- og vinabönd, gleðjast, gleðja aðra og hafa gaman og finna friðinn í hjartanu.
En það er staðreynd að eftir jólin upplifa margir vanlíðan. Aukakíló, uppþemba, vökvasöfnun og stækkandi mittismál eru einkennandi „timburmenn“ jólanna. Það eru ekki aðeins sætindin sem fara illa með heilsuna okkar, heldur einnig reykta kjötið sem fólk neytir gjarnan í miklum mæli og enda sumir á bráðadeild sjúkrahúsanna eftir ósköpin.
Þetta þarf alls ekki að vera svona. Það er hægt að njóta jólanna og gera sér glaðan dag með hófstilltum hætti. Ég hvet þig til að huga að því hvernig þú getur komið í veg fyrir beltislengjandi, buxnaþrengjandi og fitusafnandi desembermánuð!
Desember er sá tími ársins sem flestir gera best við sig í mat og drykk. Góðgæti sem freistar er hvar sem við komum og herlegheitin hefjast iðulega strax í byrjun aðventunnar.
Það skal engan undra þótt við bætum á mörg hver á okkur duglega yfir jólin. Jólahlaðborð, smákökubakstur, konfektgerð, laufabrauð og svo auðvitað sjálf jólasteikin, jólaboðin, heimalagaði rjómaísinn, áramótin og allt sem hátíðinni tilheyrir. Jólin hafa þróast í það að verða ein allsherjar neysluveisla. En lítum á björtu hliðarnar, jólin eru ekki komin og það er enn góður tími til að sporna við þessum „jólakílóum“.
Til að bæta á okkur t.d. þremur kílóum af líkamsfitu þurfum við að neyta 21.000 auka hitaeininga umfram það sem líkaminn brennir. Höfum það hugfast að þessi þyngdaraukning er ekki jólalögmál, við getum auðveldlega komið í veg fyrir hana.
Jólin, koma jú aðeins einu sinni á ári og vissulega eigum við öll að njóta þeirra en það er hægt að gera það án þess að leggjast í át. Jólin eru hátíð ljóss og friðar en ekki árlegir „átleikar“ sem hefjast með opnunarhátíð í byrjun desember sem lýkur á nýársdag.
Höfum fyrir reglu að gæta hófs. Það er sjálfsagt að smakka á spennandi kræsingum en mundu eftir þrjá konfekt mola að þeir smakkast allir eins. Svo fáðu þér smá smakk og njóttu bragðsins og ekki síst félagsskaparins. Hugsaðu meira um að njóta þess að hitta vini og ættingja í desember heldur en að borða þig pakksadda við hvert tilefni.
Nokkrar tillögur:
· Baka færri og hollari smákökusortir
· Ef þú ferð í konfektgerð, settu konfektið í fallegar öskjur og gefðu í jólagjöf.
· Þegar farið er á jólahlaðborð. Fara aðeins eina ferð og ekki troða á diskinn. Deila smá eftirrétti með öðrum (smá smakk). Drekka mikið vatn, aðeins eitt glas af jólaöli eða víni.
· Ekki kaupa inn á heimilið „jólagotterí“ fyrr en 1–2 dögum fyrir jól. Ekki kaupa þá tegund sem þú veist að þú getur ekki staðist.
· Hafðu í huga að jóla- og aðventuboð þurfa ekki að snúast fyrst og fremst um mat, heldur geta snúist fyrst og fremst um að hitta fólk. Þegar þú stillir þig inn á slíka hugsun er athyglin minna á matnum. Gleymdu þér í spjalli við fólk en ekki í því að raða á diskinn þinn.